18.12.1935
Sameinað þing: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (4948)

123. mál, áfengismál

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Raun ber vitni um það, að hæstv. forseta Sþ., sem haft hefir hér völd síðan þessi till. var borin hér fram á fyrri hl. þessa þings, hefir ekki þótt þetta mál svo mikilsvert, að ástæða væri að taka það á dagskrá fyrr en þetta, eða láta það sæta þeirri venjulegu meðferð mála, að láta ekki óhæfilega langan tíma líða frá því að mál koma fram og þangað til þau eru tekin fyrir. Framan af þessu þingi voru þó ekki svo miklar annir, að ekki hefði verið hægt að taka fyrir þetta mál og önnur fleiri þörf mál, sem nú bíða skipbrot, af því að þau hafa ekki verið tekin fyrir fyrr. Hefði þó verið eðlilegra að taka slík mál til meðferðar fyrri hluta þings heldur en að bíða þangað til allt er komið í þá stertabendu, að þing verður að heyja nætur og daga, til þess að eitthvað liggi þó eftir þetta tvöfalda þing.

Mér finnst þetta mál, sem hér ræðir um, svo mikilsvert, að ég get ekki látið það óátalið, að forseti skuli hafa látið undir höfuð leggjast að taka það fyrir allan þingtímann, þangað til 4 dagar eru aðeins eftir af hinu lengsta þingi, sem háð hefir verið. Og ég segi þetta líka fyrir munn allra þeirra, sem hafa opin augu fyrir drykkjubölinu, sem herjar alla þjóðina, því að um leið og einstaklingarnir heyja baráttu sína gegn þessu böli, ætti þingið að finna skyldu hjá sér til að taka þátt í þeirri baráttu, ekki sízt þar sem það einmitt er það, sem leitt hefir þessa bölvun yfir þjóðina með öllum hennar óskaplegu afleiðingum.

Ég þarf ekki mörg orð til þess að lýsa ástandinu í þessu efni nú. Dæmin eru deginum ljósari og skýrari en svo, að bregða þurfi upp neinni mynd fyrir þeim, sem annars vilja ekki loka augunum fyrir ósköpunum og ósómanum, en þeir eru því miður margir, einnig hér á Alþingi. Þeir haga sér alveg eins og sagt er, að stærsti fugl veraldarinnar, strúturinn, geri, er hann grefur höfuðið í sandinn til þess að sjá ekki hættuna.

Við menn með slíku strútseðli þýðir auðvitað ekki að tala. En sem betur fer er til stór hópur manna, sem hefir opin augun fyrir hættunni, og engan þarf að furða á því, þótt þeir menn noti hvert tækifæri til þess að benda á þau ósköp, sem yfir vofa eru þegar dunin yfir, og beita áhrifum sínum til eflingar bindindisstarfseminni í landinu.

Það er alveg víst, að haldi svo áfram sem hingað til, er þjóðinni meiri hætta búin af áfengisófögnuðinum en nokkru öðru, þrátt fyrir alla viðskiptakreppu, markaðsbresti og skuldir. Ekkert rífur ein, niður djörfung, dug og dyggð þjóðarinnar eins og áfengið, og á engum eiginleikum ríður þjóðinni sem þessum á erfiðleikatímum. Allir vita, hve geysimiklum hluta af aflafeng landsmanna er sóað á altari vínguðsins, en þótt slíkt sé sorgleg sóun fjármuna, er þó meira um hitt vert, hve mikið af atorku og siðgæði þjóðarinnar fer þar forgörðum. Þetta er atriði, sem mér finnst sérstök ástæða til að benda á, þar sem það virðist vera orðin ríkjandi stefna hjá þingi og stjórn að afla sem mestra tekna í ríkissjóð með áfengissölu, og sóa þannig í staðinn dýrmætustu eiginleikum þjóðarinnar alveg takmarkalaust með þeirri fjáröflun. Mér finnst, að ekki hafi komið neitt fram, sem bendi til þess, að valdhafarnir ætli að slaka á klónni í þeim efnum. Nú er útlit fyrir, að tekjur ríkissjóðs af vínsölu síðustu ár verði 21/2 millj. kr. Ég mun ekki fara út í að rekja það nánar, þótt ég hafi um það fullar skýrslur, hve vínsalan hefir aukizt og margfaldazt síðan 1. febr., en niðurstaðan er sú, að tekjur ríkissjóðs hafa aukizt svona. En enginn getur litið á þetta sem vinning, nema sá, sem lokar augunum fyrir því, hvað þessi tekjuöflun kostar af starfsorku, heilbrigði, siðgæði og heimilisfriði, sem eru hyrningarsteinar hvers þjóðfélags.

