18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (4909)

200. mál, landsreikningur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr. mikið. Hv. 1. þm. Reykv. sagði nú, að stj. ætti ekki að úrskurða um þetta, heldur yfirskoðunarmenn LR. Þetta er rétt. Stj. á ekki að úrskurða um þetta, enda hafði hún búizt við því, að þess mætti vænta, að endur skoðunarmenn LR myndu finna skekkjuna, en yfirskoðunarmennirnir hafa bara ekki fundið hana. Ég skal ekki bera á móti því, að reikningar Alþ. hafa sérstöðu. En það ætti að vera nægilegt, að yfirskoðunarmenn landsreikninganna endurskoðuðu einir þá reikninga, sem gefnir eru út af skrifstofu Alþ. og forsetum. Hitt veit ég, að sú skoðun er ekki nægileg, ef aðeins er litið yfir reikningana, en ekki fenginn samanburður á því. hvort allar þær upphæðir, sem færðar eru á landsreikninginn og eru á reikningum Alþ., séu réttilega útborgaðar. En hann fæst ekki nema með samanburði á reikningum skrifstofunnar og þeim upphæðum, sem ríkisféhirðir hefir borgað út. Þetta hefir verið gert núna, og kom þá í ljós, að ríkisféhirðir hefði borgað út hærri upphæð en skrifstofan hafði gefið upp. En í stað þess, að yfirskoðunarmennirnir áttu að leiða þetta í ljós, þá hafa nú aðrir orðið að gera það.

En þeir eiga um leið og þeir endurskoða reikninga Alþ. að bera útborganirnar saman við tölur þær, sem ríkisféhirðir gefur upp. Og ef á milli ber, þá ber þeim að reyna að finna í hverju skekkjan liggur, því fyrr er endurskoðunin ekki fullkomin. Það verður að keppa að því að fá samanburð á því, hvort útborganir á landsreikningunum hafa farið réttilega fram, en um það er ekki hægt að sannfæra sig, nema með því að gera samanburð á reikningum Alþ. og þeim upphæðum, sem ríkisféhirðir hefir borgað út. Það, sem á milli ber, er ekki annað en það, hvort yfirskoðunarmönnum landsreikninganna beri skylda til að sannfæra sig um þetta. Ég lít svo á, að þetta sé skylda þeirra. Í stað þess að upplýsa þetta sjálfir núna, þá hafa þeir snúið sér til aðilja, sem ekki bar að upplýsa það. Það er svo með alla endurskoðun, að ef sá, sem endurskoðar, finnur einhverja skekkju, þá á hann ekki að fara til þess, sem fær hann til að endurskoða, og biðja hann um að finna, í hverju skekkjan sé fólgin, því að sá getur haft blekkingar í frammi, ef hann vill svo við hafa. Nei, endurskoðandinn verður sjálfur að rannsaka finna, í hverju skekkjan er fólgin.