11.03.1935
Sameinað þing: 4. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (4921)

54. mál, öldubrjótur í Bolungavík

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Hv. form. fjvn. er hér ekki viðstaddur, og þess vegna vil ég skjóta fram örfáum orðum um málið á þessu stigi þess. — Fyrir fjvn. síðasta þings kom beiðni um stórkostleg fjárframlög til öldubrjótsins í Bolungavík. En það var alveg auðséð, eins og málið þá lá fyrir og með tilliti til rannsókna á skemmdum, sem á öldubrjótnum hafa orðið, að það hafði lítið að þýða, hvort farið var að ákveða um fjárframlög til þessa mannvirkis á því þingi. En það, sem sér í lagi var sorglegt og óvænt í þessu, var það, að á síðasta þinginu, sem Vilmundur Jónsson landlæknir átti sæti á, lágu fyrir upplýsingar frá vitamálaskrifstofunni og áætlanir um það, hve mikið fé þyrfti að leggja fram til öldubrjótsins í Bolungavík, til þess að hann mætti teljast öruggt og óbilandi fyrirtæki. Eftir þessari áætlun vitamálaskrifstofunnar voru það 40 þús. kr., sem til þess þurfti. Og þetta fé var þá lagt fram, þ. e. a. s. 20 þús. frá hálfu þess opinbera, gegn jöfnu framlagi annarsstaðar að. Nauðsynlegt var, að rannsókn færi fram á því, hvernig skemmdunum var háttað. Það sýndi sig, að kostnaðurinn var ekki 40 þús. kr., eins og heyra mátti á hv. þm. N.-Ísf., heldur miklu meiri. Til þess að sýna, hve hægt og varlega verður að fara í sakirnar í þessu efni, vil ég benda á það, að það fyrsta, sem hv. Alþingi heyrir af öldubrjótnum í Bolungavík. eftir að búið er að gera ráðstafanir til þess að veita fé, sem vitamálaskrifstofan taldi nauðsynlegt, er það, að aldrei hefir brimbrjóturinn verið verr kominn en einmitt nú, og að fram kemur beiðni frá Hólshreppi um fjárframlag, sem nemur á 2. hundr. þús. kr., til þess að borga mannvirkið með.

Aðstaða þeirra, sem atvinnu stunda þarna, er svo bágborin, að verri getur hún ekki verið. Þeir, sem komið hafa í Bolungavík, vita, að atvinna íbúanna er í voða, ef nauðsynlegar viðgerðir verða ekki gerðar á brimbrjótnum. Án þess að ég vilji gefa í skyn, að ég eða fjvn. muni ekki gera allt, sem unnt er, til þess að greiða úr þessu vandamáli, tel ég ástæðu fyrir hv. þing að athuga sig vel, þegar sama skrifstofan, vitamálaskrifstofan, kemur með áætlun á þann hátt, að verði þetta eða hitt gert, þá sé allt gott.