01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4862)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Áður en ég geri grein fyrir afstöðu minni til þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég, þar sem þetta er fyrri umræða málsins, fara nokkrum orðum um ríkisrekstur og einkarekstur yfirleitt, eins og nú horfir við.

Um það eru allir flokkar sammála, að á nokkrum sviðum sé ríkisrekstur sjálfsagður. Heyra þar til ýms menningartæki, svo sem póstgöngur, sími og fræðslumál, bæði almennir skólar og sérskólar í þeim fræðigreinum, sem þjóðfélaginu eru nauðsynlegar. Um það eru allir á einu máli, að yfirleitt sé þessum málum bezt borgið með því, að ríkið taki þau að sér. Sama er og að flestra dómi um ýmsar aðrar menningarstofnanir, svo sem kirkju og útvarp, bæði af því að rétt þykir að styðja þessar stofnanir, og svo m. a. af þeirri ástæðu, að ekki þykir æskilegt, að þessar stofnanir, sem hafa svo víðtæk áhrif, hafi aðstöðu til þess að verða einskonar ríki í ríkinu.

Þá hefir og verið horfið að því ráði, að hafa ríkisrekstur að nokkru leyti á strandferðum, bæði af því, að sá rekstur hefir verið einstaklingum ofvaxinn, og af því, að ef þar væri um algeran einkarekstur að ræða, þá mundu þau skip aðeins koma á stærstu og beztu hafnirnar, en þörfum smáhafnanna og þeim, sem að þeim búa, alls ekki vera borgið, nema þá með ríflegum styrk. Þó hefir þótt hentara að hafa einkarekstur með ríkisstyrk á flóa- og innfjarðabátum, og efast ég ekki um, að það sé rétt.

þá hefir þótt rétt, að ríkið tæki að sér rekstur mikils iðnaðarfyrirtækis, til viðbótar því, sem einstaklingarnir hafa áorkað. Og á ég þar við síldarverksmiðjur ríkisins. Þótt ríkisrekstur á slíku stórfyrirtæki sé allmiklum annmörkum bundinn og hafi áhættu í för með sér, þá mun mega líta svo á, að tæplega hafi orðið hjá honum komizt, þar sem hann var einstaklingunum ofvaxinn, en hinsvegar ómissandi liður í atvinnulífi landsmanna. Það er að mínum dómi rétt stefna að styðja einstaklingsframtakið svo sem unnt er. En þar sem einstaklingsframtakinu eru atvinnufyrirtækin ofvaxin, þá er rétt að styðja það skipulag, sem rétt rekið á að geta náð að nokkru kostum beggja, bæði ríkisrekstrar og einkaframtaksins. Og það er samvinnufyrirkomulagið. — Samvinnuskipulagið getur haft kosti hinna skipulaganna beggja á þann hátt, að með því fyrirkomulagi geta margir menn og smáir ráðizt í fyrirtæki, sem þeim væru hverjum um sig langt um megn fram. Samvinnufyrirkomulagið á að geta gætt réttar hinna smáu engu síður en ríkisreksturinn. En samvinnuskipulagið hefir auk þess þann stóra kost fram yfir ríkisreksturinn, að þar fær einstaklingsframtakið og ábyrgðartilfinningin og áhuginn, sem því fylgir, líka að miklu leyti notið sín, ef rétt er að farið. Bændafl. vill því, samkvæmt stefnuskrá sinni, stuðla að samvinnufélagsfyrirkomulaginu. — Samvinnufyrirkomulagið getur átt víðar við en í verzlun. Skal ég nefna. t. d. iðnaðarfyrirtæki eins og kjötfrystihúsin, sem urðu bjargráð landbúnaðarins, þegar saltkjötsmarkaðurinn tók að skerðast. Og á sama hátt er líklegt að hraðfrystihús, rekin sem samvinnufyrirtæki, þar sem það á við, gætu orðið nokkurt bjargráð smábátaútgerðinni á sumum stöðum hér við lönd, ef saltfisksmarkaðurinn skerðist svo sem horfur eru á. Og gæti þar sumstaðar orðið samvinna milli fiskimanna og kjötframleiðenda um að nota sömu húsin. Þar sem svo hagar til, að hægt er.

