04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (4934)

122. mál, þýsk ríkismörk

Jón Baldvinsson [óyfir]:

Þessi till. til þál. skorar á ríkisstj. að ábyrgjast f. h. ríkissjóðs gagnvart Landsbanka Íslands, að bankinn bíði engan skaða af kaupum þýzkra ríkismarka fyrir ísfisk, seldan í Þýzkalandi á árinu 1935. Áskorun þessi er á fyllstu sanngirni byggð. Það má nú líta svo á, að nokkuð hafi verið gert til að tryggja hag hinnar smærri útgerðar með frumv. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, sem nú er búið að afgr. Ég verð að taka undir þær röksemdir, að það er dálítið sérstök aðstaða með þennan fisk, sem togararnir veiða og selja: til Þýzkalands og hvergi mundi komast á markað annarsstaðar. Allur sá fiskur mundi verða óveiddur ella. Það fé, sem fyrir hann kemur, mundi ekki fást, og sú atvinna, sem fæst við að veiða hann, mundi ekki fara fram. Það má kannske segja, að það komist nærri því að vera eins ástatt um þá síld, sem seld er á þýzkan markað, en þar er samt öðru máli að gegna, þar sem tekin hefir verið upp sú aðferð að selja fyrir ákveðið verð, eða þar sem ekki er hægt að vita um árangur sölunnar fyrirfram, og þegar farnir eru ísfisktúrar, er ekki hægt að vita fyrir, hvað upp úr þeim hefst.

Þetta mál er svo mikilsvert, að ekki er vert að leggja það í hættu. Við Alþfl.menn, sem lítum nú nokkuð misjafnt á þetta mál, höfum fallizt á, að ekki yrði gengið til atkv. um það nú, með tilliti til yfirlýsingar hæstv. fjmrh., sem ég verð að líta svo á, að gerðar verði ráðstafanir til þess í haust, að mögulegt verði að taka út þessi ríkismörk til jafnaðar við verzlun eða nota þau upp í greiðslu vöruskulda, sem þegar er búið að stofna. En verði þetta mál ekki útrætt hér nú og ekki gengið til atkv., þá vil ég þó til að sýna, að við Alþfl.menn leggjum mikið upp úr þessu máli, lýsa yfir eftirfarandi:

„Fyrir hönd Alþýðuflokksins á Alþingi skal ég lýsa því yfir út af tillögunni um ábyrgð á ríkismörkum vegna sölu á ísfiski til Þýzkalands á þessa árs fiskkvóta: að telji Alþýðuflokkurinn nauðsyn á slíkri ábyrgð, mun hann á haustþinginu fylgja því, að slík ábyrgð verði tekin með tilliti til getu ríkissjóðs, og hann telur þessa frestun forsvaranlega með tilliti til yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og með tilliti til þess, að líkur eru til, að eigi safnist fyrir andvirði ísfiskjar fram að haustþingi.“

Hinsvegar munum við hafa vakandi auga á því, að stöðvun togara geti ekki átt sér stað af þessum gjaldeyrisörðugleikum til haustsins. Treystum við ráðherrunum til þess — og þó sérstaklega berum við fyllsta traust til hæstv. atvmrh. — að gera það, sem í þeirra valdi framast stendur, og beita áhrifum sínum til þess að ísfiskssalan til Þýzkalands stöðvist ekki af þessum ástæðum.