29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Aðeins nokkur orð til að bera af mér sakir. Ræða hv. 5. landsk. var nokkuð óljós í þetta sinn. Hún sagði, að ég hefði hlotið að umgangast vont fólk, en lýsti þó yfir því, að hún ætlaði að greiða sömu brtt. atkv. og ég, brtt. frá hv. 10. landsk., sem gengur í rétta átt. Hún sagði, að það væri hnefahögg og háðung að vilja hjálpa bændum, en er þó eftir allt saman með aðalefni málsins. En aðalvillan hjá henni lá þó í því, að halda, að skrifstofufé presta væri nauðsynlegt fyrir kristindóminn í landinu. Sú launauppbót hefir aðeins staðið nokkur ár, og orkar víst tvímælis, hvort kristindóminum hefir farið fram síðan.

Ég veit, að hv. þm. er prestsígildi um allan lærdóm, og þá einkum guðfræði. En ef hún skyldi vera farin eitthvað að ryðga í Nýjatestamentinu, mætti rifja það upp fyrir henni, að höfundur trúar vorrar lagði einmitt alveg sérstaka áherzlu á það, að enginn safnaði auðæfum. Hún mætti gjarnan hafa í huga söguna um ríka unglinginn, einkum, ef einhver ríkur unglingur kynni að vera í íhaldsflokknum. Ef hv. þm. athugar anda guðspjallanna, þá mun hún sjá, að till. mín er miklu nær tilgangi kristindómsins en ræða hennar.

Ég fylgdi báðum till., um lækkun þingfararkaups og skrifstofufjár presta, til að hjálpa bændum. Hv. þm. vill aðeins lækka við þingmennina, en í þeirri skoðun kemur fram, eins og ég hefi bent á, fullkominn misskilningur á anda guðspjallanna og niðurstöðum kristindómsins, sem bannar öllum að safna auðæfum.

Af því að ég veit, að hv. þm. er lærð og skáldhneigð kona, vil ég að endingu lofa henni að heyra ofurlitla vísu, sem lærður maður kvað um vissa tegund fólks, þegar hann var hér á ferð fyrir skömmu. Versið er svona:

Ef allt þetta fólk fengi í glitsölum himnanna gist,

sem gerir sér mat úr að nudda sér utan í Krist,

þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort mikils sé misst,

þótt maður að síðustu lenti í annari vist.