01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (4864)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Mér hefir verið falið af flokki mínum að tala hér í nokkrar mínútur, og gefur að skilja, að á þeim stutta tíma verða þeim málum. er hér eru til umr., gerð allt of lítil skil. Þó er sú bót í máli, að sumum höfuðatriðum þeirra hefir verið rækilega lýst af flokksbróður mínum, hv. 6. þm. Reykv., eftir því sem tími vannst til.

Það má vel segja, að með valdatöku þessarar stj., sem nú situr, hafi hér á landi hafizt „nýöld“, í svokallaðri forsjá og framkvæmdum fyrir hönd þjóðarinnar, ný stefna, sem reyndar hafði allmjög bólað á áður, hjá fyrri „framsóknar“-stjórn, og einkum sósíalistum, samherjum þeirra, en þó ekki var gerð að aðalreglu í öllum tillögum og ráðstöfunum, snertandi þjóðarbúskapinn og afkomu hans. Þessi stefna er stjórnareinræðisstefnan, sem núv. stj. hefir tekið upp sem það eina leiðandi mark í öllum sínum tiltektum. Einn þáttur í þessari stefnu er ríkisrekstrarfárið.

Til þess að breiða yfir hið harkalega í þessum aðferðum (sem þjóðinni er nú farið að verða nokkuð kunnugt um), hafa menn jafnvel fundið upp á því að fara að reyna að skipta og skilja á milli hugtaka eins og „þjóðnýting“ og „ríkisrekstur“, sem hvort um sig hefði sitt hlutverk til lausnar og úrræða, en þetta er hinn mesti óþarfi, því að þetta fyrirbrigði er í framkvæmdinni eitt og hið sama, sem sé, að hið opinbera í einhverri mynd (helzt sjálft ríkið eða ríkisvaldið) tekur reksturinn í sínar hendur eða undir sitt vald, — rekstur atvinnuvega og jafnvel rekstur málefna —: með útilokun annara á því sniði. Þetta er allajafna gert undir því yfirskini, að það eigi með þessum hætti að verða þjóðinni til mests gagns, það eigi að „nýta“ þessi efni „til þjóðarheilla“.

Slíkt blekkingarhjal — og slíkar framkvæmdir — viðurkennum við sjálfstæðismenn ekki. Við höfum, og væntanlega brátt þjóðin öll, næg dæmi deginum ljósari um það, að slík svokölluð „þjóðnýting“ er þjóðarniðurdrep. Og þannig hefir reynslan annarsstaðar orðið, eða álitið, þar sem út í þvílíkar öfgar hefir verið farið, og þar sem viðskipti eru heft að nauðsynjalausu.

Í viðskiptum og rekstri atvinnuvega er í öllum heimi góð reynsla, aldareynsla, aðeins fengin fyrir einni aðferð, þ. e. sem óháðustu framtaki og sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna og félagsskapar þeirra, þótt ágallar geti fylgt því eins og öðru — og er það að vonum, því að allt mannlegt líf er rekið af einstaklingunum, bæði að hugsun og athöfnum. Þessu breytir ekki einu sinni „vélamenningin“, því að hún er aðeins nothæf með ráðum hins einstaka manns eða hinna einstöku manna, hvort sem þeir standa fáir eða margir saman. Þetta viðurkenna allir borgara- eða þegnsinnaðir flokkar alstaðar, og líka í öðrum löndum hinir svonefndu „sósíaldemókratar“, sem er það, sem Alþýðuflokksmenn hér telja sig vera, svo sem í nokkurskonar andstöðu við hina svæsnu eða reyndar reglulegu sósíalista, kommúnista, sem opinbert hylla sameignarstefnuna og eignarránið.

