01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (4863)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Háttvirtu áheyrendur! Ég ætla fyrst að snúa mér með nokkrum orðum að vissum atriðum í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Þorsteins Briems. Ég verð fyrst að láta undrun mína í ljós yfir þeim mikla velvilja, sem birtist í ræðu hv. þm. í garð samvinnufélagsskaparins í landinu. Hann lézt vilja styðja mál samvinnumanna og starfsaðferðir, en það verð ég að segja, að sá klofningsflokkur, sem hv. þm. tilheyrir, hefir aldrei gert neitt fyrir samvinnufélagsskapinn í landinu annað en það, sem er honum til tjóns. M. a. hefir blað þessa klofningsflokks ráðizt með pólitískum órökstuddum brigzlyrðum á forstjóra Sambandsins, sem eru svo röng, að allir samvinnumenn landsins fyrirlíta þessa árás, eins og yfirleitt allt annað, sem fram kemur í því blaði. Því fer svo fjarri, að hv. þm. hafi gert samvinnufélagsskapnum gagn með því að fleygja í hendur andstæðinganna kjördæminu Vestur-Skaftafellssýslu. báðum þingsætum Rangárvallasýslu, Dalasýslu og báðum Húnavatnssýslum. Þessi orð hv. þm. geta því ekki verið töluð í einlægni, enda kom margt fleira fram í ræðu hv. þm., sem sýndi fram á það. — Til þess að sýna, hve laus öll bygging og hugsun var í ræðu hv. þm., vil ég drepa á það, að hann talaði um, að það væri sjálfsagt, að útvarpið væri rekið af ríkinu. — Hvers vegna? Hann vildi þetta af því, að íhaldið var búið að „skandalisera“ á því. Hv. 1. þm. Skagf. hafði veitt Lárusi Jóbannessyni einkaleyfi á rekstri útvarpsins í nokkur ár, eins og kunnugt er. Það átti að verða gróðafyrirtæki, og hann sagði við Tryggva Þórhallsson, kannske að gamni sínu, að hann vildi fá útvarpið til þess að geta ráðizt á framsóknarmenn í því á hverjum degi. Það var fyrst eftir að íhaldsfyrirtækið gat ekki staðizt sem útvarpsfyrirtæki og þegar Framsfl. og Alþfl. tóku við stjórninni, að gengið var inn á þá braut, sem útvarpið nú er á og reynzt hefir ágætlega, svo sem kunnugt er.

Þá sagði hv. þm., að ríkinu væri ofvaxið að reka síldarverksmiðju. Það væri reynandi að spyrja Kveldúlf að því, hvort það borgi sig ekki að reka síldarverksmiðju. Hann hefir rekið síldarverksmiðju á Hesteyri í mörg ár og leigt aðra verksmiðju á Sólbakka, sem hann hefir einnig rekið. Nú er Alliance að láta byggja síldarverksmiðju við Húnaflóa.

Þá minntist hv. þm. á mjólkurmálið, og sagði hann, að ekki liti út fyrir, að núv. hæstv. stj. ætlaði að gera mikið í því. Þessi hv. þm. var landbráðh. í 2 ár, en ekki breytti hann mjólkurverðlaginu til gagns fyrir bændur. Hann borgaði ekki mjólkurbúastyrkinn, þrátt fyrir það, þótt meiri hl. þingsins skoraði á hann að gera það. Sá ræfill af mjólkurlagafrv., sem samþ. var 1933, var svo í framkvæmdinni, að það var bannað að framkvæma það af Magnúsi Guðmundssyni, þáv. dómsmrh., fyrr en eftir kosningar. Um mjólkurmálið nú er það að segja, að bændurnir í Mosfellssveitinni fá nú meira fyrir hvern lítra mjólkur en þeir áður fengu, og bændurnir austan fjalls hafa fengið miklu betri aðstöðu í þessum efnum síðan samsalan tók til starfa. Þetta er núv. hæstv. stj. að þakka. Frá fyrrv. stj. var ekkert annað að hafa í þessu máli en sundrung og óheilindi, og hv. 10. landsk., sem var á valdi íhaldsins, var með þess aðstoð kominn á fremsta hlunn með að eyðileggja málið á þingi 1933. Sjálfur var hv. 10. landsk. þá þegar undirlægju íhaldsins í stjórninni og gat ekkert í þessum málum gert, þótt hann hefði viljað. Þess vegna er hver eyrir, sem bændur fá fyrir afurðir sínar fram yfir það, sem áður var, hlekkur um fót hans nú, eftir að hann hefir verið rekinn úr þeirri stöðu að vera trúnaðarmaður bænda í þessum efnum. En að svo fór, má hann um kenna sjálfum sér og íhaldinu, sem gerðu samband sín á milli og borguðu hvort öðru með svikinni vöru. Var það þó að vísu framför frá því, sem áður var, að sambandið yrði opinbert. Íhaldið lánaði Bændafl. til atkv. til þess að reyna að hindra það um stund, að hægt væri að þurrka út spekúlationir, fjárglæfra og spillt réttarfar. Þessu láni var á glæ kastað, að því leyti, að hv. 10. landsk. varð að hrökklast úr sæti sinu ásami yfirboðara sínum og vini, fyrrv. dómsmrh. Magnúsi Guðmundssyni. virðist hv. 70. landsk. því hafa reynzt öllu slyngari í jarðakaupum en atkvæðakaupum.

