01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (4869)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Þær mínútur, sem ég hefi enn til umráða við þessar umr., myndu endast skammt, ef ég ætti að svara orði til orðs öllum þeim fjarstæðum, sem fram hafa komið í þeim 10 ræðum, sem fluttar hafa verið hér af ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar. (Fjmrh.: Telur hv. þm. Bændafl.-mennina með stuðningsmönnum ríkisstj.?). En það gerir ekki mikið til, þótt tími vinnist ekki til að svara öllu þessu. Þetta lið hefir yfirleitt gengið á snið við umræðuefnið, og ræðurnar málinu lítt eða ekki viðkomandi. Ég mun ekki láta ginnast til að elta þá frá kjarna málsins inn á krákustigu mælgi þeirra og rakaleysis, Ég tel mér skylt að beina athyglinni að þeim kröfum, sem í till. eru gerðar fyrir hönd þjóðarinnar. En þetta má stj. bara ekki skilja svo, að þar með sé henni fengin syndakvittun fyrir öllu saman, öllum smærri afbrotunum í þessu máli. Því fer fjarri. Ég hefi haldið því til haga, og mun jafnvel halda til haga þeim spörðum, sem bráðum mun von á úr fjármálalambakrónni, og standa skil á því engu síður en hinu. — Í þessum umr., sem hér hafa farið fram, eru þó nokkur atriði, sem ég kemst ekki hjá að gera aths. við. — Aðalræðumaður Alþfl., hv. þm. Hafnf., sagði, að það væri algerlega ástæðulaust að vera að spyrja þjóðina um það, sem fram á er farið í þáltill., því að Alþfl. hefði lagt þessa spurningu fyrir þjóðina við a. m. k. 2—3 síðustu kosningar. Nú þyrfti því ekki annað en framkvæma ríkisreksturinn á atvinnuvegum landsmanna og gera jarðirnar að ríkiseign. Ályktun hans er þessi: Þjóðin hefir verið spurð um þetta 2—3 sinnum. Hún hefir í öll skiptin svarað neitandi. 1/5 hluti þjóðarinnar hefir goldið jákvæði, en 4/5 hlutar hafa sagt nei. Ályktun Alþfl. — því að hv. þm. talaði fyrir hans hönd — er sú, að þá varði ekkert um þjóðarviljann. Við viljum framkvæma þessi atriði og við skeytum því engu, hvort fleiri eða færri samþ. það. Þetta er m. ö. o. yfirlýsing um það, að flokkurinn sé horfinn frá lýðræðinu. Hér skulu ráða sósíalistar, hvort sem fleiri eða færri vilja. Ég tel þetta gott að því leyti, að því óvandari verður leikur þjóðarinnar, þegar hún tekur þessa drengi til hirtingar, sem verður vonandi innan skamms. En þetta kemur ekki vel heim við það, sem hæstv. forsrh. sagði, því að hann sagði, að um þetta sé alls ekki verið að ræða hér í þinginn. En þetta sýnir bara, að Framsfl. er gersamleg, í vasanum á sósíalistum, og það svo, að hann veit ekki, hvað hann er að gera, hefir alls enga hugmynd um það, og lýsir yfir því, að hann sé að gera allt annað en það, sem hver maður sér.

Ég hefi ekki tíma til að eltast lengi við hvert atriði og get verið hv. þm. S.-Þ. þakklátur fyrir það, að hann leysti mig frá þeim vanda að hafa mörg orð um ræðu hans. Það er alkunnugt, að sjómenn komast stundum í hættu vegna dýrs, sem kallast stökkull. Hafa sjómenn þá það ráð að kasta út dufli, og kastar stökkullinn sér yfir það og hamast á því unz hann sprengir sig. Nú varð mér það til láns, að hv. 10. landsk. talaði hér næst á undan hv. þm. S.-Þ., og varð það til þess, að hann nálega sprengdi sig á því að kaffæra hv. 10. landsk., og gleymdi því, sem hann þurfti að svara mér. Hann sagði um mína ræðu, að hún hefði verið allgóð, að undanskildu efninu. Hans ræða var nú virkilega allsæmileg, að undanskildu efni og orðalagi.

