04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (4888)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. hefir nú svarað ræðu hv. 3. þm. Reykv. allýtarlega; það er því að bera í bakkafullan lækinn að fara að bæta þar nokkru við. Ástæðan fyrir því, að ég vildi þó mega bæta hér við nokkrum orðum, er sú, að ég er persónulega kunnugur þeim manni, sem þáltill. þeirri, sem hér er til umr., er sérstaklega beint gegn, en það er forstöðumaður tóbakseinkasölunnar.

Það er vitað, að blöð sjálfstæðismanna hafa farið svo hörðum orðum um þennan mann, að hann hefir neyðzt til að höfða mál gegn þeim. Þessum árásum heldur svo hv. 3. þm. Reykv. áfram hér innan vébanda þingsins, þar sem hann telur það eitt reginhneyksli að fela honum forstöðu hinnar væntanlegu raftækjasölu ríkisins, þegar hann hefir jafnframt forstöðu annarar verzlunar. Mér virðist það alveg liggja í aukum uppi, að þegar velja á menn til þess að veita verzlunarfyrirtæki forstöðu, þá sé ekki nema eðlilegt að velja þá eða þann, sem þekkingu hefir á þeim verzlunarrekstri, sem fyrirtækið á að hafa með höndum, en það er það, sem gert hefir verið í þessu tilfelli.

Þá var hv. þm. að tala um það, að fyrirtæki það, sem Sigurður Jónasson hefir nú að undanförnu veitt forstöðu, myndi ekki standa sig vel. Sé svo, þá á Sigurður áreiðanlega ekki sökina á því. Til þess munu liggja aðrar orsakir en stjórn hans á fyrirtækinu, því að Sigurður hefir sýnt það fyrir löngu, að hann er vel fallinn til þess að veita fyrirtækjum forstöðu. a. m. k. þeim, sem ríkinu tilheyra. Ég þori því að fullyrða, að forstaða hans fyrir þessu nýja fyrirtæki muni fara vel úr hendi. Um það verður því ekki með rökum deilt, að úr því að stj. ákvað að taka í hendur ríkisins einkasölu á raftækjum, þá var það eðlilegt og vel ráðið að fela Sigurði forstöðu fyrirtækisins. Annars vil ég að endingu segja hv. 3. þm. Reykv. það, að ég var alveg hissa, hver orð hann hafði um rekstur Sigurðar Jónassonar á raftækjaverzlun Íslands. Þau ummæli vörðuðu sannarlega við lög, hefði hann haft þor í sér til þess að segja þau utan þinghelginnar.