04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (4886)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Flm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Það er ekki tilgangurinn með flutningi þessarar till. að tefja þingstörfin eða fyrir því, að hæstv. stj. fái fram komið því máli, sem nú er hennar mesta áhugamál, sem sé að fresta þingfundum.

Hæstv. stj. hefir á sínum stutta æfiferli framkvæmt margt, sem fundið hefir verið að, en líklega hefir fátt valdið jafnmikilli undrun og hneyksli, ekki aðeins meðal andstæðinga hennar, heldur einnig meðal fylgismanna hennar, eins og það, þegar hún fyrirskipaði um fyrirkomulag raftækjaeinkasölu ríkisins. Það er vitanlegt, að stofnað var til þessarar raftækjaeinkasölu, sem gert var með l. á síðasta þingi. með tilliti til þess, sem nú er fram komið, sem sé, hvernig hæstv. stj. hefir skipað fyrir um forstöðu og meðferð þessa fyrirtækis. Það var sem sé þegar í upphafi mjög sterkur grunur um það, að til raftækjaeinkasölunnar væri stofnað fremur í þeim tilgangi að koma henni fyrir með þeim hætti, sem gert hefir verið. Þessi einkasala sker sig nokkuð út úr samanborið við aðrar einkasölur, sem komið hefir verið á fót hér, að því leyti, að um þær flestar hefir því verið haldið fram, að tilgangurinn með þeim væri aðallega að ná í hendur ríkissjóðs heildsöluágóða af þeim vörum, sem einkasölurnar einoka. Hinsvegar er svo ástatt um raftækjaverzlanir, að hjá þeim er í rauninni alls ekki um heildsöluágóða að ræða, vegna þess að þeir, sem hafa verzlað með þessi tæki, hafa sjálfir keypt inn sínar vörur og fjöldi þeirra notar þær jafnframt við starf sitt. Um leið og þessi verzlun er af þeim tekin er starfi þeirra í rauninni hnekkt til mikilla muna. Það er því augljóst, að tilgangurinn með stofnun raftækjaeinkasölunnar er raunverulega allt annar en sá, sem látinn hefir verið í veðri vaka, þegar um stofnun annara einkasala hefir verið að ræða. Þar sem ekki getur verið um heildsöluágóða að ræða hjá raftækjaeinkasölunni; eins og ég er búinn að taka fram, þá er það augljóst mál, að stofnað hefir verið til þessa fyrirtækis að þessu leyti gegn yfirlýstri kenningu og grundvallaratriðum í stefnu þeirra flokka, sem hér ráða, þar sem þeir hafa fyrst og fremst þótzt vilja berjast fyrir milliliðalausri verzlun, því að þeir hafa í þessu tilfelli einmitt unnið að því að koma á óþörfum millilið í þessari verzlun. En tilgangurinn, sem bak við þetta liggur, er vitanlega allt annar en sá, sem látinn er í veðri vaka. Það er sem sé kunnugt, að fyrir nokkrum árum var stofnuð raftækjaverzlun, sem ýmsir menn, nákomnir núv. hæstv. stj., voru eigendur að, og hefi ég jafnvel heyrt því fleygt, að einn af eigendunum kunni að hafa verið einn af hæstv. ráðh., sem nú eiga sæti í stj. Mér er ekki kunnugt um þetta, en ég þori ekki að útiloka það. Það er kunnugt, að þessi verzlun hefir gengið mjög illa, svo að þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. stj. í sambandi við það, að hún hefir beitt sér fyrir stofnun einkasölu á þessum vörum, vegna þess hve gífurlegs gróða væri hægt að afla ríkissjóði af þeirri verzlun, þá hefir það þó komið í ljós, að þessari raftækjaverzlun hefir ekki tekizt á þessum árum, sem hún hefir starfað, að afla sér nokkurs gróða. Þvert á móti hefir hún tapað ár eftir ár. Eftir