04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (4930)

122. mál, þýsk ríkismörk

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það varð að samkomulagi við fyrri umr. þessa máls, að umr. skyldi þá frestað þar til við þessa umr. En nú stendur aftur eins á, að umr. eiga ekki að geta farið fram. Þetta er illt um jafnþýðingarmikið mál, en ég ætla þó ekki að gefa tilefni til langrar tafar.

Í grg. eru tekin fram aðalatriðin, sem gera það nauðsynlegt, að þessi till. verði samþ. Með samningum, sem gerðir hafa verið við Þjóðverja. höfum við fengið leyfi til að landa ísfiski í þýzkum höfnum fyrir 800 þús. Rm. á yfirstandandi ári. En nú er því þannig farið, að Landsbankinn treystir sér ekki til að kaupa þýzku mörkin með því að greiða þau eigendum þegar í stað, því að þau eru háð ýmsum öðrum reglum en gjaldeyrir annara landa, og ástandið í heiminum er líka þannig, að ýmsir fjármálamenn eru farnir að verðu hræddir um gulllöndin. Og það hefir komið fyrir atvik nýlega, sem bendir til þess, að gulllöndunum geti verið hætt. Landsbankanum þykir því viðurhlutamikið að kaupa þýzku mörkin og bera áhættu á hugsanlegu gengisfalli þeirra, nema ríkisvaldið taki ábyrgð á þeim fyrir hönd ríkissjóðs gagnvart bankanum. En auk þess sem þetta kemur sér illa fyrir eigendur markanna, og getur verið áhætta fyrir þá að eiga mörkin í Þýzkalandi eða geyma þau þar lengi, þá fylgja því margskonar önnur óþægindi að geta ekki fengið fé sitt útborgað, þar sem þeir þurfa að standa skil á miklum kostnaði við útgerðina. Og þó að bankarnir hafi oft liprað til og veitt lán til bráðabirgða, þá er það ekki almenn regla og óvíst að byggja á fyrir því, sem sigla með fiskinn. Og ég get upplýst það hér, að togaraeigendur, sem mest hafa með þessa sölu að gera, telja það mjög hæpið, að þeir geti haldið ísfisksverzluninni áfram, nema ábyrgð ríkisstj. fáist fyrir þýzku mörkunum.

Ég vil líka minna á það, að sérstök ástæða er fyrir ríkið að gera eitthvað í þessu efni, því að það er ekki sízt vegna ráðstafana ríkisvaldsins, að mörkin eru svona erfið eign fyrir seljendur fiskjarins. því að ef eigendur markanna mættu ráðstafa þeim eftir eigin vild, þá væri eðlilegt, að þeir bæru áhættuna. En með ráðstöfunum ríkisins á gjaldeyrinum fylgir aukin skylda hins opinbera að hlaupa undir bagga með eigendum ríkismarkanna og létta á fyrir þeim.

Í grg. er tiltekið, að selja megi fyrir 800 þús. Rm. á árinu. Þetta er rétt að því leyti, að það er heimild til að selja svo mikið, en að því leyti villandi, að það eru ekki möguleikar á því, að það verði 800 þús. mörk, sem bera þarf ábyrgð á. Það getur ekki komið til mála, að heimildin verði öll notuð, og auk þess er tekið af fyrir kostnaði, sem skipin taka út í hverri ferð. Það gætu í hæsta lagi orðið 500 þús. mörk, sem til ábyrgðar koma fyrir ríkissjóð.

Um áhættuna er náttúrlega erfitt að segja. Þó má fullyrða, með þeirri óvissu, sem alltaf er um gjaldeyri, að litlar líkur séu til, að þýzka ríkið láti gjaldeyri sinn falla, a. m. k. formlega; því að þýzka þjóðin hefir eignazt svo alvarlega reynslu í þessu efni, að ríkisvaldið, sem hefir opinber tök á sínum gjaldeyri, lætur hann ekki falla, ef annars er kostur, enda myndi slíkt hafa svo víðtæk áhrif, að þess væri ekki dæmi með annari þjóð. Og þar að auki er það yfirlýst stefna hjá þeim, sem nú fara með ráðin í Þýzkalandi, að þeir ætli sér að gera allt til að halda markinu uppi, og má segja, að tilveruréttur þeirra sé undir því kominn, að þeim takist það. Og þýzkur gjaldeyrir er fyrir það öruggari, að hann er meira en gjaldeyrir nokkurs annars stórveldis bundinn við landið sjálft. Það er því ekki auðvelt að sjá, að aðrar þjóðir geti unnið að falli marksins, svo lengi sem það er örugg stefna í landinu að halda því uppi.

Það er náttúrlega ekkert hægt að fullyrða um þessa hluti, en áhættan virðist þó sennilegu lítil. Ég verð að segja það, að í þeim gjaldeyrisvandræðum, sem þjóðin á nú við að búa, þá er það kynlegt, ef hið háa Alþingi vill ekki vinna það til að veita þessa ábyrgð, svo að hægt sé þarna að fá allmikla fjárhæð í erlendum gjaldeyri, sem ekki kemur inn í landið á annan hátt, því að annars yrði ekki siglt með fiskinn og hann þá ekki seldur. Þessi ísfisksmarkaður er svo að segja fundið fé, sem ekki fæst annarsstaðar og ekki dregur frá öðrum markaði.

Það væri hart, með öllum þeim afleiðingum, sem af því yrðu, ef Alþingi vill ekki stuðla að því, að þessi verzlun geti haldið áfram. Það þarf náttúrlegu ekki um það að tala, að ef skipin hættu að sigla með fiskinn til Þýzkalands, þá hlýzt af því mikið atvinnutjón og ýmsir erfiðleikar.

Hæstv. fjmrh. hefir nú hlaupið hér í skarðið og gerzt einskonar frsm. að þessari till. En tillögur hans voru þær, að fresta umr. þangað til í haust. — Það er af öllu að ráða eins og ríkisstj. búist við að fá einhvern anda yfir sig fyrir haustið. Hún vill ekki nokkurn skapaðan hlut nú. En í haust býst hún við, að hægt sé að gera allt, þá treystir hún sér til að ráða fram úr öllum sköpuðum hlutum. Það er eins og einn þáttur í þeirri opinberun, sem hún býst við fyrir haustið, að þá er hægt að taka afstöðu til þeirrar till., sem hér liggur fyrir. — En ég vil lenda á í þessu tilfelli, að það getur talsvert verið komið til með verzlunina áður en þing kemur saman í haust. (JJós: Áreiðanlega). Og þó að hæstv. ráðh. lofi að lipra til með þennan gjaldeyri, þá er ekki víst, að gjaldeyrisnefnd sé háð þeim skilyrðum af hálfu Þýzkalands eða auðvelt sé að láta gjaldeyrisnefnd ráðstafa honum. — En það má segja hér, að litlu verður Vöggur feginn, og megi líta á, að þetta séu betri undirtektir heldur en ef stj. hefði lagt alfarið á móti till. En stjórnarflokkunum — a. m. k. öðrum þeirra — hefði verið trúandi til að leggjast á móti þessu með öllu.

Ég hefi fyrir mitt leyti ekki meira að segja. Ég vil óska, að till. fái afgreiðslu hér strax, og ég sé ekki annað en þessi ráðstöfun sé í alla staði forsvaranleg, þó að henni fylgi nokkur áhætta, þegar á það er litið, hvað vinnst við, að till. verði samþykkt.