31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (4810)

139. mál, landhelgisgæsla

Pétur Ottesen:

Ég skal taka það fram viðvíkjandi því, sem hv. 9. landsk. sagði, að ég man ekki eftir, að það kæmi fram í n., að hann ætti upptök að því, að till. var borin fram í tveim liðum. Ég var ekkert að hæla mér af minni minn, en þóttist hinsvegar mega treysta því það, að þessi þm. hefði engan ágreining gert í nefndinni. Og þó mitt minni sé gott, þá er það ekki svo gott, að það fylgist með öllum hringlandahætti þessa þm. Ég hefi svo ekki fleiru við þetta að bæta.

Út af orðum hv. þm. Vestm. og hv. þm. V.-Húnv. vil ég gera nokkrar aths. Hv. þm. V.-Húnv. byggði ræðu sína á því, að það skipti engu máli, hvort meira eða minna fengist fyrir skipin. Í þeim standa þó fleiri hundr. þús. krónur. Þó nú sé orðinn siður að líta smáum augum á peninga, þá er hér um mikla upphæð að ræða. Og okkur í n. fannst það skipta máli, að hægt væri að gera sem mest úr þessum skipum; við töldum það ómaksins vert, þegar fyrir Alþ. lægi að athuga breytta tilhögun á landhelgisgæzlunni og taka afleiðingum af þessum samþykktum, sem gerðar voru á fyrri hluta þessa þings, þá lægi þar fyrir um leið, hvort meira eða minna gæti fengizt fyrir þessi skip. Þess vegna álít ég rétt, eins og fjvn. leggur til, að fá skýrar upplýsingar um þetta atriði, þegar endanleg ákvörðun verður tekin í málinn. Þegar veltur á svo miklum fjárupphæðum eins og fastar eru í þessum skipastól, þá er ómaksins vert að taka til athugunar, hvað hægt er að selja skipin; hitt væri afturfótahræring, að ganga framhjá slíku.

Ég hefi ekkert að athuga við það, þó að umr. um þessa till. snerust á þá sveif, að menn væru á móti því, að skipin væru boðin út. Út frá því sjónarmiði, sem mér virtist koma fram hjá hv. þm. Vestm., þá hefi ég ekkert við það að athuga. Úr því hann er búinn að taka þá ákvörðun fyrirfram, að hann geti ekki fallizt á neinar breyt. á landhelgisgæzlunni og heimtar, að skip af þessari gerð séu höfð til landhelgisgæzlunnar, þá er náttúrlega óþarfi í hans augum að bera fram till. sem þessa. Þetta er hrein afstaða, því að það má draga út af þessari till., að hér sé verið að gera breyt. á landhelgisgæzlunni. En er það ekki annað, sem þessi till. felur í sér? þykir þinginu ekki ómaksins vert, áður en tekin er fullnaðarákvörðun um sölu, að fyrir liggi upplýsingar um, hvaða verð er hægt að fá fyrir skipin? Svo er náttúrlega ekki frá sjónarmiði þeirra manna, sem geta ekki hugsað sér, að neinar breyt. séu gerðar. Það er skiljanlegt, að þeim þyki till. óþörf.

Ég ætla ekki að fara að ræða um það, sem hv. þm. sagði, að væri að gerast í björgunarmálum hér á landi. Björgunarstarfsemin er upphaflega byggð á því, að fiskimenn byggja skip að miklu leyti á sinn kostnað, en skipin eru síðan notuð sameiginlega fyrir landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi. Ég neita ekki, að það hafa verið lofsverðar framkvæmdir í þessum efnum í Vestmannaeyjum. Það er rétt, að þeir fóru að eins og sjómenn yfirleitt hér á landi gera nú. En þegar ríkið tók við Þór, tók það víst við nokkrum skuldbindingum; ég hygg það hafi fylgt skipinu nokkur baggi af stofnkostnaðinum. Hv. þm. Vestm. lítur ef til vill svo á, úr því samningarnir hafi verið þannig gerðir, þá beri ríkinu skylda til að halda skipinu úti og hafa þetta skip við gæzlu, en ekki önnur. Ég hefi ekkert um það að segja; hann má hafa sína skoðun.

Það er ekki fleira, sem ég þarf að taka fram. En út frá því verður að taka ákvörðun um till., hvort þinginu þykir ómaks vert, að frekari upplýsingar liggi fyrir í málinu eða ekki.