Tökum t. d. Norðurlönd. Þar hafa sósíalistar eða sósíaldemókratar ráðið í stjórnum um lengri eða styttri tímabil á síðari árum. í öllum Norðurlandaríkjum (Skandinavíu). Ekki hefir þeim í alvöru komið til hugar að reka ríkisrekstrarpólitík á sama hátt og flokksbræður þeirra hér kosta nú kapps um, — ekki Branting í Svíþjóð á sínum tíma eða nú Per Albin Hansson, og því síður Stauning í Danmörku, sem hefir orðið að marglýsa yfir því, að hann teldi það skylda sína að örva og styðja atvinnuvegina í höndum einstaklinganna, með því að aðeins þannig gæti þjóðin bjargazt! Og ekki mun verða mikið úr slíku brölti hjá hinni nýju sósíalistastiórn í Noregi (er styðst við stæltari „bændur“ en framsóknarmenn eru hér), enda sannaðist þar fyrir nokkrum árum, að þvílík óhappaverk voru eigi gerleg, er tilraunastjórn sósíalista var steypt af stóli eftir nokkra daga, mátti segja, þegar hún gerði sig líklega til þess að innleiða rússneska hætti í atvinnulíf þjóðarinnar.

Hinir „rússnesku hættir“ — það eru einmitt þeir, sem nú grassera í stjórnarfari hinna hérlendu sósíalista og leifanna af bændafalsspámönnunum, sem enn kalla sig framsóknarmenn, en eru nú ekki annað orðið en af þeim sjálfum viðurkenndar pólitískar undirlægjur hins rauða ofbeldis. — Frá Rússlandi hafa þeir það, þeirra plön og skipulagning er Rússanna; ríkisrekstur og gerræði í orði og á borði er það, sem hin flaumósa sósíalistastjórn hér — „stjórn hinna vinnandi stétta“, er hún kallar sig með hlægilegu öfugmæli, þar sem hún er nú að setja alla atvinnu í kaldakol — hefir óspart á prjónunum og ætlar sér að demba yfir þjóðina — að þjóðinni fornspurðri. Ef litið er til annara lýðfrjálsra landa en Norðurlanda, t. d. Englands. verður sama uppi á teningnum. Sósíalistastjórnin þar flýði fyrir nokkrum árum frá öllum sínum ringluðu stóryrðum og tók höndum saman við borgaraflokkana í hagvænum umbótum til bjargar þjóðinni; foringi þeirra (sem var), MacDonald, er enn formaður þeirrar þjóðstjórnar er upp úr því myndaðist.

Nei, aðeins í einræðislöndunum geta þeir fengið fyrirmyndina, en hvergi nákvæma nema í Rússlandi. — Ekki er furða, þótt kommúnistagreyin hér hafi lítið bært á sér um hríð; þeirra „stefna“ er nú ráðandi.

En hvað segir þjóðin um þetta?

Eða má ekki spyrja hana, áður lengra er farið?

Á að kúga allt og alla?

— Því að hér er vissulega ekki að tala um, að nauður reki til þessa fargans, svo sem að hið opinbera hafi takmarkaða meðgerð með atvinnurekstur, t d. vegna stríðs eða þvíl., sem getur haft rétt á sér sem undantekning, heldur er þetta stjórnarstefna „yfir alla línuna“. —

Hvað gerðist um síðustu kosningar til Alþingis? var kjósendum landsins tilkynnt, að gera ætti hreina byltingu í meðferð þjóðmálanna? Nei, nei. Úti um öll héruð landsins kepptust allir „framsóknarmenn“ við að þvo hendur sínar af öllu samneyti við sósíalistana í ríkisrekstrarbraski þeirra (og þessari fáránlegu athöfn þora þeir jafnvel enn ekki annað en halda áfram, er þeir koma meðal kjósenda, sbr. fundi sumstaðar í vetur), en þá (þ. e. við kosningarnar) þóttust þeir í því einu skyni gera bandalag við þá rauðu, að upp rynni sú gullöld, að allir gætu fengið hátt kaup fyrir vinnu sína“ — eins og það var orðað — og „hátt verð fyrir afurðir sínar“. Efndirnar á því eru nú að koma í ljós, þar sem vitað er (og var þegar á síðastl. ári, þótt þeir þursar létust eigi skilja, sem voru að þola sér með fláræði til valda), að engir atvinnuvegir landsins þola að greiða það kaup, er var áður en hækkun var valdboðin (hvað þá síðan), enda steðjar að æ meira og meira atvinnuleysi, eftir því sem meira er sólundað eða fellt í rústir, og að aldrei hafa afurðir landsmanna til lands og sjávar selzt verr en nú, og aldrei hefir fengizt fyrir þær minna verð, ef rakið er til rótar.