Ég má ekki gera hæstv. forsrh. svo lágt undir höfði að minnast ekki á ræðu hans meira en ég hefi þegar gert. Eins og allir munu hafa heyrt, vitnaði þessi hávirðulegi maður ákaflega mikið í dauða menn, og fannst mér það ekki illa til fallið. Að vísu voru þetta merkir menn og honum miklu framar. En það var vel til fallið hjá hæstv. forsrh. að sækja sín rök í grafirnar, því að öll pólitík framsóknarmanna er sótt í grafirnar, og ekki einasta það, heldur einnig komin þangað aftur. Í öllum þessum umr. hefir því ekki verið hnekkt með einn einasta orði eða nokkrum minnstu rökum, að með löggjöf síðasta þings, og ýmsum þeim frv., sem fyrir liggja nú, sé stefnt í áttina til ríkisrekstrar á aðalatvinnuvegum landsmanna, stefnt að því, að í stað einstaklingsframtaks komi ríkisrekstur og að í stað sjálfsábúðar komi leiguliðar ríkisins. Því hefir ekki heldur verið hnekkt, að þetta er gert að þjóðinni forspurðri, og það hefir ekki verið réttlætt, að svíkjast þannig að þjóðinni í slíku stórmáli. Sú krafa, sem kemur fram á þskj. 23, að þjóðin fái að láta uppi álit sitt á þessum athöfnum, er svo sjálfsögð, að það mál þarf ekki að skíra nánar. Ríkisstj. getur enga ástæðu haft til þess að þverskallast við atkvgr., nema þá, að hún þori ekki að spyrja þjóðina. Og það skal játað, að sá ótti er ekki ástæðulaus. Hvernig ætti það að geta átt sér stað, að þjóð með aðra eins raunasögu í verzlunarmálum og íslenzka þjóðin æskti eftir einokunarfyrirkomulaginu á ný? Fræðimönnum kemur saman um, að allar drepsóttir og plágur, eldgos, hafís og harðindi hafi til samans ekki leikið þjóðina eins grátt og gamla einokunin, sem var ríkisverzlun. Allar þjóðir stynja undir ríkisverzlununum og dreymir um frjálsa verzlun. Öllum kemur saman um, að af öllum plágum sé ríkisrekstrarplágan verst. hvernig ætti þetta fyrirkomulag að vera eftirsóttara fyrir okkur en aðrar þjóðir? Íslenzka þjóðin þekkir líka muninn á sjálfsábúð og leiguábúð. Spor beggja eru mjög glögg í okkar þjóðlífi. Það má rekja þau um allt Ísland. Það er gróður í hverju spori sjálfseignarbúskaparins, en kyrrstaða og niðurníðsla þar, sem leiguliðafyrirkomulagið er. Það væri líka erfitt að sætta lund íslenzkra bænda við það, að vera með l. skyldaðir til að vera ævarandi leiguliðar ríkisins, ekki einasta vegna þess, að mönnum er enn í minni. þegar ríkisvaldið óð hér um og lagði undir sig jarðeignir í hundraðatali og gerði bændurna að kúguðum leiguliðum á konungsjörðum, heldur er það svo fast í lunderni bændanna að vera sjálfstæðir, húsbændur á sínum eigin heimilum. Ef þetta yrði kúgað úr lunderni íslenzkra bænda myndi fleira verðmætt glatast. Þeir myndu bíða tjón á sálu sinni, og til þess mun stefnt af sósíalistum.

Ég sé, að þeir hafa orðið sammála um það eins og fleira, sósíalistar og framsóknarmenn, að vísa þessu máli á bug með dagskrártill. Að sönnu er hún nú samin á mjög klaufalegan hátt. Það er eins og hún hafi fyrst gengið í gegnum heilann á hv. þm. S.-Þ. og síðan í gegnum heilann á hv. 1. landsk. Það er því ekki að undra, þótt smíðin sé ekki merkileg. En þó má skilja það af till., að þeir þori ekki að hætta á það, að atkvg,. fari fram um þessa till. mína. Ég skil afarvel þennan ótta, eins og ég tók fram áðan, og ég skil það líka fullvel, að með þessari dagskrártill. er gengizt við því, að þessir menn þori ekki að bera það undir þjóðina, hvort koma eigi ríkisrekstur atvinnuveganna í stað einstaklingsframtaks og leiguábúð í stað sjálfsábúðar. Ég skil það líka, eins og hv. 10. landsk. sagði, að þá muni ekki um það þessa herra að þverskallast við vilja þjóðarinnar, en það er ekki hægt um það að þræta, hver hann er, ef þessi atkvgr. færi fram.

Tími minn er nú á þrotum, en af því að fáskipað er nú hér innan þingsalanna, vil ég sérstaklega snúa máli mínu til annara áheyrenda og tjá þeim það, að þótt þessir flokkar hafi nú meiri hluta í þinginu og geti beitt því ofbeldi að láta ekki þessa till. koma til atkv., og því síður að þjóðin fái að svara spurningu um þetta mál, þá er ennþá eftir leikur þjóðarinnar, og hann er sá, að láta þessa menn aldrei komast til valda framar. Ég held, að óhætt sé að segja, að þótt ríkisstj. þori ekki að láta fara fram atkvgr. um það, hvort þjóðin aðhyllist stefnu sósíalista eða ekki, þá muni sá tími koma, að menn fái að sjá, fyrir hverju er meiri hl. og fyrir hverju minni hl., þótt hv. þm. Hafnf., sem talaði hér fyrir hönd sósíalista, hefði hátt um það að skeyta því litlu.

Ég hefi þá trú á íslenzku þjóðinni, að hún þoli ekki ofbeldi og uppivöðslu þeirra manna í landinu, sem setja eiginhagsmuni ofar almenningsheill í stjórn landsins.