04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (4896)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Ég tek til máls fyrst og fremst af því, að ég er meðflm. að þessari þáltill. Ég vil ekki láta skoða afstöðu mína til þessa máls neitt í líkingu við það sem hv. þm. S.-Þ. var að tala um: að hún sé sprottin af fjandskap við Sigurð Jónasson. Ég hefi þá persónulegu skoðun á Sigurði Jónassyni þó það sé kannske ekki viðeigandi að tala um mann, sem ekki er innan þingsins), að hann hafi verið einn af albeztu mönnum Alþfl. Það er að vísu ekki afarmikið sagt með því, en frá sjónarmiði stjórnarsinna getur það ekki verið last. En það raskar ekki því, að ég víti það, ef hann er viðriðinn einhverja þá hluti, sem þetta flokkasamband, sem hér er í meiri hl. á þingi, framkvæmir og eru stórvitaverðir.

Það er rétt að byrja á því sem er e. t. v. byrjun þessa máls, og það eru ádeilur Alþýðublaðsins á fjmrh. út af þessari ráðstöfun. Sú ádeila er flutt af Alþfl. og hefir verið endurtekin í blaði hans, og ég veit, að hún mundi hafa verið stöðvuð, ef þingflokkurinn hefði ekki verið henni í alla staði samdóma. Þetta er upphaf aðfinnslunnar, og það er ekki farið neitt í launkofa með það, hvað það sé, sem Alþfl. og fyrst og fremst forystumenn hans hér á Alþ. hafa fram að flytja. Þeir segja, að það sé hneykslanlegt framferði, sem hæstv. fjmrh. hefir gert sig sekan í, og rafvirkjar hafa mótmælt og krafizt þess, að reglugerðin verði endurskoðuð og gerðir fjmrh. afturkallaðar. — Alþfl. heldur svo áfram. Hann segir síðar, að athæfi hæstv. fjmrh. sé mjög vítavert og að hann verði að víta mjög harðlega þessa ráðstöfun. Ennfremur segist Alþýðublaðið krefjast þess, að þessi mistök verði leiðrétt, og það tafarlaust.

Nú er það ekki svo að skilja, að sjálfstæðismenn séu að herma eftir sósíalistum. En þó sjálfstæðismenn verði oftast að vera andstæðir því, sem Alþfl. flytur, þá má það ekki eiga sér stað, þá sjaldan þessi flokkur fylgir réttu máli, að sjálfstæðismenn ekki fylgi því einnig. Við sjálfstæðismenn látum ekki af réttri stefnu, þó menn, sem ekki eru þekktir að því að fylgja að jafnaði réttum málstað, séu einnig með sömu kröfur.

