29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég álít, að hv. 4. landsk. hafi rangt fyrir sér, því ég álít, að það geti vel komið til mála að lækka kaup okkar þm., að minnsta kosti þeirra, sem búsettir eru í Rvík. Það, sem ég hefi helzt efnislega út á brtt. að setja, er, að mér fyndist eðlilegt að gera mun á okkur, sem búsettir erum í Rvík, eða þeim, sem búa svo nærri eins og hv. tillögumaður, og svo þeim, sem heima eiga lengra í burtu. Ég mundi með enn fúsara geði styðja slíka brtt. En ég mun þó fylgja þessari till., því ég geri ráð fyrir, að við frekari meðferð geti þetta lagazt. Ég trúi ekki öðru en hv. 4. landsk. og aðrir, sem ekki skilja þetta við fljótlega yfirsýn, muni átta sig á þessu og þá geta veitt okkur nokkurn stuðning. Annars finnst mér það næsta ótrúlegt, að hv. 10. landsk. skyldi ekki sjá, að hans brtt. er miðuð við lengra tímabil en mín og kemur því öðruvísi út, en ég bar þetta saman við sama tímabil. En ég verð að játa, að með þeirri breyt., sem ég vil koma á, en hún er sú, að þessi sparnaður nái aðallega til þeirra, sem búsettir eru í Rvík, þá verður sparnaðurinn minni heldur en samkv. brtt. hv. 10. landsk. En þar að auki geri ég ráð fyrir, ef mín brtt. verður samþ. einu sinni, þá fari eins með hana eins og flestar aðrar bráðabirgðabreyt., að það verði haldið áfram að samþ. hana og þá er hér um 60 —65 þús. króna fjárupphæð að ræða á hverju ári. (MJ: Er nóg til í safnþrærnar? Má þá ekki gera ráð fyrir, að bæta þurfi við kúm?). Ég býst við, að Egill í Sigtúnum og hv. 10. landsk., sem aðallega hafa barizt fyrir þessu máli, hafi athugað þá hlið málsins og muni sjá fyrir því.

Ég býst ekki við því, eins og hv. 10. landsk. virtist gefa í skyn, að prestar fari að fara í mál út af þessu. Hér í þessari hv. d. er sá maður, sem uppfræðir prestaefnin, og ég býst við, að hann geri það því betur, þar sem hann er þm. líka og hefir þess vegna næmari skilning á öllu því, sem stefnir til þjóðþrifa, og þess vegna þykir mér það ólíklegt um yngstu prestana, sakir þess uppeldis, sem þeir hafa hlotið, að þeir fari í mál út af þessu. (MJ: Sveinbjörn Högnason er búinn að fá æfingu í að fara í mál). Þetta nær ekki til hans. Samkv. upplýsingum hv. 10. landsk. er þetta afarsterkt gagnvart eldri prestunum og nær þess vegna ekki til Breiðabólstaðarprestsins. (MJ: En nær það til hv. 10. landsk.?). Það er hugsanlegt, að það nái til hans. En ég treysti því vegna uppeldisins, sem ungu prestarnir vafa fengið, að þá komi það ekki til greina, vegna uppeldisins, að þeir fari í mál.

Annars gladdi það mig, að hv. 10. landsk. neitaði ekki því, sem voru aðalröksemdir mínar í þessu máli, að það væri meira gagn að því að láta þessa peninga ganga til bændastéttarinnar, því þar munu vera um 7 þús., sem verða þess aðnjótandi, en nú eru það ekki nema um 100 prestar. Það er enginn vafi á því, að frá hagfræðilegu sjónarmiði er mín till. rétt. Ég tek það sem samþykki hv. 10. landsk. fyrir þessum rökum, að hann hefir ekki séð sér fært að mótmæla þeim. Ég hefi orðið var við, að þessi till. mín hefir fengið góðan stuðning hjá bændastéttinni. (MJ: Á hvern hátt hefir það, komið fram?). Það hefir komið fram á ýmsan hátt. Bandafundurinn er nú búinn og búnaðarþingið líka. (MJ: væri ekki hægt að kalla saman sérstakan bændafund?). Það væri kannske rétt að spyrja hv. 10. landsk., hvort ekki ætti heldur að kalla saman aðra stétt manna, og ég treysti hv. 10. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. til að veita mér stuðning á þeim fundi.

Ég hygg, ef samþ. yrði mín skrifl. brtt., þá væri þar með fenginn möguleiki til að styðja hina líka. En ef hún er felld, þá neyðist og til að greiða atkv. á móti aðaltill. hv. 10. landsk. líka, því þá er ekki efnislega til í þessari hv. d. sá stuðningur, sem til þess þarf að koma fram þeim sparnaði, sem vakir fyrir hv. 10. landsk.

Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti brtt. hv. 10. landsk., því það er eini vegurinn til þess að koma fram minni aðaltill. En með því að samþ. mína seinni brtt. er hægt að gera verulega mikið í þessu máli.