Þessi varð útkoman þar — og svo er rokið í að hremma undir ríkið sem flest umráð atvinnugreinanna og jafnvel eigna landsmanna — „einstaklingsframtakið“ heft, „sjálfsbjargarviðleitni kæfð. því að enn er lofað gulli og grænum skógum til als svokallaðs verkalýðs, í „atvinnu“ og atvinnulauss, og áframhaldandi ríkisölmusu til bænda (sem samt liggja við uppflosnun unnvörpum, ef sama helzt, meðan sjávarútvegsmenn hrynja meira og minna hjálparlausir) — og öllu þessu, og yfirleitt hinum yfirvofandi fjárhagsvandræðum inn á við og út á við, að bjarga með því að hækka skatta og tolla á öllu, sem nafn er gefið.

Hvar endar æði pólitískt vitstola manna? Og hvað á slíkt sem þetta lengi að ganga? Vill þjóðin dansa með? Má spyrja hana? — Því að afkoma „ríkisfyrirtækjanna“ er gefin. — Hún er í fyrsta lagi gefin af því, að þar verður (og er þegar, hvort sem um „nefndir“ er að ræða eða aðrar „stofnanir“ hrúgað saman allskonar lýð. raðað að jöfnum fylgismönnum, öllum á sem hæstu kaupi, en öllum í rauninni ábyrgðarlausum á því hvernig „reksturinn“ gengur (það er á ábyrgð ríkisins), — alveg á sinn hátt eins og andstæðingar verða hraktir frá og öllu réttlæti traðkað í veitingum starfa og embætta, svo að jafnvel dáendur ofbeldisins reka upp nágaul í undrun yfir óskammfeilninni, svo sem nýafstaðin embættisveiting hér nálægt leiddi í ljós. Og afkoman er líka gefin að hinu leytinu, að stórtap er fyrirfram útreiknanlegt, ef í frjálsri samkeppni væri, en „ágóðinn“ er einungis tekinn með okurverði í skjóli svartrar einokunar.

Græðir fólkið á þessu? Hver er svo blindur, að hann trúi slíkri heimsku? —

Og jarðeignirnar — hvenær hafa framsóknarmenn (og hæstv. landbúnaðarráðh. telur sig þó heyra til þeirri deildinni), hvenær hafa þeir borið það undir landslýðinn, undir sína kjósendur, svo að þeir gætu svarað óbundnir, hvort ríkið skyldi nú taka allar jarðir af bændum, ef til vill hvort sem þeim væri það ljúft eða leitt? Væri ekki rétt fyrir þá að staldra við og spyrja umbjóðendur sína einnar spurningar um þetta atriði, hvað þeim lítist, þó ekki væri nema vegna þess, að enginn maður hefir dirfzt að neita því, að samkv. reynslunni hafa bændur almennt þá fyrst gert jörðum sínum að marki nokkuð til góða, er þeir höfðu eignazt þær sjálfir og gátu unnið þar að frambúðarþrifum fyrir sig og sína. En áráttan er í þessu efni, sú er sósíalistar nærri viðurkenna og undirlægjurnar hlýða, að nota neyðarástand manna til þess að gera því að þrælum hins ráðandi valds, alveg eins og þegar argvítuglegast hefir áður á staðið um hag almennings, svo sem mannkynssagan vottar. „Kreppan“ á, að vilja valdhafanna, að ráða niðurlögum bændastéttarinnar íslenzku, ekki aðeins efnalega, heldur og andlega. Það á að gera þá líka að kjósendaþýi hinna í fylgi síhungruðu (en ekki horuðu) „öreigaforingja“, — og til þess verks á að nota „leifarnar“, sem ég nefndi, leifar Framsfl., eins og þær speglast nú í frummynd síns fallna foringja, sem, eins og skrifað stendur og vottað, hóf göngu sína með þeim ásetningi að höggva strandhögg í óðul bændanna til átu þeim herjum, er biðu lags á ræningjaskipum sósíalistanna.

