04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (4892)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það er nú komið í ljós með þessari ráðstöfun, hver verið hefir aðaltilgangurinn með þeim stóra lagabálki um einkasölu á bifreiðum og raftækjum, er samþ. var á síðasta þingi. Það þurfti hvorki meira né minna en þessar smáræðis umbúðir til þess að koma því í framkvæmd, sem þegar var spáð, að tilgangurinn væri að losa þennan mann eða þetta firma, raftækjaverzlun Íslands, við sínar vörubirgðir og gera eiganda verzlunarinnar að forstjóra einkasölunnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þessi maður er losaður við óþægilegar byrðar á kostnað ríkissjóðsins. Ég vil spyrja: Hverju má hann nú taka upp á næst? Þetta er í annað sinn. (MT: Hvað hefir hann verið losaður við áður?). Tóbaksverzlunina. (Fjmrh.: Er það greiði, að taka af mönnum atvinnu þeirra?). Það þurfti bara þessar litlu umbúðir til þess að koma þessu í framkvæmd: hér var ekki um að ræða neinn smágreiða stj. fyrir sinn flokksmann á kostnað ríkissjóðs. — Ég sé nú, að þér liggur fyrir rökst. dagskrá frá hæstv. forseta Alþfl. um að vísa þáltill. frá. Honum finnst ekki athugavert, þó þessi ráðh. geri flokksmanni sínum greiða, ef hinir ráðh. fái einnig að hjálpa sínum mönnum. Þetta samkomulag um stjórnarfar er alveg óþolandi. Samkomulag um stjórnarfar má ekki byggjast á þessu. En þó væri nú þetta lítilsvert, ef það væri engum til tjóns. — en ekki er nú svo vel, að svo sé. Allir þeir menn, sem með þessar vörur verzla í Reykjavík og Hafnarfirði, hafa mótmælt þessari ráðstöfun sem gerræði (Fjmrh.: Það hefir ekki verið kallað gerræði.) og skorað á hæstv. ráðh. að gera breyt. þar á. Það er undarlegt, að af þeim þrem heildsölum, sem keppt hafa um verzlun með þessar vörur hér á landi, skuli vera valið einmitt það fyrirtækið, sem fyrir stjórnina er pólitíski hættulegast.

Ég held því ekki fram, að ráðh. eigi við hvað eins, sem hann gerir, að ganga fyrir Pétur og Pál og spyrja þá ráða, heldur eigi hann að fara eftir því, sem hann telur réttast, og taka síðan afleiðingunum, hverjar sem þær verða, með góðri samvizku; en hér er ekki þannig ástatt. Hér er þannig í pottinn búið, að hæstv. ráðh. hlýtur að finna til mikils sársauka hvert sinn sem á þessa ráðstöfun hans er minnzt, af því hún er óforsvaranleg. Allir, sem við hana eiga að búa, hafa mótmælt henni, og það er ómögulegt að segja, að dómur allra þeirra manna, sem við þessa ráðstöfun eiga að búa og afkomu sína eigu undir henni, sé einskis virði. Og þessi mótmæli eru ekki fram borin af stjórnmálalegum ástæðum, heldur af því, að þessir menn telja þessa ráðstöfun skerða atvinnu sína tilfinnanlega. En hvaða ástæður liggja þá til grundvallar fyrir þessari ráðstöfun? Hér er um að ræða fyrirtæki, sem hefir einkaumboð fyrir einn stærsta raftækjaframleiðanda heimsins, þýzkt fyrirtæki, sem teygir hingað angana gegnum Danmörku, en þetta eitt gefur fullkomna ástæðu til þess að vita það, að þessu fyrirtæki skuli vera gert svona hátt undir höfði. Það má heita, að búið sé að gefa A. E. G., eða Allgemeine. Elektrizitäts Gesellschaft, sérstöðu á Íslandi. Það verður ekki annað séð en að sú sérstaða eigi að tryggja því fyrirtæki alla verzlun hér á landi, máske gegn einhverjum fríðindum, svo sem t. d. rekstrarfé handa raftækjaeinkasölunni, en ráðstöfunin er engu að síður vafasöm, því ég efast ekki um, að yfir henni verður kvartað af öðrum erlendum firmum, sem gjarnan hefðu viljað gera tilboð í þau kjör, sem A.E.G. hefir hlotið. Það er talið, að forstjóri raftækjaeinkasölunnar hafi sérþekkingu á þessu sviði: Ég held það sé ekki rétt. Ég held það sanni nær að segja, að hann sé þekkingarlaus á því sviði, og sjálfur hefir hann litið svo á, að hann þyrfti að kaupa sér sérþekkingu á þessari verzlun meðan hann stjórnaði raftækjaverzlun Íslands. Ég vil ekki fullyrða, að bráðnauðsynlegt sé, að forstjórinn hafi sérþekkingu á öllum raftækjum; þó er eðlilegra, að svo væri, en hér hefir alls ekki verið litið á fagþekkinguna sem skilyrði, og þessi maður hefir hana enga.

Mér þótti ein setning, sem hæstv. fjmrh. sagði, talsvert athugaverð. Hv. 3. þm. Reykv. hafði sagt, að líkur væru til, að það yrði hagur fyrir raftækjaverzlun Íslands, að eigandi hennar og forstjóri yrði einnig forstjóri raftækjaeinkasölu ríkisins. Það mætti ætla, að raftækjaverzlun Íslands héldi áfram sem smásala og gæti þá haft hagnað af því að vera þannig tengd raftækjaverzlun ríkisins; en hæstv. ráðh. sagði þá, að það væri tilhæfulaust, að raftækjaverzlun Íslands héldi áfram. (Fjmrh.: Ég sagði, að Sigurður Jónasson yrði ekki forstjóri raftækjaverzlunar Íslands eftirleiðis). Má vera, en þar með er ekki sagt, að raftækjaverzlun Íslands geti ekki haft sérstaka hagsmuni af því, að aðaleigandi verzlunarinnar verður forstjóri raftækjaeinkasölu ríkisins. Þessi vítaverða ráðstöfun hæstv. ráðh. gerir smásölu raftækjaverzlunar Íslands sérstaklega hagvænlega. Eða er ekki líklegt, að hún standi nokkuð betur að vígi en aðrar smásölur? Er ekki líklegt, að þessi maður sjái um það, að hans eigin verzlun hafi betri aðstöðu en keppinautar hennar? Þannig vakna margar spurningar fyrir manni. þegar þetta mál er skoðað niður í kjölinn, og allar eru þær þess eðlis, að ýmist gera þær þessa ráðstöfun enn athugaverðari eða þá að þær vekja upp nýjar spurningar í sambandi við þetta mál, sem gera það enn tortryggilegra. Ég álít, að nú sé komið í ljós, að aðaltilgangurinn með bifreiða- og raftækjaeinkasölulögunum í fyrra hafi verið sá, að koma raftækjaverzlun Íslands yfir á ríkið. Í öðru lagi hygg ég, að hæstv. ráðh. geti ekki mælt bót ráðningu forstjórans eða reglugerð þeirri, sem hann hefir gefið út um raftækjaeinkasöluna.

Ég tel því sjálfsagt af Alþingi að samþ. þáltill., til þess að hinir hæstv. stjórnarherrar vari sig á slíku eftirleiðis.