Samvinnufélagsskapur í útgerð álít ég, að eigi að vera bundinn við hvert einstakt skip og þá, sem að aflanum vinna, einmitt til þess, að einstaklingsáhuginn fái sem bezt notið sin. Hinsvegar geta hin einstöku útgerðarsamvinnufélög myndað með sér smærri eða stærri sambönd um innkaup, sölu og skrifstofuhald, þar sem hent er.

Ég lít svo á, að einstaklingsframtakið sé svo mikilsvert verðmæti í þjóðlífinu, að því eigi ekki að setja of þröngar skorður, heldur veita því sanngjarnan stuðning í atvinnumálum. En þar sem atvinnufyrirtækin eru hinsvegar svo stór, að þau verða ekki rekin á heilbrigðum grundvelli af einstaklingum, þá á að styðja hina mörgu og smáu einstaklinga til þess að reka þessi atvinnufyrirtæki á samvinnugrundvelli. Hitt tel ég neyðarúrræði, þótt stundum verði ekki hjá komizt, eins og t. d. um síldarverksmiðjurnar, að ríkið taki sjálft reksturinn beinlínis að sér. Má þar m. a. henda á, að ríkisstjórnir munu sjaldnast valdar með sérstöku tilliti til þeirra hæfileika, sem þarf til að stjórna stórum atvinnufyrirtækjum, enda hverri landsstjórn ofvaxið að fylgjast þar með, öðruvísi en með annara augum. Það getur og ekki talizt heppilegt, að öll atvinnufyrirtæki þjóðarinnar væru háð þeim stjórnmáladuttlungum og stjórnmálahlutdrægni, sem við erum þjóða ríkastir af. — Öðru máli er að gegna t. d. um verzlun með einstök eiturefni, einkum ef þau eru jafnframt vel fallin til þess að veita ríkissjóði góðar tekjur, svo sem áfengi og tóbak. Þar lít ég svo á, að ríkið sé vel komið að þeim gróða, sem hægt er að hafa af verzlun með slíkar vörur, því að ríkið og þjóðfélagið verður beint og óbeint að taka á sig þungar byrðar vegna afleiðinganna af ofnautn þeirra. Og um áfengi á aðalatriðið þó ekki að vera gróðinn, heldur takmörkun neyzlunnar. Samt er og, ef einhver vara er komin í hendur á einokunarhringum, svo sem í verzlun með tilbúinn áburð. Þar tel ég ríkisverzlun eiga rétt á sér, m.a. vegna þess, að þann veg er hægt að tryggja þeim, sem hafa erfiðasta verzlunaraðstöðu, sama verð og þeim, sem hafa hana bezta við stóru hafnirnar. — Um aðrar þær vörur, sem eru í höndum einokunarhringa, svo sem olíu. getur verið nauðsynlegt að setja hámarksverð til tryggingar gegn óhæfilegri skattlagningu á landsfólkið, og hér í þessu tilfelli á annan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar. Og það má alls ekki koma fyrir, að Útvegsmönnum sé með gjaldeyrishömlum hægt frá að ná sér í þessa vöru beint frá útlöndum, þar sem þeir geta fengið hana ódýrari en hér er unnt.

Í verzlunarmálum er nú allt á hverfanda hveli, hvert sem litið er. Það er því vart unnt að segja um það löngu fyrirfram, hvort komið gæti til mála, að ríkið taki að sér verzlun með fleiri vörur en þær, sem nú hafa verið nefndar. En eftir minni skoðun á að varast að grípa til þeirra úrræða, nema brýn og óumflýjanleg nauðsyn beri til. Og um einkasöluheimildir þær, sem samþ. voru á síðast, þingi, verð ég að álíta, að þær hafi yfirleitt verið misráðnar. Má í því sambandi nefna eldspýtur og pressuger.

