11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það er sama að segja um þetta frv. eins og það, sem var síðast á dagskrá (frv. um framlenging á gildi l. um verðtoll), að það fer eingöngu fram á framlengingu á lögum, sem samþ. voru á síðasta þingi, þannig að þau gildi einnig fyrir næsta ár. Með sama rökstuðningi og áður, að ríkissjóður megi ekki missa þær tekjur og þurfi að losna við þau útgjöld, sem hann að nokkru leyti losnar við samkv. þessu frv., leggur fjhn. til, að frv. verði samþ.

Ég skal taka það fram, að það þarf að leiðrétta eitt orð, næstsíðasta orðið í frv., þar sem stendur á „árin“ 1936, en á að standa á „árinu“ 1936. Ég vona, að það þurfi ekki að gera brtt. um þessa leiðréttingu, en megi leiðrétta í prentun.

Hér á fundinum hefir verið útbýtt brtt. frá hv. 10. landsk. Eins og gefur að skilja, þá hefir n. ekki haft tíma eða tækifæri til að bera sig saman um hana, og því vitanlega enga afstöðu tekið til hennar. Ég sé ekki heldur ástæðu til að taka fram mitt persónulega álit um hana fyrr en hv. flm. hefir talað fyrir henni, en vitanlega er ekkert hægt að segja um hana á þessum fundi frá n. hálfu.