31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (4796)

139. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Jónas Jónsson) [óyfir]:

Fjvn. hefir komið sér saman um að óska ettir því, að till. á þskj. 415 verði samþ. af þinginn, en í þessari till. felst nú ekki annað en það, að ríkisstj. sé heimilað að leita kauptilboða erlendis í tvö af þremur varðskipum, sem ríkið á nú. Hæstv. forseti hefir ákveðið tvær umr. um þessa till., en þó þingið féllist á hana, vil ég taka fram, að þá er samt aðalályktunin eftir, sem komið getur til mála í þessu efni, en hún er um það, hvort selja eigi skipin eða ekki. En til þess að fjvn. og Alþingi geti tekið afstöðu til þessa, þarf fyrst að fást vitneskja um það, með hvaða kjörum hægt er að selja skipin, en sú vitneskja fæst ekki nema með því móti að Alþingi heimili ríkisstj. að bjóða skipin út til sölu. Á þessu stigi málsins er því ekki um annað að ræða en það, hvort þingið vill, að skipin verði boðin út. En fjvn. mælist til þess, ef að því verður horfið, að flýtt verði fyrir samþykkt þessarar till., svo hægt verði að bjóða skipin út þegar, því á árangri útboðanna byggist að miklu leyti till. n. um landhelgisgæzluna.

Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í það mál nú, því hér liggur aðeins fyrir sú hlið landhelgismálsins. hvort leita skuli sölutilboða í þessi tvö skip. Ég býst við, að aðalumr-. um málið færi fram, ef tilboð fengjust í skipin; þó vil ég með fáum orðum drepa á ástæður fyrir því, að fjvn. hefir óskað eftir samþ. þessarar till.

Landhelgisgæzlunni hér við land má skipta í þrjú reynslustig. Fyrst önnuðust Danir hana alllengi og notuðu til gæzlunnar venjuleg herskip með töluverðum árangri fyrst í stað. En þegar frá leið kom í ljós, að skip þessi voru ekki hentug þau voru stór og ólík togurunum og þekktust langt til. Þess vegna varð það, hversu mikinn dugnað sem yfirmenn þessara skipa sýndu, þá varð árangurinn minni og minni, því bygging skipanna virtist vinna gagnstætt starfi þeirra.

Þegar Íslendingar tóku gæzluna í sínar hendur með byggingu Óðins 1926, var að ýmsu leyti synt framhjá þessum skerjum hvað snerti byggingu skipsins. Það var haft líkt togara að stærð og útliti, en hraðskreiðara. Nú héldu Íslendingar, að þeir væru komnir á rétta leið í landhelgismálinu, og eftir sömu stefnu var varðskipið Ægir byggt. þannig gekk í nokkur ár, að ríkið hafði til gæzlunnar tvö til þrjú skip, Óðin, Ægi og Þór, en samt sem áður komu erfiðleikar í ljós við þetta fyrirkomulag, aðallega tvennskonar. Fyrst og fremst var þessi útgerð ríkinu mjög dýr; hún kostaði ríkissjóð árlega um 800 þús. kr. Á hinn bóginn kom í ljós, að í ýmsum landshlutum, t. d. á Vestfjörðum, reyndist gæzlan ekki nægileg. Niðurstaðan varð þá sú, að leigja sérstaka báta til gæzlu á þeim stöðum, þar sem mest þótti ábótavant. Í fyrstu voru notaðir óvopnaðir bátar, sem þó gerðu mikið gagn með því að hræða veiðiþjófa. En þetta fyrirkomulag er dýrt og þó ekki gott. Vaxandi reynsla kennir okkur þetta tvennt: Að fyrirkomulagið er of dýrt fyrir ríkissjóð, og líka hitt, að þó þessi stóru skip okkar séu betri en dönsku herskipin, þá eru þau líka að verða úrelt. Eftir því sem fleiri togarar fóru að nota talstöðvar, þá myndast milli þeirra félagsskapur um það, að segja hverjir öðrum frá því, hvar varðskipin eru á hverjum tíma. Þannig hafa þeir alltaf nægan tíma til þess að forða sér. Þannig eru okkar vönduðu varðskip orðin á eftir tímanum á líkan hátt og dönsku herskipin á sínum tíma. Reynslan sýnir nú, að smærri bátar eru hentugri. Út af þessum tveimur ástæðum aðallega er það nú orðin nokkuð almenn skoðun, að það eigi að breyta landhelgisgæzlunni, að við eigum að losa okkur við tvö af þremur varðskipunum, en halda einn eftir, sérstaklega vegna stærri björgunarmála og mannflutninga milli hafna, þegar mikið liggur við. En í stað þessara tveggja skipa eigi að byggja eða leigja fjóra vopnaða báta.

Þetta mál var tekið til athugunar á Alþingi í vetur sem leið. Var skipuð nefnd sérfróðra manna til þess að athuga breytingar á landhelgisgæzlunni. Þessi nefnd hefir setið á rökstólum í sumar, og eftir ýtarlegar rannsóknir komizt að þeirri niðurstöðu, að gæzlunni sé bezt fyrir komið með því að hafa fjóra vopnaða báta, sem auk þess að verja landhelgina annist minni háttar björgunarstörf.

Ég skal ekki fara langt út í að skýra till. n., en það er ætlazt til þess, að tveir þessara báta verði fyrir vestan land, annar í Faxaflóa, en hinn við Vestfirði, einn báturinn verði fyrir Norðurlandi og einn að sunnan og austan. Ég áleit rétt að drepa á þetta, þó það liggi ekki fyrir til umr. nú.

Ég held, að hvernig sem farið er að, þá sé það bersýnilegt, og það skiptir mestu máli, að ríkissjóður er ekki fær um að gera út þessi þrjú stóru skip og verja til þess 800 þús. kr. á ári. Og þó Óðinn væri látinn liggja í höfn allt árið, þá kostaði það 60—70 þús. kr., og 60 þús. kr. kostaði að láta Þór liggja ónotaðan. Það er líka vafasöm ráðstöfun að halda þessum skipum við, láta þau vera byrði á ríkissjóði, en geta ekkert notað þau. Eftir þeirri athugun, sem fjvn. hefir gert á þessu, þá munar það þessu, að þó varðskipin séu tvö látin liggja í höfn meiri hluta ársins, þá kostar gæzlan eins og er 600 þús. kr.: en ef hægt væri að losna við þessi tvö skip, en við gæzluna yrðu hafðir fjórir bátar, auk Ægis, þá mundi það kosta 400—450 þús. kr. Auk þess yrði landhelgisgæzlan betri en áður. Um brtt. vil ég segja það, að ég álít ekki ástæðu til þess að samþ. hana. Það spillir ekkert að vita, hvaða boð kann að fást í Þór. Tveir hv. þm., sem bera fyrir brjósti hag Vestmannaeyja, standa að þessari brtt., en ég vil benda þeim á það, að svo erfiður getur fjárhagur ríkissjóðs orðið, að leggja verði upp bæði Þór og Óðni, og þá er ekki nema Ægi til að dreifa. En jafnvel þó svo fari, dettur engum í hug að láta Vestmannaeyjar vera eftirlitslausar. Ég skil ekki í því, að þeir geti ekki þess vegna fallizt á, að óhætt sé að láta tilboða einnig í Þór.

Ég sé svo ekki ástæðu að fjölyrða um málið á þessu stigi og mun ekki fara út í almennar umr. um málið nú nema alveg sérstök tilefni gefist til.