Þá vil ég beina nokkrum orðum til míns gamla vinar og sveitunga, flm. þáltill., hv. 5. þm. Reykv. Hann hélt hér ræðu um málið og talaði af góðri greind. eins og vænta mátti, þ. e. a. s. ef ekki er litið á innihald ræðunnar. Við hv. I. landsk. munum svara till. hans með rökst. dagskrá á þá leið, að þetta sé með öllu óþarft, þar sem allir flokkar hafi látið álit sitt í ljós um þessi efni áður, og Sálfstfl. hafi sjálfur verið inni á ríkisrekstrarbrautinni, svo að hér sé ekki um neinar hreinar línur að ræða. Það nægir að benda á það, að Jón heit. Magnússon kom á vinsölu ríkisins og staðfesti þar með ríkisrekstur, og engum íhaldsmanni hefir dottið í hug að breyta þeirri ráðstöfun síðan. Og hver var það, sem kom á tóbaksverzlun ríkisins? Var það ekki Magnús Guðmundsson. fyrrv. dómsmrh. íhaldsins? Hans eigin menn rifu að vísu þá stofnun niður síðar í bili en hv. 1. þm. Skagf. núv. lýsti yfir því við það tækifæri, að einkasalan hefði ekki brugðizt vonum sínum, og þjóðin sá, að þetta var rétt, þó að íhaldsmaður segði það. Þjóðin hefir grætt á þeirri stofnun, og ég er ekki að áfellast hv. 1. þm. Skagf. í því máli.

Þá mætti minnast á form. íhaldsflokksins, hv. þm. G.-K., sem kom á einkasölu á saltfiski, með stórsektum viðlögðum á þá, sem ekki vildu beygja sig undir hana, því þótt frjáls samtök saltfisksframleiðenda væru til áður, var það ekki nóg fyrir Kveldúlf. 1931, þegar öll fiskframleiðslufyrirtæki voru að fara á hausinn, var gripið til þess að stofna til einkasölu á fiskinum, sem einu leiðarinnar út úr vandræðunum. Og hv. þm. veit það vel, að forráðamenn Kveldúlfs ætluðust til, að sett yrði á stofn fullkomin fiskeinkasala undir þeirra yfirstjórn, ef íhaldið hefði ekki tapað í kosningunum. (ÓTh: Er þetta ekki sjúkdómur?). Ég vonast nú til, að hv. þm. G.-K. takist þetta aldrei. Nú hefir fiskimálanefnd ekki stundlegan frið fyrir Kveldúlfi, sem sífellt er að heimta einkasölu, sem auðvitað verði undir hans stjórn. Það er því ekki annað sýnna en að setja verði einhverskonar handjárn á hina stærri fiskframleiðendur, svo að þeir steypi ekki hver öðrum um koll.

Þá má minna á það, að í fyrra voru síldarútflytjendur svo bráðlátir í kröfum sínum um einkasölu á vissri tegund síldar, að hæstv. atvmrh. varð að staðfesta bráðabirgðalög um slíka einkasölu á skipsfjöl, á leið til Seyðisfjarðar. Svo aðkallandi var þörfin á einkasölu þá hjá flokksmönnum hv. 6. þm. Reykv.

Þessi dæmi, sem ég nú hefi nefnt, sýna, að allar aðalkröfur um ríkisrekstur hafa jafnan komið frá íhaldinu.

Þá vík ég að jarðakaupunum. Stefna okkar framsóknarmanna í því máli hefir jafnan verið sú, að menn annaðhvort ættu ábúðarjarðir sínar sjálfir eða hefðu þær á erfðafestu. Ég hefi borið fram frv. um slíka erfðafestuábúð á ríkisjörðum 4—5 sinnum á þingi, þótt hv. 2. þm. N.- M. megi teljast höfundur þess máls. Þetta mál mun koma fyrir aftur á næsta þingi.

Nú er ástandið svo, að þrátt fyrir allt er ekki nema um helmingur jarða landsins í sjálfsábúð að nafninu til. Þessar jarðir verða. einkum ef verulegur kostnaður hefir verið í þær lagður, oftast of dýrar fyrir börnin að taka við þeim, ekki sízt á þessum versnandi tímum. Þessar jarðir lenda því oft í braski og oftast með þeim árangri, að öllum verður ókleift að búa á þeim. — Ég skal nefna eitt dæmi af ríkisjörð, sem sætti þessum örlögum. Það er jörðin Hrafnagil í Eyjafirði. Þetta er lagleg jörð, og hún var seld ábúandanum þar, presti, sem ekki er langt frá okkur í kvöld, fyrir 4000 kr. Nokkru síðar kaupir hana ríkur maður fyrir 44000 kr. Hann lætur reisa þar miklar og dýrar byggingar. En vegna hinnar kristilegu álagningar prestsins á jörðina hefir hún aldrei getað rentað sig, og nú er talið, að hún renti ekki meira en 12 þús. kr. Sá ágæti maður, sem nú á jörðina, myndi einskis óska fremur en ríkið vildi kaupa hana aftur. — Það er þetta, sem hefir gerzt og er að gerast. Það eina, sem getur forðað frá slíku böli, sem leiðir af ósvífnu okurbraski, er landsábúð eða óðalsréttur. Framsfl. ætlar ekki að láta lærða eða ólærða endurtaka lengur sorgarsöguna um Hrafnagil. Sá maður, sem fremur slíkt athæfi og þar átti sér stað, ritar nafn sitt blóðugum bókstöfum á mold þeirrar jarðar, sem hann var borinn til að bæta og græða.