Þáltill. þessi miðar að því að draga, úr þeirri hættu og bölvun, sem leidd var yfir þjóðina 1. febr. s. l. Ég býst við, að um það megi deila, hve mikill ávinningur kunni að verða að samþykkt og framkvæmd þessara 5 liða þáltill. minnar. Ég býst við, að það geti verið álitamál. En ég vil skora á þá, sem kynnu að fara að telja fram ókostina á þessum till., að þeir láti ekki sitja við það eitt að rífa þær niður, heldur bendi á einhver betri ráð, ef þeir hafa snefil af vilja til að bæta úr núverandi hörmungarástandi. Ég mun nú víkja að þessum 5 liðum.

Samkv. l. lið á að takmarka þann tíma, sem vínbúðunum er haldið opnum, til þess að torvelda aðgang manna að því að kaupa vín. Því lengur sem búðunum er haldið opnum. því auðveldara er mönnum að svala vínþorsta sínum. Ég veit að vísu, að þar með er ekki lokað fyrir það, að menn geti náð sér í vín utan þess tíma, sem búðirnar eru opnar, en ég er þess fullviss, að ekki nærri allir, sem nú ganga inn í búðirnar, myndu offra þeim verðmætum, sem þeir gera nú, ef lokunartíminn væri lengri. Ég býst við, að í sambandi við þetta hefði verið rétt að taka upp þá reglu, að skrásetja alla, sem kaupa vín, til þess að sporna við því, að menn kaupi vín til þess að selja það aftur óleyfilega. Ég hafði þetta í huga er ég samdi brtt. þessar, þótt ég setti ekki það ákvæði í þær, en vitanlega er ávallt hægðarleikur að setja slíkt ákvæði inn til að draga úr hættunni af leynisölunum.

Í næsta lið er gert ráð fyrir, að dómsmrh., sem veitir veitingaleyfi, takmarki tímann mjög frá því, sem nú er. Ég legg til, að tíminn verði takmarkaður svo, að ekki megi selja vín nema 3 tíma alls á dag, aðeins með mat og ekki eftir kl. 9 á kvöldin. Þetta er í samræmi við 1. lið og miðar að því að draga almennt úr vínnautn manna, og sérstaklega að sporna við því, að hún gangi fram á nætur, því að verri reynsla er fengin af þessari sölu en svo, að ekki sé vert að gera eitthvað til að sporna við þeirri spillingu, sem hún leiðir af sér. Er drepið á í grg., hve mjög þessi sala hefir spillt ástandinu í Reykjavík í bindindisefnum. Að vísu er pottur brotinn víða annarsstaðar, en hér er fleira og efnaðra fólk til að taka þátt í slíku.

3. till. er sú, að alveg sé tekið fyrir að selja vín í samkvæmum, dansskemmtunum sem öðrum, hvort heldur er í veitingahúsum eða félagsherbergjum, en slík leyfi er nú algengt að veita, enda hefir orðið gerbreyting á öllu samkvæmislífi við það, að vinstraumnum er leyft að reyna óhindrað ofan í fólkið í þeim mannfögnuði, sem það hefir komið sér saman um á síðkvöldum og svörtum nóttum. Má nærri geta, hvernig siðferðisástandið er, þegar saman er dauðadrukkið fólk af báðum kynjum langt fram eftir nóttum, því að það er sá sorglegi sannleikur, að kvenfólk drekkur nú orðið ekki síður en karlmenn, og mér er sagt, að áhrif áfengisins lýsi sér jafnvel enn ófegur hjá kvenfólki en karlmönnum, þegar það liggur flatt fyrir drykkjufýsninni. Það þarf svo sem ekki að leiða getum að því, að það eyðir enn miklu af verðmætum í þjóðfélaginu, miklu meiru en svo, að þjóðfélagið fái staðizt þá upplausn og þann ófögnuð, sem yfir vofir af þessari skaðsemdar hættu.

