01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (4872)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég mun ekki víkja mikið að einstökum atriðum í ræðum manna, heldur taka þann kostinn að beina ræðu minni að efni till. sjálfrar, sem hér liggur fyrir. Þó vil ég áður minnast á eitt atriði í ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann var að dylgja með það, að orðrómur gengi um bæinn, að stj. hafi í sambandi við raftækjaeinkasöluna, sem ætti að setja á stofn, dregið fram hag einstaks manns. Það hafa líka verið samskonar dylgjur í einu blaði Sjálfstfl., og hefir verið farið í mál út af þeim. Nú skora ég á hv. þm. V.-Sk., að hann endurtaki þessi orð utan þinghelginnar, og þó gleggra en hann hefir gert hér, svo að hlutaðeigendur geti látið hann standa fyrir sínu máli á réttum vettvangi.

Ég ætla ekki að víkja mörgum orðum að hv. þm. V.-Húnv. eða hv. 10. landsk., þeim Bændafl.mönnunum. Hv. þm. V.-Húnv. hélt sömu ræðuna og hann hefir haldið í þau þrjú skipti, sem ræðum hefir verið útvarpað hér. Hv. 6. þm. Reykv. lýsti ágætlega hlutverki hv. 10. landsk. í þessum umr. Hann sagði, að hann væri belgur, sem fleygt hefði verið út af skútu sjálfstæðismanna til þess að Jónas Jónsson steytti sig á honum. Hv. 10. landsk. sýndi líka, að með því hafði hann lokið erindi sínu, því að eftir það notaði hann ekki út ræðutíma sinn.

Þá kem ég að till. sjálfri og vil minnast á annan lið hennar, sem fer fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisrekstur atvinnuveganna. Frá mínu sjónarmiði er hér í till. um hreina blekkingu að ræða, en engan grundvöll fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru fjöldamargir, sem eru á móti ríkisrekstri á atvinnuvegunum, búskap. sjávarútgerð og iðnaði, þó að þeir vilji, að ríkið sinni ýmsum hlutverkum. eins og t. d. verzlun. Hvernig ættu þessir menn að geta greitt atkvæði með till.? — En eftir að 1. flm. till. hafði talað fyrir henni, er þó blekkingin ennþá auðsærri en áður. Hann heimfærði undir ríkisrekstur ekki aðeins beinan ríkisrekstur atvinnuveganna, heldur ráðstafanir eins og mjólkurlögin og kjötsölulögin. Jafnvel gjaldeyrisverzlun heitir á máli þessa öfugmælasmiðs ríkisrekstur. Hver getur þá, eftir þessari endaleysu, verið grundvöllur till. undir þjóðaratkvæðagreiðslu?

Hvernig færi t. d. fyrir þeim mönnum úr Sjálfstfl., sem hafa beðið ríkisstj. að taka að sér einkasölu á matjessíld? Þeir gætu ekki sagt nei við þessari spurningu. Enda kom það fram í umr., a. m. k. hjá einum þm., hv. 10. landsk., að honum væri ómögulegt að greiða atkv. um till. Hann viðurkenndi, að ríkisrekstur væri réttur undir vissum kringumstæðum. Þessi hv. þm. hefði orðið að sitja hjá við atkvgr. Af þessu sést, að till. er ekki þess eðlis, að hún geti verið grundvöllur þióðaratkvæðagreiðslu. Menn geta ekki komið þar að atkvgr. eftir sínum skoðunum.

Þá vil ég víkja að ástæðum þm. fyrir till. Þær eru aðallega tvennskonar, eftir því sem grg. segir. Í fyrsta lagi hafi blöð ríkisstj. oft látið það í ljós, að það sé ætlun meiri hl. Alþ. að ganga inn á að þrýsta atvinnuvegunum undir ríkisrekstur. Þetta á að vera ástæða fyrir þáltill. um þjóðaratkvæði, að þingmeirihlutinn ætli sér að gera það, að það hafi verið látið í ljós í blöðum stj.! En slíkt hefir aldrei staðið í blöðum Framsfl. Það finnst ekki nokkur hlutur, sem bendi í þá átt, að Framsfl. ætli sér að vinna að því, að atvinnuvegirnir, búskapur, sjávarútvegur eða iðnaður, verði reknir af ríkinu.

Þá er í öðru lagi sú ástæða, að með till. sínum á Alþ. hafi stjórnarflokkarnir sýnt, að þeir ætli sér að ganga út í þjóðnýtingu atvinnuveganna. En hvernig koma nú þær till., sem hv. þm. nefna, heim við þetta og kosningastefnuskrá vora? Það eru fyrst og fremst einkasölurnar, sem nefndar eru, raftækjaeinkasalan og bílaeinkasalan. Í kosningastefnuskrá Framsfl. fyrir síðust u kosningar er það sagt, að flokkurinn ætli sér beinlínis að vinna að því að afla ríkinu tekna á þennan hátt. Halda svo hv. þm., að það þurfi þjóðaratkvæði til þess að skera úr því, sem kosið var um á síðasta ári?