Nú er stundin komin, hin örlagaþrungna, er krefja ber fólkið svars. Fara þessir menn með umboð ykkar, Íslendingar til sjávar og sveita, til þeirra óþurftarverka, er þeir nú fremja? Fremja á þingi þjóðarinnar, með löggjafarkúgun í mörgum myndum, þótt eigi hafi þeir til þess kjörinn meiri hluta, heldur afla sér til þess eða hins verksins dægurfylgis, úrslitaatkvæðis annars þeirra tveggja þingmanna, sem annar var kosinn sem þeim óháður (utan flokka) og hinn sem þeim andstæður (í öðrum flokki), hvorttveggja hinu versta heilli sem óverjandi verknaður. Og þó því aðeins tekst þetta, að sjálfir flokksmenn eru bundnir í báða skó, af ofsafengnum fyrirliðum, svo að sannfæring þeirra verður að lúta í lægra haldi. Verður nokkuð auðvirðilegra fram talið, nokkuð skaðvænna í fari fulltrúa þjóðarinnar? — Er vanþörf að leita álits, áður lengra er gengið, þeirra, sem sent hafa þingmenn á þennan stað, svo að upplýsist, hvort fyrir þessu er orðinn meiri hluti meðal þjóðarinnar (sem reyndar fullyrða má, að ekki hefir verið), — en úr því þing er ekki hreinlega rofið, verður það eigi með öðrum hætti en þjóðaratkvæði, sem þáltill., sú er hér liggur fyrir, fer fram á.

Eitt dæmi hefir á síðustu dögum gefizt áberandi um það, hvernig hin duglega framkvæmd á „opinberum rekstri“ getur orðið, þar sem ekkert aðhald er frá þeim, sem ráða eiga, heldur aðeins er farið eftir eigin geðþótta — og þá helzt pólitískum geðþótta þess flokks eða flokka, sem með völd fara í landi. Hér er, eins og kunnugt er orðið, komið á einskonar „einkasölu“ á mjólk, er nefnist „samsala“, og átti samkv. gylliloforðum valdhafanna að miða að því að hlynna að og efla hagsmuni bæði framleiðenda og neytenda, svo sem full þörf virtist á. Er þetta eitt af því, sem núv. stj. hefir ætlað að „slá sér upp á“ (annað en kjötið með lágverðinu og ríkisuppbótinni), — en svo hönduglega hefir til tekizt, að eðlilegar óskir neytenda haf, verið hundsaðar og meir en það, en það hefir bæði orðið til þess og verður áfram, að öll þessi viðskipti versna og verða aldrei héðan af neitt lík því, sem ella hefði getað orðið, ef góðir menn og gegnir hefðu stýrt — eða blátt áfram þeir sjálfir, sem allra hagsmuna höfðu að gæta í því að verzla mér viti og lipurð (eins og hver maður óbrjálaður, sem viðskipti vill hafa við aðra menn, telur sér skylt, hreint og beint sjálfs sín vegna, og ætti ekki að þurfa að rekja svo einfaldan hlut). Í stað þess, eru þar til „innsettir“ póitískir angurgapar látnir storka viðskiptamönnum, og þetta líðst, af því að eigi kemst annað fyrirkomulag að, öll „samkeppni“ útilokuð. undir hnefa lögreglunnar.