Þá kem ég að atriðinu, og kemst ég ekki hjá því að beina máli mínu sérstaklega til ríkisstj., eins og ég líka hefi gert í sambandi við vínveitingaleyfin í veitingahúsum og í þessum geðslegu samkvæmum, sem ég hefi minnzt á. En það, sem ég nú vil vekja athygli á, er það, hvernig ríkisstj. stendur að vígi í gjaldeyrismálunum, til þess að veita vinstraumnum inn í landið. Mikið af starfi Alþingis beinist nú að því viðfangsefni, hvernig komizt verði með sem minnstum skakkaföllum framhjá þeim örðugleikum, sem að þjóðinni steðja, sérstaklega gjaldeyrisvandræðunum í viðskiptunum við aðrar þjóðir. Hvernig við eigum að mæta verðfalli afurðanna og því, að sölumöguleikar þeirra á erlendum mörkuðum þrengjast alltaf meir og meir. Um þessi erfiðu verkefni snýst ákaflega mikið af starfsemi Alþingis. Það þarf mjög mikið að herða að þjóðinni með innflutningstakmörkunum á erlendum, vörum, og það meira að segja á nauðsynlegustu vörutegundum. Um það er ekkert að segja Ástandið getur orðið þannig, að þetta sé alveg óhjákvæmilegt, að neita t. d. um byggingarefni og aðrar ómissandi efnivörur til þess að bæta húsnæði fyrir menn og skepnur, bæði við sjó og í sveitum. Ekkert sýnir betur, hvílík óhæfa það er, þegar svo er ástatt, að það verður að neita um gjaldeyri til þessara bráðnauðsynlegu umbóta, að þá skuli samtímis vera varið ótakmörkuðum gjaldeyri til innkaupa á víni og tóbaki í landið. Og þessi gjaldeyrieyðsla til vinkaupa, sem nemur geysiháum upphæðum. hefir ekki í för með sér annað en eymd, siðspillingu og tortímingu fyrir þjóðina og eyðslu á verðmætum hennar. Þegar þetta er svo borið saman við þær ráðstafanir, sem gerðar eru til niðurskurðar á óhjákvæmilegustu nauðsynjum almennings, þá kemur það skýrast í ljós, hvað þessi misnotkun á gjaldeyrinum er gersamlega óafsakanleg. — Af þessum ástæðum er 4. liður till. fram kominn, en þar er því beint til stj., að leggja fyrir gjaldeyris- og innflutningsnefnd að veita ekki gjaldeyri til kaupa á sterkum drykkjum, fyrr en fullnægt er gjaldeyrisþörfum landsmanna um kaup á nauðsynjavörum.

Ég veit ekki, hvaða kröfur er sjálfsagðara að gera til valdhafanna heldur en þær, sem felast í þessari þáltill. Og það er einkennilegt um jafnaugljóst mál og þetta er að það skuli vera látin viðgangast þessi misnotkun á gjaldeyrinum. Ég verð að segja það, að ennþá sjást enginn batamerki. Það bólar ekki á neinni bending frá stj. í þá átt, að hún ætli að sjá að sér í þessu efni. Tillögur hennar, bæði um tolltekjur og einkasölugróða á áfenginu, ber vott um, að það á ekki að slaka til eða breyta um stefnu, heldur sjá sem rækilegast fyrir því, að gersamlega verði fullnægt öllum drykkjuskaparhvötum almennings í landinu. Nú er sagt, að samkv. áætlun fjárl. eigi að hækka tekjurnar af áfengissölunni, og ná þeirri aukningu með hækkun á útsöluverðinu. Hæstv. fjmrh. ætlaði að hækka tekjur af áfengistollinum, en það gat ekki byggzt á öðru en auknum innflutningi áfengis.