Ég tel það ekki rétt að grípa þannig fram í fyrir starfsemi sölusambands ísl. fiskframleiðenda sem gert var á þinginu síðasta. Enda sá hæstv. atvmrh. sig knúðan til að bæta þar að nokkru úr í bráðina með bráðabirgðalögum. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hafði unnið stórmikið gagn. Það hafði hækkað verð fiskjarins, og það hafði áunnið sér hin beztu sambönd og vakið traust á sér meðal erl. viðskiptamanna. Og ég tel ekki, að við höfum haft ráð á því að leggja neitt í hættu um að rjúfa þau trausts- og viðskiptasambönd á svo hættulegum tímum. — Annað mál er hitt, hvort laga hefði mátt nokkra smávægilega galla á fyrirkomulagi sölusambandsins. Það hefði sennilega verið auðvelt, án þess um leið að veifa einkasöluheimildinni framan í hinar erlendu viðskiptaþjóðir, sem ekki eru einkasölufyrirkomulaginu vinveittar yfirleitt.

Um síldareinkasölu hefir þjóðin þegar fengið dýrkeypta reynslu, þar sem hún skildi svo við, að framleiðendur fengu lítið og sumir alls ekkert fyrir afla sinn, en aðamarkaður sá, sem áður hafði verið beztur fyrir þessa vöru, eyðilagðist. Og ofan á allt þetta tap, sem ekki verður reiknað, varð ríkissjóður svo vegna ábyrgðar að bera milljónartap.

Um hina nýju raftækjaverzlun skal ég fátt segja. En allir vita, að óvíða eru framfarir í vörutilbúningi hraðstígari en þar. Og það svo, að það, sem gott þótti fyrir ári, getur verið orðið úrelt áður en varir. Ég tel því varhugavert, að ríkið taki að sér að liggja með allar þær vörubirgðir, sem nauðsynlegar eru í þessari grein, ef fullnægja á eðlilegum kröfum viðskiptamanna á þessu sviði. Um bílaverzlunina lítur út fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi sjálf rekið sig á örðugleika, sem hún hefir ekki gert sér grein fyrir fyrirfram.

Hjá öðrum stjórnarflokknum hafa komið fram raddir um það, að nú væri einmitt hinn rétti tíminn til þess að ríkið tæki alla utanríkisverzlunina í sínar hendur. En það má mikið vera, ef hinir gætnari menn flokksins á þingi hika eigi áður en þeir stíga það spor. Það tekur lengri tíma en svo, að gert sé í hendingskasti, að ná beztu samböndum í hverri einstakri vörugrein. Hvað þá ef þeim samböndum þyrfti að ná á svipstundu í öllum þeim margvíslegu vörutegundum, sem hingað flytjast. Og svo margt mundi þurfa að athugast í sambandi við það mál, bæði um utanríkismál og annað, að það væri næsta ósennilegt, ef sá þingflokkur, sem nú ber stjórnarábyrgð, vildi hrapa að slíku eins og á stendur.

Um sjálfsábúð eða leiguliðaábúð á jörðum hygg ég, að ekki þurfi annað en að fara um héruð landsins til þess að sjá, að yfirleitt eru sjálfsábúðarjarðir betur setnar, — meiri alúð lögð við að byggja þær upp og rækta, þó að til séu undantekningar. Með þetta fyrir augum tel ég, að ekki eigi að gera neitt til að hindra sjálfsábúðina, heldur styðja menn til þess að geta haldið jörðunum með haldkvæmum fasteignalánum. Það væri æskilegt að geta tengt ættirnar sem fastast við ættarsetrin, t. d. í svipaða átt og kemur fram í hugmyndinni um óðalsrétt, og ennfremur með því að veita börnum óðalsbónda rétt til að fá keypta föðurleifð sín, með ekki hærra verði en fyrir fasteignamat, ef þau ætla að búa á henni sjálf. Hitt er annað mál, að á því eru óyfirstíganlegir erfiðleikar, að allir, sem við búskap fást, eigi sjálfir ábýlin, og því þarf að veita leiguliðunum sem bezta aðstöðu. Hefir og stórt spor verið stigið í þá átt með ábúðarlögunum frá 1933, þó umbæta megi þá löggjöf á ýmsan hátt.