Þá tekur ekki betra við, er hv. þm. gengu svo langt að skýra nauðsyn þjóðaratkvæðis með málum eins og kjötmálinu og mjólkurmálinu. Það er gott að vita það um Sjálfstfl., að því er slegið föstu, að fulltrúar hans séu móti þessari löggjöf. Svo skaðleg þykir þeim hún meira að segja, að það þarf þjóðaratkvæði til þess að koma í veg fyrir, að lengra sé haldið á þeirri braut. Samt þykir hv. flm. till. ekki nóg komið. Þeir láta ginnast til að halda fram, að það séu ekki aðeins þessi mál, sem benda til þess, að stj. ætli sér alstaðar að koma á ríkisrekstri, heldur einnig gjaldeyrismálin. Jafnvel innflutningshöftin eiga að vera dæmi um það, að þjóðaratkvæðagreiðsla þurfi að fara fram. Getur nokkur hugsað sér jafnmikla fjarstæðu eins og að telja þetta anga af þjóðnýtingu?.

Það er ástæða til að benda á Þýzkaland og Ítalíu í þessu sambandi. Þar álita víst þessir hv. þm., að hafi verið útrýmt rauðu hættunni, er þeir nefna svo. En í báðum þessum löndum er nákvæmasta eftirlit með gjaldeyrismálum, svo að slíkt er ekki annarsstaðar meira. Íhlutun ríkisins er þar í allra strangasta lagi, og þetta eru löndin, sem sjálfsagt að dómi hv. þm. hafa sýnt mesta röggsemi í því að reka af sér rauðu hættuna. En svo á hún hér að vera m. a. fólgin í þessum ráðstöfunum. Þannig snúast rök þessara hv. þm. algerlega við, svo að þetta verður allt einn hrærigrautur og það er óskiljanlegt, að nokkur maður með heilbrigða skynsemi skuli leggja sig niður við að flytja slíka till. og fara fram á útvarpsumr. um hana.

Þetta eru þá þær ástæður, sem hv. flm. hafa fært fram fyrir till.: þær yfirskinsástæður, að stjórnarblöðin hóti ríkisrekstri og að till. stj. beinist allar í ríkisrekstrarátt. Þetta á að vera grundvöllur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. En nánar skoðað eru það aðeins yfirskinsástæður. Hinar raunverulegu ástæður till. get ég ekki hugsað mér aðrar en þær, að ef till. kæmi til framkvæmdar, þá hugsar Sjálfstfl. sér að fá með slíkri atkvgr. grundvöll til að vera á móti öllum ríkisrekstri, enda þótt þjóðinni sé hagstæður. Það hefir ekki legið í láginni, að þessi flokkur hefir beitt sér móti ríkisrekstri í verzlun, eftir kröfum kaupmanna. Hann myndi vilja leggja niður tóbaksverzlun ríkisins og viðtækjaverzlunina o. fl. Ég get hugsað mér, að flokkurinn vildi gera tilraun til þessa. Og hann vili fá menn til að svara neitandi spurningunni um þjóðnýtingu, til þess að geta notað hin neitandi svör sem grundvöll til að leggja niður ríkisverzlanirnar og til þess að geta barizt móti allri íhlutun ríkisins, sem óhagstæð er verzlunarstéttinni. Það er enginn vafi, að fyrir hv. flm. till. vakir eitthvað svona. Það er enginn vafi á því, að ef till. væri borin undir atkv. og menn yrðu blekktir til þess að svara neitandi um ríkisrekstur, af því að þeir héldu, að verið væri að greiða atkv. um ríkisrekstur á atvinnuvegunum, búskap, sjávarútgerð og iðnaði, þá myndi Sjálfstfl. nota sér kosningarnar til þess að koma í veg fyrir einnig þann ríkisrekstur, sem meiri hl. þjóðarinnar er fylgjandi, eins og t. d. ríkisverzlun með álagningarmiklar vörur.

Með því, sem fram hefir verið fært gegn till., tel ég hafa verið sýnt, að hún er svo blekkjandi, að hún getur ekki verið neinn grundvöllur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Í öðru lagi hefir verið sýnt fram á í umr., að starf stjórnarflokkanna er í svo nánu samræmi við stefnuskrá þeirra við síðustu kosningar, að það er ekki ástæða til þjóðaratkvgr. Í þriðja lagi hefir það komið fram við umr., að tilgangur. Sjálfstfl. með þessari till. er sá, að skapa sér grundvöll til mótstöðu gegn ríkisverzlun og fyrir þeim tillögum, sem fram hafa komið við kosningarnar undanfarið, að leggja niður fyrirtæki, sem til ágóða eru fyrir ríkissjóð, og koma þeim í hendur einstakra kaupmanna, sem eru kjarni Sjálfstfl., svo að þeir geti hagnazt á þeim. Hverjar afleiðingarnar yrðu, ef Sjálfstfl. tækist þetta, vil ég sýna mönnum með því, að á síðasta ári voru tekjur ríkissjóðs af þessum fyrirtækjum nærri tvær millj. króna, og í fjárl. þessa árs eru þær einnig áætlaðar nærri tvær millj. króna.

Ég get ekki látið hjá líða að láta ánægju mínu í ljós yfir þeim árangri, sem orðið hefir af umr. þær hafa gefið tilefni til þess, að Sjálfstfl. hefir með fulltrúum sínum lýst yfir þeirri staðreynd, að hann er á móti þeim ráðstöfunum, sem hafa verið gerðar með verzlun innlendra afurða. Hann telur ástæðu til, að það fari fram þjóðaratkvgr. til þess að fyrirbyggja, að slíkt haldi áfram.

Í öðru lagi er ég ánægður yfir því, að mönnum hefir veitzt kostur á að skýra betur afstöðu flokkanna til þjóðnýtingar og ríkisrekstrar, og það var nauðsynlegt með tilliti til þeirra blekkinga, sem Sjálfstfl. hefir verið með undanfarið.