13.11.1935
Sameinað þing: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (4958)

159. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er farið fram á að lækka útvarpsnotendagjaldið, en aðeins af þeim tækjum, er ekki nota rafstraum. En fyrir því, að hér eigi að koma á tvennskonar gjöldum, hafa engin rök verið færð, aðeins fullyrðingar út í loftið. t. d. að munurinn væri svo mikill, að hann yrði aldrei jafnaður til fulls. En það hefir gleymzt að segja, í hverju sá mikli munur er fólginn.

Hv. flm. sagði, að ársrekstur á rafhlöðutækjum væri a. m. k. 80 kr. auk viðhalds og vaxta af stofnfé. En hann gleymdi einnig að færa rök fyrir því. Og hvað kostar svo að hafa útvarpstæki í sambandi við rafstraum? Það er auðveit að reikna út. Ég hygg, að í sveitum sé það notað nálægt 2 tímum á dag að meðaltali, og e. t. v. meira á stöku stað. Í kaupstöðum mun notkunin yfirleitt meiri, en við skulum gera þeim sama tíma. Ef miðað er við meðaltal 230 volt og kw. á 60 aur,. gerir tveggja stunda notkun 30 aura á dag. eða fullar 100 kr. yfir árið.

Niðurstaðan verður því sú, að í kaupstöðunum, þar sem rafstraumur er notaður, verður kostnaðurinn 20 kr. meiri yfir árið fyrir sömu notkun. Það er því síður en svo, að halli á þá sveif, að rafhlöðutækin verði dýrari í rekstri, heldur virðast þau beinlínis ódýrari. Auk þessa eru straumtækin sjálf dýrari, og stofnkostnaður því meiri. — Þetta vildi ég taka fram nú við þessa umr. til athugunar fyrir þá n., sem fjallar um málið.