Um erfðaábúð á opinberum jörðum vil ég segja það, að ég tel rétt, að hún sé reynd, og það haft, sem betur reynist. En ganga verður vandlegar frá löggjöf um það efni en enn hefir verið gert í þeim frv., sem hér hafa komið fram á Alþingi. Öll ábúðarlöggjöf er vandasamt verk, svo að jafnvel heilum milliþinganefndum hefir reynzt það mál alltorvelt. Það er því miklu stærra mál en svo, að um það verði rætt á einni kvöldstund. En þótt margur sjálfseignarbóndinn eigi erfitt nú í kreppunni, þá ætla ég, að langir tímar liði þangað til allir sjálfseignarbændur í landinu óska þess, að ríkið kaupi af þeim jarðirnar, til þess að þeir geti sjálfir gerzt leiguliðar.

Tillaga sú, sem hér liggur fyrir til umræðu, fer í þá átt, að leitað sé þjóðaratkvæðis um:

1. Hvort vinna eigi með nýrri löggjöf að þeirri breytingu á þjóðskipulagi Íslendinga, að ríkisrekstur komi í stað einkaframtaks í atvinnumálum, og

2. Hvort stefna beri að því, að allar jarðeignir á landinu hverfi úr sjálfsábúð og verði ríkiseign.

Þótt tillagan hefði mátt vera nákvæmar orðuð, þá eru spurningarnar allljósar. Það er spurt um það, hvort þjóðin vilji a. m. k. smám saman eyða því þjóðskipulagi, sem nú er, um einkaatvinnurekstur, en hverfa að þjóðnýtingu atvinnuveganna og mynda sósíalistískt þjóðskipulag með ríkisrekstri í öllum atvinnugreinum. Og það er spurt um, hvort allir sjálfseignarbændur eigi að hverfa úr landinu og gerast leiguliðar ríkisins. Ekki getur verið vafi á, hvers vegna tillaga þessi er fram komin. Hún er komin fram vegna þess, hversu þeir flokkar, sem nú fara með völd í landinn, hallast mjög í áttina til ríkisrekstrar. Er það að vísu ekkert undrunarefni um annan stjórnarfl., sósíalista, þar sem það er á stefnuskrá þeirra að koma á ríkisrekstri og þjóðnýtingu, ekki aðeins í verzlun, heldur í öllum öðrum greinum atvinnulífsins. — Hinsvegar hefir það ekki hingað til verið yfirlýst stefna Framsfl. að koma á þjóðnýtingu, eða ríkisrekstri yfirleitt, heldur aðeins í nokkrum örfáum nánar tilteknum atriðum. En nú á síðasta þingi kom í ljós allskýr stefnubreyting í þessu efni hjá Framsfl. eða ráðamönnum hans. Og það er þetta, að flokki sósíalista hefir að nokkru tekizt að beygja annan sér fjölmennari flokk undir sig í þessu efni, svo að þjóðnýtingarstefnan hefir fengið verulegan liðsauka á þingi þjóðarinnar, sem hefir gefið tilefni til þess, að tillagan er fram komin, og að hún er tekin alvarlega. því að ef þetta tilefni væri ekki fyrir hendi, — ef engir aðrir en hinir yfirlýstu samflokksmenn sósíalista og kommúnista hneigðust eða létu kúgast í þjóðnýtingaráttina, þá er sé flokkur ekki fjölmennari en það, að þáltill. um þjóðaratkvæði um þetta mál væri með öllu ástæðulaus, því að úrslitin væru þá fyrirfram vituð.

Ég skal engan veginn halda því fram, að þetta tilefni sé hégóminn einber. En samt sem áður verð ég að draga í efa, að rétt sé, að svo komnu, að samþ. þessa till., a. m. k. í því formi, sem hún liggur hér fyrir. Ég skal ég færa nokkrar ástæður fyrir því.

