31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (4804)

139. mál, landhelgisgæsla

Páll Þorbjörnsson:

Hv. þm. N.-Ísf. býsnaðist mikið út af þeirri fávizku minni að telja Óðin úrelt skip. En ég vil ennþá halda því fram, að þegar litið er á alla aðstöðu, þá sé Óðinn í raun og veru úrelt skip. Það er vitanlegt, að með ferðum Óðins hafa landhelgisbrjótar átt auðveldast með að fylgjast, bæði vegna þess, hve hann er auðþekktur á sjónum, og af hinum mikla reyk, sem stafar af því að skipið hefir kolavél. Við þetta bætist svo það, að Óðinn er kolafrekur mjög, og er það ein af ástæðunum fyrir því, hversu dýr hann er í rekstri. Ég hefi ekki fyrir framan mig þær tölur, sem gefnar eru upp af skipaútgerð ríkisins um rekstrarkostnað þessara skipa, en ef ég man rétt, þá er rekstrarkostnaður Þórs um 200 þús. kr., en Óðins um 350 þús. kr. Og þar sem hér er verið að tala um sparnaðarleið í þessu máli, þá er óhætt að slá því föstu, að það skipið, sem er svona miklu dýrara í rekstri en skilar ekki betri árangri, sé orðið úrelt, hvað sem segja má um aldur þess og byggingu.

Þá vildi ég snúa mér nokkuð að því, sem hv. frsm. sagði um till. formanns skipaútgerðarinnar um það að hafa Ægi við Vestmannaeyjar, og danskt eftirlitsskip, ef hann þyrfti að bregða sér frá. Við vitum nú það, að oft hefir komið fyrir, að Ægir hefir verið tepptur við björgunarstarfsemi hingað og þangað við strendur landsins svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir. Og ef Ægir væri nú t. d. staddur í Vestmannaeyjum og skip væri í sjávarháska fyrir Norðurlandi, þá býst ég við, að enginn vildi standa á móti því, að Ægir væri sendur norður til hjálpar, en það gæti tekið nokkuð langan tíma. En ég er hræddur um, að það yrði ekki góð reynsla, sem Vestmannaeyingar hefðu af dönsku skipi til björgunarstarfs og gæzlu. Ég býst við, að hún yrði sízt betri heldur en sú reynsla, sem við höfum nú af þessu skipi við landhelgisgæzlu.

Út frá þessu held ég, að það geti ekki komið til mála að ætla Ægi björgunarstarfið við Vestmannaeyjar og danska skipinu að vera til vara, ef hann þarf að hverfa burtu einhverra orsaka vegna.