29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég er hv. þm. S.-Þ. sérstaklega þakklátur fyrir það, að hann hefir nú fallizt á, að það beri að styrkja jarðræktina í landinu meira en nú er gert, og ekki beinlínis tekið illa þeirri brtt., sem ég bar fram, þó að hann óski, að hún komi öðruvísi fyrir til atkv.gr. En ég verð að gera aths. við það, sem hann sagði um, hversu miklu þessi upphæð næmi. Hann leit svo á, að með minni brtt. væri um svo litla upphæð að ræða, að ekkert væri hægt að gera með henni. En ég miðaði mína brtt. við það, að undir venjulegum kringumstæðum kæmi það sama út eins og gert er ráð fyrir í hans brtt. Eins og menn vita, þá er alþm. borgaðar 15 krónur á dag, og ef kaupið er lækkað um 7 kr., þá gerir það 343 krónur á dag, og í 80 daga verða það 27440 kr., að ég hygg vera. En auk þess er gert ráð fyrir, að það sé knúin fram stytting á þingtímanum, sem má vænta eins og nú horfir við, að ekki verði samtals skemmra en 100 dagar, og þá nemur sparnaðurinn á 20 dögum hér um bil 15 þús. kr. Þarna eru þá komnar 42 þús. kr., en nú er ætlazt til, að það nái yfir lengri tíma en árið 1936. því er líka ætlað að ná til síðari hluta ársins, sem nú er að líða, og á þessu sparast svo mikið, að þá er komin sama upphæð, og kannske meiri, ef miðað er við dagana, sem menn eru á ferðalagi, heldur en sú upphæð, sem næst samkv. brtt. hv. þm. S.-Þ. Það vakti fyrir mér, að til þessara framkvæmda kæmi jafnmikil upphæð samkv. minni brtt. eins og með brtt. hv. þm. S.-Þ. Svo þeirri ástæðu, sem hv. þm. S.-Þ. bar fram á móti minni brtt., er þar með nægilega og tölulega hrundið. En jafnframt því, sem ég miðaði brtt. við þetta, miðaði ég hana líka við það, að þm. haldi því kaupi, sem er ekki lægra en meðalprestskaup, 8 krónur á dag mun vera hátt upp í 3 þús. kr. árslaun, en mikill þorri presta hefir kaup, sem er þar fyrir neðan, því byrjunarlaun eru 2 þús. kr. Ég ætla því, að mín till. fari sanngjarnlega leið, því kosti þm. er ekki þrengt, en hinsvegar kemur fyllilega sú sama upphæð til búnaðarframkvæmda eins og gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 143.

Hinsvegar má vera, þó ég skuli ekkert um það segja, en ég gæti ímyndað mér, að embættismenn, sem fengið hafa veitingu fyrir embætti síðan l. voru gefin út, eigi lagalegan rétt til þessarar launahækkunar, sem þeir ef til vill mundu vinna af ríkissjóði með dómi. En ef samþ. er brtt. á þskj. 307, þá er öruggt um, að engin skerðing verður á því fjárframlagi vegna dómsúrskurða, og er þessi upphæð, sem þar með sparaðist, því vissari fyrir ríkissjóðinn til framkvæmda. Ég vil því vænta þess, að þessi brtt. mín fái góðar undirtektir.