18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (4907)

200. mál, landsreikningur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. þdm. er kunnugt, eru reikningar Alþingis sérstakir, og aðeins færðar niðurstöður inn á LR. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir því, að hinir umboðslegu endurskoðendur fari yfir þá eða endurskoði, heldur sé það eingöngu gert af yfirskoðunarmönnum LR.

Þessi mismunur — kr. 148,30 —, sem er á reikningum Alþingis og LR. hefir komið fram þannig, að hjá ríkisféhirði hafa verið kvittanir fyrir hærri upphæð en átt hefði að greiða eftir reikn. Alþingis. Nú hefir verið lögð vinna í að finna, hvernig þessi mismunur hefir til orðið, enda þótt þetta sé verk yfirskoðunarmanna LR og það, sem þeim ber að gera. En þeir virðast ekki hafa endurskoðað reikning, Alþingis, aðeins fundið þennan mismun og látið við svo búið standa, og hefir því ráðuneytið látið framkvæma þetta verk, sem þeim bar að inna af höndum. Mismunurinn er fólginn í eftirtöldum ofgreiðslum. Ofgreitt þingfararkaup til Jóns Ólafssonar frá þinginu 1933 kr. 96,88. Þingfararkaup frá þingi 1931 til Jónasar Jónssonar kr. 50.40. Ofgreitt Héðni Valdimarssyni kr. 1.00, og útborgað Sveinbirni Högnasyni tveir aurar, og er þá öll upphæðin komin, kr. 148,30.

Eins og ég hefi margtekið fram, var það og er verk endurskoðenda LR. að fara í gegnum reikninga Alþingis, en því hefir nú verið af þeim létt, þó að réttasta svar ráðuneytisins hefði verið að skipa þeim að gera skyldu sína.

Annars vil ég nota tækifærið út af þessu máli og taka það fram, að ég álít, að þessu beri að haga öðruvísi en nú er um reikninga og útborganir vegna Alþingis, þannig að skrifstofa Alþingis greiði allt, en ekki eins og er, að hún greiði sumt, en sumt er greitt hjá ríkisféhirði. Af því hefir þessi mismunur komið fram, að greiðslur og reikningar eru sitt í hvorum stað. Ég hygg því, að það sé betra, að framvegis fari allar greiðslur á reikningum og til einstakra manna fram í skrifstofu Alþingis, sem annast reikningshaldið, en hún fái ávísanir frá ríkisféhirði, eins og svo fjölmargar aðrar stofnanir. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta.