11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Briem:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram brtt. á þskj. 104 við 7. lið frv., sem fyrir liggur. Eins og hv. þdm. muna, þá var þessi 7. liður ekki í frv. eins og stjórnin lagði það fyrir á síðasta þingi. En samflokksmenn mínir í hv. Nd. fluttu þá brtt. við frv. í svipaða átt og þessi brtt. mín hnígur nú, og þá fyrst kemst þessi 7. liður inn í frv. í því formi sem það er nú.

Ég ætla ekki að orðlengja um þessa brtt. mína, ég vænti, að hún sé öllum hv. þdm. svo ljós. Hún gengur aðeins í þá átt að gefa þdm. kost á að velja á milli þess, hvort heldur á að styrkja jarðræktina í landinu með framlögum af þessu fé, eða götulagningu í kaupstöðum. En með því að brtt. hefir ekki verið útbýtt fyrr en nú á fundinum, þá get ég, ef n. óskar eftir því, tekið hana aftur til 3. umr., svo að n. fái tíma til að athuga hana.