22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (4818)

103. mál, drykkjumannahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það hefir oft verið minnzt á drykkjumannahæli og þörfina fyrir það. Hafa sumir litið svo á, að það væri mál reglunnar, eða þess félagsskapar, sem mest og bezt hefir unnið að bindindismálunum. Mér er vel kunnugt um, að þetta mál hefir verið rætt innan G.T.-reglunnar, og það hefir verið skipuð nefnd í málið. Þó ekki hafi verið ráðizt í framkvæmdir, vegna féleysis og annara ástæðna, eru allir templarar sammála um nauðsyn þessa máls. Vitanlega er það, sem vakir fyrir reglunni, að útrýma drykkjuskapnum úr landinu, en það verður sjálfsagt — því miður — langt þangað til því marki er náð. Og drykkjumannahæli er svo nauðsynleg og sjálfsögð stofnun, að við megum ekki lengur framhjá því ganga hugsunar- og aðgerðalaus. Ekki hefir ástandið hér batnað síðan áfengislöggjöfin var rýmkuð. Um það eru næg dæmi fyrir hendi. Þar, sem drykkjumannahæli eru stofnuð og rekin erlendis, t. d. í Noregi, eru þau rekin á kostnað bæjanna, og þar er drykkjumönnum skipt í flokka eftir stigum; 1. og 2. flokkur eru þeir, sem eru að byrja drykkjuskap, en drekka sér til tjóns, og ef ekki kemur hjálp, mundu drekka sig veika og til dómsáfellis. 3. flokkur eru þeir menn, sem eru orðnir sjúklingar, þ. e. „kroniskir alkoholistar“ sem kallað er. Mætti alveg eins vel kalla verustað þeirra spítala eins og hæli. En það er sjaldan langt þangað til 2. stigs drykkjumaður er orðinn sjúklingur og kominn á 3. stig, nema honum sé rétt hjálparhönd. Á það þó sérstaklega við um miðaldra menn. E. t. v. er þetta ekki nákvæmlega eins hér á Íslandi. Þó hefi ég heyrt geðveikralækni segja það, að nokkuð sé til af slíkum mönnum.

Mjög er erfitt að hjálpa þessum mönnum, en þó má það takast með því að láta þá lifa reglubundnu lífi í heilnæmu umhverfi, þar sem fátt er til truflunar, sem örvað getur fýsn þeirra. Við höfum engu reynslu um drykkjumannahæli, en erlendis hefir mörgum manninum verið bjargað, sem annars mundi hafa sokkið í fen áfengisnautnarinnar.

Víða erlendis er því hagað svo af bæjar- og hreppsfélögum, að þau eiga og reka smáhæli í sambandi við geðveikraspítala, og líta þá spítalalæknar eftir hælum þessum, en allajafna fer fram greining á sjúklingum þessum, sem þykir nauðsynleg. Alstaðar þar, sem mál þessi eru í góðu lagi, eru hæli þessi ekki í kaupstað, heldur í sveit, út af fyrir sig, þar sem sjúklingar geta notið næðis.

Það er nú svo vor á meðal, eða hefir verið hingað til, að almennt er litið á drykkjumanninn öðrum augum en sem sjúkling; hér er hann kallaður ræfill. Þó ég vilji sízt verða til að afsaka breytni slíkra manna, þá held ég, að slíkir dómar verði þeim sízt til bjargar. Ég held, að það væri betra að líta á þá sem sjúklinga, er þurfi að lækna á skynsamlegan hátt og með vísindalegum aðferðum. En það er ekki hægt, nema til sé stofnun, þar sem þess háttar hjálp getur farið fram.

Fari svo, sem ég vona, að ekki liði á löngu þar til stofnuð verði með þjóð vorri slík hæli, þá er nauðsynlegt að eiga löggjöf um stofnun og starfrækslu þeirra stofnana.

Þessir menn mundu víst ekki allir kannast við sjúkdóm sinn eða viðurkenna, að þeir þyrftu hælisvist, fremur en ýmsir geðveikir menn. En það eru aðrir aðilar, sem munu finna til þess, t. d. konur þeirra, börn og aðrir nánir aðstandendur. Og mér finnst þessir aðilar vissulega eiga að hafa ákvörðunarrétt um, hvort þeir skuli fara á slík hæli, í samráði við lækni sinn. Meðal menningarþjóða álfunnar eru mál þessi tekin n þennan hátt. Ég hefi lesið það einhversstaðar, að árið 1936 eigi að halda alþjóðalæknamót, þar sem beztu læknar og sérfræðingar leiða saman hesta sína til að gera till. um, á hvern hátt skuli meðhöndla þessa menn, og sýnir þetta, að sannar menningarþjóðir vilja sannarlega gera allt til að afstýra ósóma þessum.

því verður ekki mótmælt, að þetta er mjög þýðingarmikið mál, hvernig fara skuli með sjúklinga þessa, og við Íslendingar erum hvorki svo auðug né fjölmenn þjóð, að við megum horfa á fleiri og færri menn farast af völdum ofdrykkjunnar, án þess að leitust við að stemma stigu fyrir því. Þó æskilegast væri að koma í veg fyrir, að nokkur maður drykki eða yrði drykkjumaður, og að koma inn þeim hugsunarhætti hjá almenningi, að það sé minnkun að drekka, þá er ég bara hrædd um, að það eigi svo langt í land, að sá hugsunarháttur verði almennur, svo öllu sé óhætt. Þess vegna flyt ég hér till. til þál. um undirbúning og athugun þessa máls af hálfu ríkisstj., ef hægt væri að gera eitthvað, sem allir geta s:ett sig við og að gagni má koma. Það er raunalegt að sjá æskumenn tortímast vegna áfengisnautnar, án þess að nokkuð sé aðhafzt, og við getum ekki afsakað okkur með orðum Kains: „Á ég að gæta bróður míns?“ Við, sem erum kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og eigum að sjá þjóðinni borgið, getum ekki fallizt á þau orð. Það, sem felst í þessari þáltill., er ekki annað en að skora á hæstv. stj. að hefja undirbúning undir slíka löggjöf, og er þá stigið fyrsta sporið í þá átt, sem okkur ber að stefna að.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en treysti hv. þdm. til að samþ. þáltill. þessa, og treysti hæstv . ríkisstj. til að gera sitt ýtrasta til, að þessi þál., ef samþ. verður, verði annað og meira en nafnið tómt.