Ætlazt er til þess, að þjóðaratkv. verði leitað um þetta mál á næsta vori. Ekki eru neinar líkur fyrir því (eins og er a. m. k.), að til almennra kosninga komi svo fljótt. En ettir þeirri reynslu að dæma, sem fékkst t. d. við atkvgr. um bannið nú síðast, verður vart ætlað, að atkvgr. verði nógu almenn, ef hún getur ekki farið fram á sama tíma og almenna þingkosningar. Þess yrði tæplega að vænta, að þátttaka í þessari atkvgr. einni saman yrði það mikil hvarvetna á landinu, að hún gæfi þann úrskurð um þjóðarviljann, sem alls ekki yrði véfengdur af þeim, sem á annað borð vildu véfengja hann. Og hver mundi þar efast um viljann hjá ráðamönnum núv. stjórnarflokka, ef atkvæðaúrslitin gengju á móti þeim, svo sem nálega er víst? Mundi ekki einmitt mega ganga að því sem vísu, að jafnvel þótt atkvgr. yrði svo almenn sem bezt yrði á kosið, og þótt hún gæfi alveg ótvíræðun úrskurð um þjóðarviljann, þá mundi ríkisstj. og ráðamenn stjórnarflokkanna ekki hafa þann úrskurð að neinu, ef hann gengi á móti þeim?

Hefir hv. flm. till. ekki séð þess nóg dæmi hér á þingi, hvernig ráðamenn stjórnarflokkanna berja niður með sleggjuhausum jafnvel till. til lagfæringar á augljósum og viðurkenndum formgöllum á frv., ef þær till. koma frá stjórnarandstæðingum? Hefir hann gleymt. hvaða viðtökur þær fengu nýlega hér á þingi hinar sanngjörnu till., sem kjörnir fulltrúar mjólkurframleiðenda hér á Suðurlandi og í Borgarfirði báru fram um, að framleiðendur sjálfir fengju nokkru meiri áhrif á framkvæmd mjólkursölunnar? Höfðu ekki þær till. verið samþykktar með 16/19 hl. atkv., eða nær því í einu hljóði, á fulltrúafundinum? Fengu þeir ekki m. a. einn af flokksmönnum stj. til að bera þær fram? Og stóðu ekki jafnvel ýmsir af beztu flokksmönnum stj. utan þings að þeim tillögum, eða lýstu sig þeim fylgjandi án alls flokkságreinings? — Heldur forsrh., að ég hafi átt við sig? Nei. Hann er ekki ráðam. í stjfl. — En hvernig fór? Mætti þá ekki alveg eins búast við, að þótt 16/19 hl. þjóðarinnar allrar óskuðu eins eða annars, þá sætu ráðamenn stjórnarflokkanna við sinn keip, eins og ekkert hefði í skorizt? Og til hvers væri þá að gera þjóðinni allt það ómak, umstang, verkatöf og tilkostnað, sem slík atkvgr. hefir beint og óbeint í för með sér?

Hv. flm. virðist enn ekki — eða a. m. k. ekki þá stundina, sem hann skrifaði till. — hafa áttað sig á því, að ráðamenn hv. stjórnarflokka eru ekki lýðræðismenn. Nei, þar kennir miklu meiri einræðisanda en svo, að samrýmzt geti sönnu lýðræði, eins og það orð er skilið, a. m. k. í nágrannalöndunum. Ég geri mér þess vegna ekki þær tálvonir að úrslit alþjóðaratkvæðis um slíkt mál sem þetta eitt saman mundu hafa mikil áhrif á þá menn, sem í raun og veru stjórna landinu eins og nú er. Ég vil ekki þar með segja, að till. sé að ófyrirsynju fram borin. Hún getur vakið þjóðina að einhverju leyti til umhugsunar um, hvert stefna skuli í þessum málum. Og ég tel bað mikilsvert, því að sennilegt er, að þessi mál komi meira til greina í næstu kosningum en í þeim síðustu. En eins og ég hefi leitt rök að tel ég ekki, að þjóðaratkvæði komi að gagni. fyrr en í sambandi við almennar þingkosningar. Ef hv. flm. vill breyta till. á þá leið mundi ég geta greitt henni atkv. Annars greiði ég atkv. á móti henni, a. m. k. við síðari umr. málsins.