04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (4899)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessar umr., sem er eitt af því aumasta vantrausti, sem ég nokkurntíma hefi heyrt umr. um hér á þingi, en út af fyrirspurn frá hv. 6. þm. Reykv. og að nokkru leyti frá hv. 3. þm. Reykv. ætla ég að segja hér fáein orð. Ég ætla þó, fyrst ég stóð upp á annað borð, að benda á það, að höfuðatriðið í þessu máli er vitanlega það, hvort raftækjaverzlun Íslands selur vörubirgðir sínar, sem þeir telja lítt seljanlegar á frjálsum markaði, vegna þeirrar aðstöðu, sem Sigurður Jónasson hefir fengið, og hvort hann reynist svo óhlutvandur að loka fyrir innflutning á góðum svörum til þess að geta selt birgðir raftækjaverzlunarinnar. Á annan hátt gæti hann ekki misnotað aðstöðu sína, og þess vegna er þetta fyrst og fremst vantraust á Sigurð Jónasson og frekleg ádeila á hann. því að þetta og þetta eitt er atriði í málinu. En menn geta ímyndað sér, eins og hæstv. fjmrh. hefir tekið fram, hvernig það myndi haldast uppi gagnvart smásölunum hérna í bænum, að afhenda einungis þessar ónýtu vörur, sem sagðar eru, og meina þeim að fá nothæfan varning. Það yrði eitthvað skrítin niðurstaða, þegar það kæmi á daginn, og ég vil endurtaka það, að um þetta eitt stendur deilan, eða á að standa. Ég kalla það djarft að gera Sigurði Jónassyni þær getsakir, að hann myndi haga sér þannig. Ég heyrði það frá fyrrv. fjmrh., Ásgeiri Ásgeirssyni, og býst við, að hann hafi ætlazt til, að það kæmi hér fram, og ég vil vegna Sig Jónassonar geta þess hér, að þegar Sig. Jónasson var settur forstjóri tóbakseinkasölunnar, þá óskaði hann eftir því, að einhver maður, helzt andstæðingur sinn. yrði skipaður til þess að taka út vörubirgðir tóbaksverzlunar Íslands hf og meta í hendurnar á sér. Til þessa var svo skipaður sjálfstæðismaðurinn Björn Árnason endurskoðandi.

Það var gerð fyrirspurn um það, hvort ég væri hluthafi í raftækjaverzlun Íslands og þá gefið í skyn, að þessi ráðstöfun myndi sérstaklega gerð vegna hluthafanna. Það er náttúrlega alveg tilhæfulaust, að ég sé hluthafi, og ég get lýst því yfir, að ég á ekkert í neinu fyrirtæki hér í Reykjavík. En ég ætla að benda þessum hv. þm. á einn góðan hluthafa, sem er Sveinn Benediktsson, og einnig dr. Alexander Jóhannsson, og þeir geta spurt þá, hvort ég muni vera hluthafi. Þessir menn ásamt fleiri sjálfstæðismönnum eru hluthafar í fyrirtækinu. Þetta hefir þá víst verið gert fyrir Svein Benediktsson og þá, því að það eru þeir, en ekki forstjórinn, sem hagnast af þessu.

Þá er svipað, þegar spurt er, hvort ríkið væri að kaupa húsið af Sigurði Jónassyni. Veit ekki hv. þm., að það er ekki hægt að kaupa fasteignir fyrir ríkið nema með samþ. Alþingis. Hugsið ykkur, á hverju getsakir eins og þessar eru reistar!

Ég tel ekki frekari ástæðu til að taka þátt í þessum umr. Þetta er það ómerkilegasta vantraust, sem ég hefi heyrt um á æfi minni.