13.11.1935
Sameinað þing: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (4960)

159. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það er aðeins örstutt aths. — Mér skilst, að eins og nú er, sé útvarpsstöðin ekki sterkari en það, að á miklum hluta landsins heyrist ekki til hennar svo að gagni sé. Mun svo vera á öllu svæðinu frá Öræfum að Öxarfjarðarheiði, eða jafnvel lengra vestur. Ég hefi heyrt, að til þess að bæta úr þessu sé um tvennt að ræða: Annaðhvort að auka kraft aðalstöðvarinnar hér með því að stækka hana, eða byggja endurvarpsstöð á Austurlandi. Hefir mér skilizt, að hugmyndin væri sú, að útvarpið kostaði þetta af ágóða starfseminnar, eða Alþingi, ef það fengi tekjuafgang stöðvarinnar. Ef nú á að fara að lækka afnotagjöldin, verður það þess vegna til að seinka því um ófyrirsjáanlegan tíma, að útvarpsstöðin verði nothæf fyrir allt landið. En ég vænti, að það sé þó vilji allra hv. þm. Ég hygg því, að réttara sé að lofa afnotagjaldinu að haldast óbreyttu og stefna að því að gera útvarpsstöðina sem fyrst svo fullkomna, að allir landsmenn geti hlustað á hana, sem vilja. En svo er ekki nú, og á því þarf sem fyrst að ráða bót.