31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (4806)

139. mál, landhelgisgæsla

Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að mér þykja að sumu leyti snúast einkennilega umr. um þessa till. eins og hún liggur fyrir, því eins og hv. form. fjvn. skýrði frá, þá felst ekkert annað í henni en það, að Alþingi er spurt, hvort það sé því samþykkt, að leitað sé tilboða í þessi skip, svo að það liggi fyrir, ef tilboð fást, þegar landhelgisgæzlumálin verða tekin til athugunar í heild síðar á þessu þingi, hvað væri hægt upp úr þeim að hafa, ef Alþingi þá vildi, að þau yrðu seld. Það er vegna ráðstafana, sem Alþingi sjálft hefir gert, að því ber skylda til að taka þetta mál til athugunar einmitt á þessu þingi. Það liggur í því, að þegar Alþingi var frestað síðast, var samþ. þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að láta ákveðna menn framkvæma rannsókn á því og leggja fram till. um það, hvernig landhelgisgæzlunni mundi heppilegast verða fyrir komið í framtíðinni, með hliðsjón af því, að sameinuð yrði að einhverju leyti björgunarstarfsemi við strendur landsins og landhelgisgæzlan. Þetta tvennt var tengt þarna saman vegna þess, að í ýmsum verstöðvum er hafinn undirbúningur að því að koma upp björgunarskipum, til þess að hafa með höndum eftirlit með bátaflotanum og annast björgunarstarfsemi. Nú standa svo sakir, að Vestmannaeyjar eru eiginlega eina útgerðarsvæðið hér á landi, þar sem ríkið hefir lagt fram nokkurt fé til þess sérstaklega að halda uppi björgunarstarfsemi á þeim tíma, þegar útgerðin stendur þar hæst. Þetta er ekki vegna þess, að ekki sé þörf fyrir slíka starfsemi víðar, þar sem útgerð er rekin á sama tíma eins og í Vestmannaeyjum, um háveturinn. Frá verstöðvunum hér við Faxaflóa ganga t. d. á annað hundrað stærri vélbátar á veiðar, auk minni bátanna. Hér hefir því einnig verið myndaður félagsskapur fyrir nokkru til þess að safna fé í því augnamiði að koma upp björgunarskipi, og er þegar búið að safna það miklu fé, að líkindi eru til, að hægt verði að hrinda málinn í framkvæmd, ef ekki á næsta ári, þá í ársbyrjun 1937. Sama er að segja um Vestfirði; þar er farið að safna fé í þessu augnamiði. Einnig á Norðurlandi og á Austurlandi, og hefir þegar einnig á þessum stöðum safnazt nokkurt fé. Vestmannaeyingar höfðu forgöngu í því hér á landi að koma upp björgunarskipi, en niðurstaðan varð svo sú, að ríkið tók við skipinu, af því byrðarnar af því virtust vera að vaxa þeim yfir höfuð. Ég veit ekki, hvernig samningum um það hefir verið háttað; hv. þm. Vestm. var að tala um, hversu ríkið væri skuldbundið Vestmannaeyingum, hvort sem sú skuldbinding nær það langt, að þeir þurfi ekki frekari aðgerða við í þessu efni og séu þannig að þessu leyti fráskildir öðrum landsmönnum, sem eru að keppa að umbótum á þessu sviði.

N., sem falið var að athuga þetta mál og tengja að einhverju leyti saman björgunar- og gæzlustarfið, var því vitanlegt, að þó sjómönnunum og öðrum, sem eru að brjótast í að leggja fram fé til þess að koma upp björgunarskútum, tækist af eigin rammleik að koma slíkum skipum upp, þá mundi verða erfitt fyrir þá að halda þeim úti. Og þar sem liggur í augum uppi, að þessi skip geta á takmörkuðum svæðum innt tvöfalt hlutverk að höndum, sinnt landhelgisgæzlu jafnframt björgunarstarfinu, þá virtist ekki nema sanngjarnt, þó sjómenn færu fram á, að ríkið tæki að sér útgerð þeirra. Nú hefir n., sem falið var að athuga þessi mál, lokið störfum. Till. hennar eru ekki að fullu athugaðar ennþá, en eru á leiðinni. Og þar sem þær till. ganga í þá átt, að breyta nokkuð til frá því, sem verið hefir, þannig að gera landhelgisgæzluna nokkuð staðbundnari og sameina hana á sumum svæðum björgunarstarfseminni, þá flytur fjvn. þá till., sem hér liggur fyrir, aðeins með það fyrir augum að vita, hvort Alþingi vill leyfa, að umrædd varðskip séu boðin til sölu, til þess að legið geti fyrir þegar málið verður endanlega afgr., hvort hægt er að fá viðunandi verð fyrir skipin, en á því veltur, hvort fært þykir að gera þá breyt. á tilhögun landhelgisgæzlunnar, sem till. þessarar milliþinganefndar ræðir um.

Nú er í sambandi við þessa till. farið að ræða málið almennt á þeim grundvelli, hvort samþykkt hennar muni hafa í för með sér aukningu á landhelgisgæzlunni eða draga úr henni. Þessi till. felur enga slíka breyt. í sér, því hún er aðeins undirbúningur undir það, að alþingi taki síðar ákvörðun um þetta mál, hvort halda á landhelgisgæzlunni í sama horfi og verið hefir, eða breyta eitthvað til. Með samþykkt þessarar till. er engin ákvörðun tekin. Menn greiða aðeins atkv. um það, hvort menn vilja, að fyrir liggi þegar málið verður leyst tilboð í skipin, til leiðbeiningar um það, hvað upp úr þeim megi hafa og hvort fært þyki þess vegna að breyta til.

Mér kom það á óvart, er hv. 9. landsk., sem er í fjvn., fór að lýsa sérstöðu sinni og annars nm. í þessu sambandi við þessa till. Ég man ekki betur en öll n. stæði saman um að leggja málið þannig fyrir, að það fengist yfirlýsing um, hvort þingið vildi leyfa, að leitað væri tilboða í skipin. þetta kann að vera af minnisleysi, en ég hefi þó mátt reiða mig nokkuð á mitt minni. En jafnframt var því lýst yfir, að nm. tækju enga afstöðu til þeirra till., sem fram kæmu síðar viðvíkjandi endanlegri skipun landhelgisgæzlumálanna. Í því efni bindur þessi till. á engan hátt hendur þeirra, er flytja hana, fremur en annara, sem kunna að greiða henni atkv.

Þetta vildi ég láta koma hér fram til viðbótar því, sem hv. frsm. sagði, að vísu nógsamlega, eins og þetta kemur líka skýrt fram í þeirri grg., sem till. fylgir. Það er aðeins þetta, sem menn verða að gera upp við sjálfa sig, hvort þeir telja heppilegt, að fyrir liggi upplýsingar um það, þegar málið verður tekið fyrir í heild, hvað hægt væri að hafa upp úr skipunum, ef ofan á yrði að selja þau.