Og annað dæmi, enn nýrra, um það, hvernig núv. stj. fer að því að stofna til ríkisrekstrar, það er sem sé samkv. lögum frá síðasta þingi, sem minnzt hefir verið á, um heimild til einkasölu á raftækjum m. m. — Það mál var marið í gegn með hneykslanlegri ósvífni, og allir skilja. þeir er nokkuð þekkja til þessara mála, að þetta var gert í þeim tilgangi að svipta þessari atvinnu úr höndum þeirra manna, aðallega í Reykjavíkurbæ, sem þessi viðskipti höfðu haft sér til lífsframfæris og með því m. a. orðið, sumir hverjir, allgóðir gjaldendur í bænum, og eins til hins, að okra á þessum vörum fyrir ríkið, um leið og hægt er að hlynna að vildarmönnum, sem í öllum þessum málum er mikið atriði, eftir fenginni reynslu. Nú hefir ríkisstj. auglýst með reglugerð, að hún taki þessa einkasölu í sínar hendur á þessum tíma, enda þótt einnig sé vitanlegt, að ríkinu eru þar bundnir þungir baggar í fjárhagslegri ábyrgð, sem það engan veginn þolir, eins og stendur, og næsta viðsjárvert einmitt nú gagnvart erlendum viðskiptum, að meðferð þessa varnings sé öll á valdi stj. ríkisins, sem auðveldlega getur staðið höllum fæti í samningum við aðrar þjóðir, sem fleiri vilja ná sömu viðskiptum, eða öllu heldur heimta það, vegna örðugrar aðstöðu vor Íslendinga með sölu á afurðum vorum o. s. frv. — Nú hefir þegar lagzt það orð á, og að því er virðist ekki að ástæðulausu, að ríkisstj. hlynni með þessum tiltektum allt of mjög að einum kaupsýslumanni hér í bæ, og firma hans, sem hefir með höndum eina af aðalraftækjaverzlunum á staðnum, og sé jafnvel á þennan hátt, segir sagan, séð betur fyrir hagsmunum erlendra manna, er þar standa að, heldur en innlendra þegna, sem bolast út úr viðskiptum fyrir þessar sakir. Og þegar þetta er gagnrýnt, eins og gert hefir verið nýlega í blaði, sem sannarlega er skylda opinberra málgagna, eigi síður en fulltrúa almennings, þá er í stað þess að leggja gögn og skýrslur á borðið rokið upp til banda og fóta og hótað hinum þyngstu refsingum, svo sem ódæði væri framið; líki og nokkru fyrr var kært og stefnt til dómstóla því fólki hér í höfuðstaðnum, er eigi vildi að sjálfráðu beygja sig undir einræði „mjólkursölunefndar“, heldur tók fyrir að spara við sig þessa vöru.

Hér er þannig allt á sömu bók lært — allt á að einoka og reka í viljar einræðis og ofbeldis. Og svo leyfa þeir menn sér, er fyrir þessu standa, að hrópa hátt um „frelsi“ og „lýðræði“, þótt þeir séu hinir réttu niðurbrotsmenn alls þess, sem við það getur átt skylt — og virða með því augljósan tilgang stjórnskipulaga landsins algert að vettugi. Jafnvel réttarfarið og dómstólana á nú að „einoka“ í þágu og þarfir hins pólitíska umboðsvalds. Samkv. illa sömdum lagabreytingum, sem þingi er nú haldið uppi að síðustu til þess að hespa í gegn, þótt stj. láti það einnig að öðru leyti sitja sér til skammar, en engum til gagns, á nú að skipa hæstarétt landsins svo, að dómsmrh. ræður í raun réttri, ef svo ber undir, hverjir dæma (og er slíkt óheyrt og ef litið er á það lið, sem þjónar núv. stjórn, meðal leikra og lærðra, geta menn farið nærri um niðurstöður dóma frá slíkum stöðum. En með æðsta dómstóli Landsins, sem er úrslitadómur allra mála, stendur og fellur réttlátt réttarfar í landi, enda það kappkostað sem aðalatriði í valdsgreining með öllum lýðfrjálsum þjóðum að vernda óháð og óvefengjanlegt sjálfstæði hins æðsta dómstóls. Það átti frá öndverðu að vera fullnaðartryggingin fyrir því, að hægt væri að lifa og hrærast í landinu sem menn, en ekki skepnur. En hér er nú svo lítið um það skeytt hjá fylgiliði stj., að allt er samþ., sem fyrir er skipað, og ekki hlýtt á mál andstæðinga. Já, hvað segja menn?

Ég er nú búinn að fullnota þann takmarkaða tíma, sem mér var ætlaður, og er mér eigi kostur að taka aftur til máls í kvöld, þar eð flm. till. á þær fáu mínútur, sem eftir eru af þeirri einu klukkustund, sem flokknum var ánöfnuð. En býst fyllilega við því, eins og mátt hefir heyra, að máli okkar stjórnarandstæðinga, er hér tölum — og yfirleitt rökum stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, Sjálfstfl., — verði að engu skeytt af stj. þeirri og flokkum, sem leitt hafa þá nýju öld yfir landið, sem er sannkölluð óöld.

En — seinna koma sumir dagar, og koma þó!