29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég er ánægður yfir því, að hv. 10. landsk. skuli nú hafa séð, að það er ákaflega ólíklegt, að prestarnir fari í mál. Hann er sjálfur prestur og hefir þess vegna getað miðað við sig. Hitt er annað mál, hvort prestar berjast fyrir annara hag.

Mér er ánægja að því, að ég hefi haft þau áhrif, að hann er kominn á mína skoðun. Ég leiddi rök að því, að vegna þeirrar kennslu, sem ungu prestarnir hafa notið, mætti búast við víðsýni og óeigingirni af þeim í þessum efnum.

Aftur á móti er það rangt reiknað hjá hv. 10. landsk., að það sé meiri sparnaður að hans till. en minni. Eftir hans till. sparast minni upphæð, ef miðað er við sama tíma, og það er því rétt hjá mér, að með henni þurfi lengri tíma til að fá þolanlegan árangur, og þess vegna verður því ekki fulllokið á einu ári. (MJ: Hve mikið á að byggja af safnþróm?). Ég skoða mig frekar sem stuðningsmann heldur en sem forgöngumann þessa máls og vísa til hv. 10. landsk. með nánari upplýsingar um þetta.

Hitt atriðið, að kennslan í prestaskólanum hafi verið mjög mórölsk, álít ég sannað með þessum framslætti. (MJ: Og safngryfjurnar heyra þar undir).

Hv. 10. landsk. heldur því fram, að mínar tillögur séu óþarfar, ef launamálafrumvörpin nái fram að ganga. Mér finnst ekki svo miklar horfur á því, að það mál sigli hraðbyri gegnum þingið, þar sem það er ekki ennþá komið í nefnd, að ástæða sé að hafna till. mínum vegna þess.

Mér þykir leitt, að hv. 10. landsk. hefir ekki séð sér fært að spara á sinni eigin stétt í þágu landbúnaðarins. Ég mun með gleði greiða atkv. með till. hans um að spara á minni eigin stétt, ef svo mætti segja, með lækkun þingfararkaupsins í þessu skyni. Ég hefði helzt kosið að spara á hv. 10. landsk. bæði sem þingmanni og presti til hjálpar ræktuninni í landinu.