22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (4828)

104. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það eru nokkur ár síðan ég var á ferð í Danmörku og Svíþjóð. Eitt af því, sem ég varði tímanum þá til á því ferðalagi, var að heimsækja ýmiskonar barnaheimili. Þá var barnavinafélagið „Sumargjöf“ nýlega tekið til starfa, og hafði það beðið mig að skoða slík heimili. ekki sízt heimili fyrir vangæf börn. Og það gerði ég eftir föngum. Þá fannst mér, að ekki væri bein þörf fyrir slík heimili hér á landi, og þótti mér vænt um það, því að ástæðan var vitanlega sú, að þannig var komið fyrir veslings börnunum, sem þarna áttu hlut að máli, að gera varð sérstakar ráðstafanir til að bjarga þeim, með því að flytja þau burt frá heimilum sínum, undir öruggara eftirlit og strangari aga. Það er mikið lán fyrir þjóðfélagið að eiga slík hæli fyrir vangæf börn frá vangæfum heimilum, uppeldisstofnanir, þar sem mannúð og siðgæði situr í öndvegi, og þau heimili, er ég sá, báru öll þau merki. Sérstaklega man ég eftir einu heimili, sem. ég vil segja hv. þdm. frá, þó að það taki mig kannske 2—3 mínútur. Þetta var heimili fyrir drengi 14—18 ára. Það var kallað Sólheimar, og bar það fullkomlega nafn með réttu, því þar skein sól kærleikans í heiði. Roskin hjón höfðu tekið verkefnið að sér, að bjarga frá þjóðfélagslegri glötun drengjum á þessu reki. Þau byrjuðu með tvær hendur tómar, en ríkið hljóp fljótt undir bagga og hjálpaði þeim, svo að þau voru búin að koma þarna upp myndarlegu heimili, sem gat tekið 25 drengi í einu.

Þegar maður leit yfir þennan hóp, þá hefði enginn getað séð þess merki, að drengirnir hefðu fyrir fáum vikum — því að sumir voru nýkomnir — komið úr allra versta umhverfi og allra versta félagsskap, sem til var í Kaupmannahöfn. Þeir voru hrifnir beina leið úr spillingarfeninu, kippt burt af glæpabrautinni, er þeir voru flestir komnir lengra og skemmra inn á. En það varð ekki séð á þeim í þessum hóp, því þar voru þeir í foreldrahöndum og systkinahóp í hinu ástúðlegasta sambandi. Þar sögðu allir „pabbi“ og „mamma“, frá því þeir komu og þar til er þeir fóru, og það var aðdáanlegt að sjá hið innilega kærleikssamband, sem ríkti milli allra á heimilinu. Ég spurði húsbændurna, hvort ekki þyrfti að passa vel upp á, að drengirnir hnupluðu engu. En svarið var: „Nei. hér þarf ekkert að passa, engu að læsa, hér má tortryggnin ekki komast að. Við treystum drengjunum okkar, og þeir bregðast okkur ekki.“

Ef svo færi, sem ég vona úr því sem komið er, að við eignumst heimili fyrir vangæf börn, þá vildi ég vona og óska, að slíkur andi sem þessi mætti þar ríkja.

Nú er svo komið með þjóð vorri, að óumflýjanlegt er að stofnsetja uppeldisstofnun fyrir vangæf börn. Hingað til hefir það verið eina úrlausnin með þessháttar börn, að senda þau á góð heimili uppi í sveit, og hefir það oft gefizt mjög vel. Ég þekki þess dæmi og mun ávallt minnast þeirra með gleði og þakklæti til þeirra góðu húsbænda, sem þar hafa átt hlut að máli. En svo komu önnur dæmi, þar sem þetta ráð dugði ekki, þar sem unglingurinn kom jafnnær og hann fór og sökkti sér brátt ofan í sömu vandræðin, þegar í fjölmennið kom. Og eftir því sem þeim börnum fjölgar, sem þannig fara afvega, því örðugra verður að fá þeim góða dvalarstaði í sveitum. Þá er og fólksleysi í sveitum mikil tálmun hér. Húsmæðurnar geta ekki bætt við sig þeim þjónustubrögðum og önnum, sem það hefir í för með sér að bæta drengjum eins og þeim, er hér um ræðir, á heimilin. Húsmæður, sem oft eru einyrkjar við heimilisstörfin, eru svo önnum hlaðnar, að þær sjá ekki út yfir það, sem þær hafa að starfa. Hér er ein ranghverfan í tilverunni hjá okkur. Í kaupstöðunum flækist fólkið hvað fyrir öðru iðjulaust, en í sveitum er fólkið svo fátt, að varla er unnt að komu af nauðsynlegustu störfum.

