04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (4790)

120. mál, skaði af ofviðri

Frsm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Er get að vísu ekki talað um þessar brtt., sem fyrir liggja, fyrir n. í heild sinni, því okkur nm. hefir ekki gefizt tækifæri til þess að tala saman um þær. En ég vildi skjóta því til þeirra hv. þm., sem hafa komið fram með skrifl. brtt. um það, að færa út það landsvæði, sem skaðabæturnar eiga að ná til, að það er töluverður ábyrgðarhluti að koma með slíkar till., vegna þess að það er enginn vafi á því, að ofviðrið geisaði að mestu leyti yfir takmarkað landsvæði. Það hafa verið gerðar rannsóknir á þessu, og það kom í ljós, að það svæði, þar sem verulegir skaðar urðu, var frá Skagafirði og norður í Þingeyjarsýslu, þó náttúrlega yrðu víðar skaðar. En þó maður hafi fulla samúð með mönnum á Hvammstanga og í Ólafsvík, sem misstu óvátryggða báta, þá sjá allir, að slíka skaða er yfirleitt ekki hægt að bæta. Það, að samkomulag hefir orðið með öllum flokkum um að bæta þá skaða, sem urðu á þessu sérstaka landsvæði, er af því, að þeir voru svo stórfelldir; t. d. er talið, að í Eyjafirði hafi ofviðrið gert meiri skaða heldur en jarðskjálftarnir miklu í sumar, þegar fjöldi húsa hrundi.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að sannfæra hv. þm. V.-Húnv. og hv 4. landsk., og allra sízt að sannfæra nokkurn mann um það, að þessir bátar hafi ekki sokkið. En þetta breytir alveg till. Aðaltill. er byggð á ýtarlegri rannsókn á því, að þarna hafi orðið skaðar, og það er aðeins helmingurinn af þeirri upphæð, sem við þorðum að stinga upp á til þess að hjálpa þessu fólki. En það er mikill munur, hvort einn bátur sekkur eða e. t. v. allir bátarnir, allar bryggjur eyðileggjast og tekur út fiskinn, sem búið er að afla allt sumarið. Það er mikill munur, hvort einn maður líður eitthvað á einum stað eða að þar er almennt hallæri. Þó einn maður missi bát, þá eru fleiri þar til þess að hlaupa undir bagga.

Ég tala að vísu ekki fyrir n. hönd, en það er nauðsynlegt fyrir málið, að þessi till. verði tekin aftur, því að hún brytir alveg tilgangi aðaltill. og er ekki sanngjörn. því að ef á að fara að bæta svona skaða úr ríkissjóði, t. d. ef bátur sekkur á Fáskrúðsfirði og annar á Dýrafirði, þá er komið út í ófæru. Það er nauðsynlegt að fella slíkar till., ef þær verða ekki teknar aftur. Ég segi þetta bara vegna þess, að það má ekki dreifa þessari litlu fjárhæð um allt landið; þá munar ekkert um hana. Það er bara eyðsla úr ríkissjóði. Það á einungis að reyna að bæta úr þar, sem samfelldir skaðar hafa orðið.