Um hækkun á útsöluverðinu er það að segja, að ekki dregur það úr drykkjuskaparbölinu. heldur lyftir það undir aðstöðu bruggara og smyglara. Og reynslan hefir sýnt, að það er ekkert annnað en gaspur og orðagjálfur út í loftið, að nú sé verið að kveða þá niður. Nýjustu dæmin sýna hið gagnstæða. nú hefur fyrir skömmu verið gerð herferð gegn bruggurunum í landinu, og þá kemur það í ljós, að þeir eru svo að segja á hverju strái eins og áður. Það hefir sannazt, meðal annars, að hér í Reykjavík er farið að brugga vín uppi á háalofti í landsspítalanum síðastl. sumar. Hvað skyldi þá eiga sér stað í bruggunarmálunum úti um hinar dreifðu byggðir? Aldrei hefir verið sýnd önnur eins fífldirfska á þessu sviði og þegar farið er að stunda vínbruggun í aðalsjúkrahúsi landsins í höfuðstaðnum. Hvað mundu bruggararnir þá leyfa sér annarsstaðar? Þessi tiltæki eru aðalega sprottin af hagnaðarvon bruggaranna, eða til þess að afla þeim fjár.

Ég er þá kominn að 5. og síðasta liðnum, þar sem skorað er á ríkisstj. að leggja ríkt á við löggæzlumenn ríkisins, að þeir gangi röggsamlega fram í því að hafa eftirlit með, að áfengislögunum sé hlýtt.

Ég hefi nú með því, sem ég sagði síðast, sýnt fram á, að þessi áminning er ekki ástæðulaus, þar sem reynslan hefir sýnt, hversu mikið er framið af lögbrotum á þessu sviði, og jafnvel á hinum ólíklegustu stöðum. Það er sannarlega ekki að ófyrirsynju, þó að skorað sé á stj. að láta löggæzlumenn ríkisins ganga röggsamlega fram í því, þannig að þeir láti einskis ófreistað til þess að hamla á móti vínbruggi, smyglun og auðvitað líka óleyfilegri meðferð og sölu vína, sem leyfilegt er að selja í vínbúðum og á veitingastöðum. Það er því fremur ástæða til að leggja áherzlu á þetta, þar sem felldar voru á síðasta þingi brtt. frá mér við áfengislögin, um að hafa sérstakt eftirlit með vínbúðum úti á landi og með flutningi áfengis í bifreiðum. En afleiðing þess, að Alþingi vildi ekki hafa þetta ákvæði í lögunum, er vitanlega sú, að það krefur miklu meira starfs af löggæzlumönnum ríkisins að framkvæma eftirlitið heldur en ef slík ákvæði hefðu verið tekin í löggjöfina. Þetta er afleiðing af þeirri skammsýni löggjafanna, að vilja ekki fyrirbyggja sýnilega misnotkun á vínveitingaleyfum, eða gera löggjöfina þannig úr garði, að hægt sé að halda í skefjum misnotkun áfengis í landinu.

Ég mun svo ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vil aðeins brýna það fyrir mönnum, hversu mikilsvert alvörumál það er, og þá sérstaklega fyrir þjóðfélagið í heild, að fullkomin samtök og samvinna sé á milli stjórnarvalda, bindindisfélaga og allra góðra manna í landinu um að framfylgja lögunum og halda vínnautninni í skefjum. En þess ber að gæta, að því fúsari eru einstaklingarnir til þess að leggja fram krafta sína og vinnu fyrir þetta málefni, sem þeir verða varir við meiri skilning og stuðning frá Alþingi og stjórnarvöldum í þessari nauðsynlegu baráttu. Það getur ennfremur tekizt með áhuga þings og stj. að ýta undir þá bindindissinnuðu menn í landinu, sem vilja leggja fram fé og vinnu til þess að hamla á móti þessum þjóðarvoða og kveða hann niður. Þessu þurfa Alþingi og valdhafar þjóðarinnar að gefa fullar gætur.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um till., og fer það eftir svörum hæstv. ríkisstj., hvort ég hefi ástæðu til að taka aftur til máls.