18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (4910)

200. mál, landsreikningur

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur það, sem ég sagði, en ég er ekki að heimta það af honum, að hann kannist við það, að hann hefir hér farið of langt í því að heimta, að starf yfirskoðunarmanna LR sé tvennskonar umboðsleg endurskoðun ofan á hina almennu endurskoðun. Starf yfirskoðunarmanna. LR. er að yfirlíta landsreikninginn, og ef það er einhver upphæð í honum, sem ekki stemmir við þær greiðslur, sem fram hafa farið, eða ef þar er einhver skekkja, þá geta þeir gert fyrirspurn til hinna umboðslegu endurskoðenda, og auk þess beint fyrirspurn til stj., en það er það, sem hæstv. ráðh. er að finna að, að þeir hafi gert í þessu tilfelli. En það hefir nú verið farið til hliðstæðrar endurskoðunar við hina umboðslegu, en hún er ekki umboðsleg nema að því leyti, sem hún er frá hendi reikningshaldarans, en hún er í sömu aðstöðu gagnvart reikningsfærslu Alþ. Það var beint til ríkisbókhaldsins fyrirspurn um, hvernig á því stæði, að reikningar þeir, sem athugaðir voru, stemmdu ekki við bókhald ríkisféhirðis. Hæstv. ráðh. skilur, að það er ekki verið að beina fyrirspurninni til ríkisféhirðis, því hann á hér hlut að máli, heldur til ríkisbókhaldsins, en það á að hafa eftirlit með útborgunum ríkisféhirðis. Í þessu tilfelli fann ríkisbókhaldið skekkjuna, en hún lá í því, að ríkisféhirðir hafði borgað of mikið. Það má segja, að svar hæstv. ráðh., að við svo búið megi standa, sé hæpið, þar sem ríkisféhirðir hefir borgað það, sem engin heimild var fyrir að borga. Það er ágætt, að það hefir verið gerð gangskör að því að leiðrétta þennan halla, sem er allt frá 2 aurum upp í 90 kr. Þar sem það hefir verið gert, þá get ég tekið þáltill. aftur, og er þá þessum eldhúsumr. væntanlega lokið.