04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (4893)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Magnús Torfason:

Eins og hv. þingheimi er kunnugt, hefir mínu heiðraða nafni verið blandað inn í umr. um raftækjaeinkasölu ríkisins, sem nú á að fara að stofna. Fyrir þetta út af fyrir sig hefði ég þó ekki kvatt mér hljóðs. Ég er nú orðinn svo vanur smáhníflum og stingjum, að ég læt mér nokkuð á sama standa; slíkt hefir aldrei hrinið á mér. En það hafa hér verið bornar sakir á raftækjaverzlun Íslands, og þar er ég hluthafi og þess, vegna nokkuð kunnugur málavöxtum. Leyfi ég mér því að segja nokkur orð.

Ég ætla fyrst að snúa mér að hv. 5. þm. Reykv. Hann var að minnast á tóbaksverzlun Íslands og gat þess í því sambandi, að Sigurður Jónasson forstjóri hennar hafi skorið sér allgóðan bita af því fyrirtæki, tóbakseinkasölunni, er hann stjórnaði áður. Ég verð að segja það, að ég hefi aldrei séð eða heyrt máli snúið öfugt fyrr, ef það er ekki gert hér. Mér var kunnugt um það, þegar tóbakseinkasala ríkisins var lögð niður, þá bað Magnús heitinn Kristjánsson mig að leggja fé í þetta fyrirtæki, sem taka átti við af einkasölunni, en einn fyrirvara setti hann: það skilyrði, að ég skyldi greiða atkv. með því, að ríkið tæki þessa verzlun aftur sínar hendur, ef afstaða breyttist. Þetta skilyrði setti hann af því hann vissi, að betur gengi að koma einkasölu aftur á fyrir vikið. Þetta fyrirtæki græddi vel fé. Það gaf af sér árlega 15—50%, og það er enginn vafi á, að sá gróði hefði aukizt, ef fyrirtækið hefði haldið áfram. Svo er hér sagt, að forstjórinn hafi gert sér mat úr því að leggja þessa verzlun niður, er ríkið tók aftur einkasölu á tóbakinu og hann gerðist forstjóri þeirrar verzlunar. Hér er sannleikanum alveg snúið við: hér er þvert á móti fagurt fordæmi gefið, að vilja heldur vinna fyrir almannahag en sjálfan sig. Að nokkru leyti er líkt ástatt með raftækjaverzlun Íslands. Ég gerðist hluthafi í þeirri verzlun fyrir tilmæli Sigurðar Jónassonar. Það, sem vakti fyrir honum með stofnun þeirrar verzlunar, var að ná sem beztum verzlunarsamböndum við útlönd. Ég veit ekki, hvort mönnum er almennt kunnugt um, að það er raftækjaverzlun Íslands, sem undirbjó Sogsvirkjunina. Það hefir verið sagt hér, að þetta félag hafi tapað fé. Ég veit ekki til þess. En það hefir fest peninga í þessum undirbúningi, um 40 þús. kr., og það hefir verið gert með samþykki allra hluthafa, án tillits til þess, hvort nokkuð fengist upp úr því síðar. En því vil ég ekki leyna, að fyrirtækið var líka stofnað með tilliti til þess, að það mundi verða mjög þýðingarmikið fyrirtæki, þegar Sogið væri virkjað, blátt áfram af því, að þegar rafmagn verður miklu ódýrara, þá verða miklu fleiri, sem nota það á allan hátt, og þess, vegna átti þessi verzlun góða framtíð fyrir höndum. Fyrir þessa gróðamöguleika er tekið með því að gera raftækjaverzlunina að landsverzlun. Það er þess vegna svo langt frá því, að Sigurður Jónasson eða aðrir, sem þar að standa, hafi verið að skera sér einhverja sneið með þessu, því það er og verður fjárhagslegt tap.

Í þessu sambandi skal ég geta þess, að á morgun verður aðalfundur raftækjaverzlunar Íslands, og á dagskrá er ekkert um það, að stofna eigi smáverzlun. Það hefir áreiðanlega engum manni í félaginu dottið í hug.

Hér hefir einnig verið sagt, að raftækjaverzlun Íslands hafi ekki verið samkeppnisfær. Og í hinu orðinu er sagt, að það sé eitthvert stærstu fyrirtæki þessarar greinar í öllum heimi, sem raftækjaverzlunin hafi umboð fyrir, en samt er verið að reyna að koma því inn hjá mönnum, að vörur þessarar verzlunar séu ekki samkeppnisfærar. Ég er satt, að segja alveg hlessa á að heyra annað eins og þetta borið hér fram.

Hvað mig persónulega snertir, þá hefir Sigurður Jónsson aldrei minnzt á það einu orði við mig, hvernig uppgerðin yrði á milli raftækjaverzlunar Íslands og ríkisverzlunarinnar tilkomandi, og ekki heldur um mannahald verzlunarinnar.

Ég hefi samkv. þessu sérstaka aðstöðu hér á þingi, og það verður kannske litið svo á, að ég eigi um mitt mál að eiga hér, og þess vegna er það, að ég mun ekki greiða atkv. um þessa till. En hinsvegar get ég lýst því yfir, að ég er algerlega á móti þessari till. á þskj. 379 og tel hana algerlega að ófyrirsynju fram komna.