11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson:

Hv. 10. landsk. sagði, að þessi brtt. sín á þskj. 104 væri svo ljós, að um hana þyrfti ekkert að tala, hér væri aðeins um það að velja, hvort heldur ætti að styrkja jarðræktina í landinu með þessu fé sérstaklega eða vinna að malbikun gatna í kaupstöðum. — Það mætti nú sennilega ræða um í þessu sambandi, hvaðan þessir peningar koma, sem til þessa á að nota. En samkv. lögum um skatta af bifreiðum og benzíni, er þetta fé að mestu leyti komið frá kaupstöðunum, þó að því verði hinsvegar ekki neitað, að það er einnig að nokkru leyti runnið úr sveitunum. Ég get sagt það nú þegar, að ég er ekki samþykkur þessari brtt. og mun greiða atkv. á móti henni. Ég hefi alltaf verið dræmur að samþ. frestun á bifreiðaskattslögunum, að því leyti að frestað verði að greiða kaupstöðunum sinn hluta af þeim tekjum, sem þeim er ætlaður samkv. lögunum; en því síður get ég fylgt slíkum tillögum sem þessari um að fénu skuli varið til annara hluta, að það skuli með beinni ráðstöfun verða tekið af kaupstöðunum og varið til sveitanna. hér er verið með þessari brtt. að reyna að ala á tortryggni og óánægju milli sveita og kaupstaða.