Nú hefir hv. 4. landsk. komið fram með einskonar traustsyfirlýsingu til ríkisstj. Hann komst svo að orði, að hæstv. fjmrh. hefði tekið aðfinnslum þeim, sem fram eru bornar á þskj. 379 og eru endurtekningar á aðfinnslum Alþýðublaðsins, sem vantraust; og það væri alveg rétt, að hans dómi. Nú verð ég út frá þessu að segja það, að þegar Alþfl. er búinn að koma fram með þessar aðfinnslur, sem form. þess flokks segir, að fjmrh. hafi réttilega tekið sem vantraust, og þegar svo sjálfstæðismenn, sem ég vænti, að allir séu með þáltill. á þskj. 379, bætast við með þessu, sem hæstv. fjmrh. að dómi form. Alþfl. hefir réttilega tekið sem vantraust, þá sýnist mér, að hæstv. fjmrh. hefði ekki getað annars gert en að beiðast lausnar eða segja af sér strax, áður en þessi till. var tekin til umr., nema því aðeins, að hann væri búinn að semja um það við Alþfl., að hann hyrfi frá þessu vantrausti. Og skilst mér, að þeir samningar séu nú komnir á. Mér finnst það að sönnu ekki nema sanngjarnt af hendi Alþfl.; hann hefir notað Framsfl. svo lengi og vægðarlaust fyrir gólfþurrku, að það er ekki nema réttmætt, að hann láti einu sinni þurrka í sig lítils háttar óþverra. Mér finnst Framsfl. hafa unnið fyrir þessu og þetta ekki vera nema sanngjörn viðskipti milli flokkanna. En það raskar ekki því, að þetta er alvarlegt mál, sem hér er um að ræða mál, sem gengur svo fram af meiri hl. þingsins, að hann getur ekki látið það óvítt. Og ég verð að segja, að það er kominn tími til þess að koma fram með hér á þingi aðfinnslur yfir því, sem hefir viðgengizt í mörg ár. a. m. k. öll þau ár, sem framsóknarmenn hafa farið með stj. hér á landi, og það er það, að ríkissjóður sé óbeint notaður til framdráttar einstökum mönnum og flokkum og að flokkastarfsemi þessara herra hafi styrk sinn frá ríkissjóði eftir óbeinum leiðum. Þetta á að stöðva. inn á efni þessa máls að öðru leyti þarf ég í raun og veru ekki að fara, eftir að 3. og 5. þm. Reykv. hafa rætt það jafnrækilega og þeir gerðu. Það er kannske ástæða til að mótmæla einstökum atriðum, sem fram hafa komið frá stuðningsmönnum stj., eins og t. d., að það sé ósamræmi í því, að þessi verzlun hafi getað gefið hluthöfum sínum arð, en þó væri hagur fyrir eigendurna, að ríkið keypti þær birgðir, sem verzlunin á. Það má vel vera, að liðsmenn stj. skilji þetta ekki sjálfir, en þeir hljóta að skilja það undir eins og þeim er bent á það. Það er hægt á túnabili að moka upp fé, eins og hv. 2. landsk. segir, að þessi verzlun hafi gert, en hlaða jafnframt upp svo miklu af „ukurant“ vörum, að það saki í framtíðinni og því til stórhags að geta losnað við þær. Og það er einmitt það, sem ég hygg, að eigi sér stað hér, að þessi verzlun hafi gefið ágætan arð hluthöfum sínum, en það sé gott heilum vagni heim að aka, og því sé ágætt að láta ríkið taka hinar úreltu vörur, sem verzlunin kann að eiga í stórum stíl, og pína þær út í almenning í einokun.

Ég verð að segja það, að mér finnst hæstv. fjmrh. ekki mjög viðkvæmur, að hann skuli ætla að standa þetta af sér. Ég hygg, að flestir ráðh. aðrir mundu hafa verið það hörundsárir, að þeir hefðu ekki viljað liggja undir þessum aðfinnslum án þess að geta hnekkt þeim rökfræðilega og efnislega. En ég kalla ekki, að hann hafi hnekkt þeim, þó hann hafi fengið Alþýðuflokksþingmenn til þess að ganga frá sinu vantrausti, til þess að hann geti hangið í ráðherrastóli. Það er vitanlega rétt hjá hæstv. fjmrh., að það væri tiltölulega létt fyrir hann að bera þetta böl, ef menn væru ánægðir með allt annað, sem hann hefir gert. En hann skal ekki byggja sér neinar skýjaborgir úr því, því þó þetta sé þess eðlis, eins og hv. 3. þm. Reykv. benti á, að það sé einna hneykslanlegast af gerðum hans, þá er þó margt annað í hans verkahring, sem sjálfsagt stefnir landi og lýð til meira tjóns; en það þarf ekki að vera, jafnhneykslanlegt, því það getur verið sprottið af getuleysi: vöntun þekkingar og hygginda, sem í hag koma. Það kann að vera af því, að hann hafi reist sér hurðarás um öxl og hafi ekki þrek til þess að viðurkenna, að hann ætti að víkja og láta aðra, og hæfari taka við. Það þarf ekki annað að vera en manninn skorti dugnað. En það er hneykslanlegt, ef menn gera rangt vísvitandi og af því, að við það eru bundnir persónulegir hagsmunir.

Ég verð að segja eins og aðrir hv. þm., sem hér hafa talað, að ég vil ekki verða til þess, að ekki vinnist tími til að ræða þau mál, sem enn eru órædd á dagskrá fundarins, og þótt ég hafi enn margt að segja um þetta mál, þá mun ég láta hér staðar numið. En ég vil að lokum leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til fjmrh., hvort það sé satt, að þetta hneyksli eigi nú að kóróna með því að kaupa af Sigurði Jónassyni stórhýsi hans við Tryggvagötu til handa ríkinu. Og til þess að hæstv. fjmrh. standi ekki alveg einn uppi, vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort hann sé hluthafi í raftækjaverzlun Íslands h/f, eins og altalað er.