Nú fer þeim fjölgandi, barnaaumingjunum, sem yfirsést og komast undir manna hendur, og munu allir viðurkenna, hve ískyggilegt það er og að svo búið má ekki standa. Úr öllum áttum berast fregnir um börn, sem brotleg verða við lög og siðu. Ef einhver kynni að halda, að það væri einungis í Reykjavík, sem á þessu bryddir, þá er það misskilningur; það er ekkert betra annarsstaðar. Það væri fyllsta þörf á uppeldisstofnunum í öllum fjórðungum landsins, því að umkvartanir koma fram hvaðanæva af landinu. Það er ekki vert að fela sannleikann fyrir sjálfum sér í þessu efni. Ástandið er orðið alvarlegra en margan grunar.

Þegar Danir hófu sína viðurkenndu starfsemi fyrir vanrækt börn — það var um 1885 —, þá var það þannig, að börnin voru farin að leiðast svo mikið út í allra handa glæpaverk, að þau voru sett í fangelsi eins og hverjir aðrir óbótamenn. Fangavörðunum kom saman um það, að það átakanlegasta af öllu, sem þeir heyrðu í fangelsunum, hafi verið það, þegar börnin voru að hrópa á mömmu sína, þegar þau höfðu verið lokuð inni fyrir óknytti. Þeir beittu sér því fyrir samtökum til að koma í veg fyrir þetta. Þannig hófst þessi stórkostlega barnaverndarstarfsemi Dana, sem ég hygg, að beri af á Norðurlöndum. Upp úr þessu varð það, að mannvinir gengu fram fyrir skjöldu og stofnuðu heimili víða um landið. Slíkt hið sama þyrfti að verða hér, stofna heimili fyrir börn, sem eru þannig, að þau eru óviðráðanleg á heimilum sínum. Um önnur börn er vitanlega ekki að ræða hér.

Barnaverndarlög okkar eru fyrsta sporið, sem stigið var í þessa átt af hálfu þess opinbera. Einmitt fyrir starf þessarar n. víðsvegar um landið hefir okkur getizt kostur þess fremur en ella að kynnast því, hvernig ástandið er í þessum málum á hverjum tíma. Ég hefi nú því miður ekki skýrslu barnaverndarnefndar fyrir árið sem leið, en hún ber það með sér, hvað hér hefir verið gert. Hún sýnir m.a., að tala þeirra barna, sem leiðast þannig út á glapstigu, fer hækkandi. Þetta getur ekki lagazt nema rækilega sé tekið í taumana og sett á stofn hæli, þar sem þessi börn geta fengið gott uppeldi undir þeim skilyrðum, sem þarf. T. d. er það nú svo hér í Reykjavík, að þau börn, sem reynast óviðráðanleg í skóla, og það eru helzt drengir, fyrir þau er stofnuð sérstök skóladeild í allt öðru húsi. Þetta virðist vera gott, en þessir drengir eru óprúttnir með að láta vera að sækja tíma. Þeir fara heiman frá sér, þykjast ætla í skólann, en koma þar ekki. Þetta getur gengið dögum saman. Svo fara kennararnir vitanlega að athuga þetta, en þá finnast drengirnir ekki. Sollurinn og fjölmennið er þeim of þung freisting. Það, sem hér þarf því að gera. er að útvega þeim góð heimili í góðu umhverfi undir góðri stjórn góðra manna.

Ég þarf ekki að tala fleira um þetta mál til að sannfæra hv. þdm. um það, að hér er nauðsynjamál á ferðinni. Það hlýtur hver maður að sjá. Ég þykist samt hafa aðstöðu til að vera þessu máli dálítið kunnugri en a. m. k. þeir, sem eru utan af landi. Þess vegna hefi ég farið svo mörgum orðum um málið. Og í trausti þess, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. þessa þáltill., þar sem eingöngu er farið fram á að undirbúa slíka stofnun, sem hér um ræðir. Vil ég ljúka máli mínu.