því sem almennt er talið, lá ekkert annað fyrir verzluninni en að lýsa sig gjaldþrota og ganga undir opinber skipti. Þetta var nú allur gróðinn, sem þessir menn, er síðan beittu sér fyrir stofnun ríkiseinkasölu á þessum vörutegundum, gumuðu af. En síðan hefir það komið á daginn, sem menn grunaði, að höfuðtilgangurinn með einkasölunni mun hafa verið sá, að bjarga við þessu verzlunarfyrirtæki og fjármunum þeirra manna, sem lagt höfðu fé í fyrirtækið. Það kemur sem sé fram í því, að forstaða ríkiseinkasölunnar, er hún var stofnuð, var einmitt falin aðalstofnanda og framkvæmdarstjóra þessarar raftækjaverzlunar, sem ég hefi gert að umtalsefni og heftir raftækjaverzlun Íslands. Þessi meðferð á raftækjaeinkasölu ríkisins hefir vakið mjög mikla athygli meðal almennings, og það svo mjög, að jafnvel fylgismenn hæstv. stj. hafa lýst yfir mjög eindreginni vanþóknun sinni á henni. Auk þess hafa komið fram mjög öflug mótmæli frá þeim mönnum, sem eiga sinn hag mest undir meðferð þessa máls, en það eru þeir iðnaðarmenn, sem fást við rafvirkjun. Mótmæli þessi hafa borizt þinginu, og skal ég ekki lengja mál mitt með því að rekja þau nánar, en ég vil benda á það, að þeir gera mjög ýtarlega grein fyrir því, að með öllu fyrirkomulagi einkasölunnar sé þeirra aðstaða til iðnrekstrar gerð svo erfið, að ekki sé við unandi. Þeir nefna t. d. það. hve mikil álagning eigi að verðu á þessum vörum. En það, sem aðallega vekur hneyksli, er það, hvernig hæstv. stj. hefir ráðstafað forstjórn þessa fyrirtækis, þar sem hún hefir verið fengið í hendur fyrrv. og núv. forstjóra raftækjaverzlunar Íslands, því að með því er bersýnilegt, að þeirri verzlun, sem væntanlega á nú að halda áfram að starfa sem smásöluverzlun, er veitt miklu betri aðstaða, en öðrum verzlunum, og þar að auki er forstjóra einkasölunnar heimilt að taka þær vörur, sem hin verzlunin á í fórum sínum, og hafa þær á boðstólum handa almenningi fyrir hönd ríkiseinkasölunnar. Nú er það kunnugt um þessa raftækjaverzlun, að hún hefir verið sérlega óheppin í innkaupum sínum, því að hún hefir keypt dýrar vörur, sem hún getur ekki losnað við, en það er bersýnilegt, að þegur þetta er komið í hendur forstjóra einkasölunnar og hann og hans félagar eiga fyrst og fremst sinn hag undir því, að þessar vörur seljist, þá getur hann vitanlega hindrað það, að nýjar samkeppnisfærar vörur komi á markaðinn, svo að menn neyðist til þess að kaupa þessar úreltu vörur. Jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir því, að raftækjaeinkasalan kaupi þessar vörur af raftækjaverzlun Íslands, þá er samt augljóst, að aðstaðan til þess að koma vörunum út er þannig, að heita má, að forstjóranum sé lögð upp í hendurnar aðstaða til þess að neyða menn til þess að kaupa þessar vörur, sem annars eru ekki útgengilegar, auk þess sem það er augljósi, að það hefir hagkvæma þýðingu fyrir rekstur þessa fyrirtækis, sem hér um ræðir, að skipt verði um forstjóra þess, frá því sem nú er.

Að þessu, sem nú hefir verið tekið fram, liggur það í augum upp, að slíkt framferði af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum er svo hneykslanlegt, að það á ekki ómótmælt vera, og þess vegna er höfuðtilgangur þessarar till., sem við berum hér fram, fullkomlega réttmætur. Er þess því að vænta af hv. Alþ., að það samþ. hana nú þegar.