12.11.1935
Efri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Brtt. þær, sem ég flyt við þetta frv. ásamt hv. 4. þm. Reykv., eru á þskj. 506. Þær eru flestar að tilhlutun hæstv. stj. og samdar í samráði við hana.

Helzta breyt., eins og sjá má á aðaltill., er fólgin í því, að niður er fellt að mestu leyti gjald af saltfiski til markaðs- og verðjöfnunarsjóðs. Þetta er aðalbreytingin. Hinar breyt. eru smærri, og fjalla þær aðallega um það, hvernig fiskimálasjóður skuli stofnaður og á hvern hátt stj. er heimilt að verja fé úr sjóðnum. Stj. er heimilað að ákveða, að af útfluttum fiski og fiskafurðum skuli greiða gjald í sjóðinn, er nemi 1/2 — 3/4 af hundraði af verðmæti þeirra, miðað við fob-verð, annara en síldarafurða.

Ég geri ráð fyrir, að um aðalbrtt. verði ekki mikill ágreiningur. Menn munu vera sammála um að fella niður að miklu leyti gjald af útfluttum fiski til markaðsleitar, og sumir vilja kannske afnema það með öllu. En við, sem flytjum þessar brtl., teljum ekki með öllu óeðlilegt, að sjávarútvegurinn standi að nokkru leyti undir þeim tilraunum, sem gerðar eru til þess að auka og efla markaðsskilyrðin fyrir sjávarafurðir, sérstaklega þeirra, sem verkaðar eru með nýjum aðferðum. Ég get því aðeins búizt við ágreiningi um þetta atriði, að einhverjir vilji ganga svo langt, að létta þessu gjaldi með öllu af fiskinum. Í Nd. hefir verið flutt frv. þess efnis; en við flm. þessara brtt. og ríkisstj. teljum það ekki réttmætt og því síður fært fjárhagslega séð.

Þess ber að gæta, að það stendur nokkuð misjafnlega á um sölumöguleika á ýmsum tegundum sjávarafurða. Eins og nú standa sakir má heita, að hægt sé hindrunarlítið að selja nokkurn hluta þeirra. Og þá virðist það ekki nema réttlátt, að af verði þeirra sjávarafurða, sem hafa sæmilegan markað, sé einhverju varið til þess að greiða fyrir og auka markaðinn fyrir þann hluta sjávarafurðanna, sem tregast gengur að selja.

Þá skal ég víkja að hinu aðalatriðinu í þessum brtt., þar sem ákveðið er að fella þetta frv., ef að lögum verður, inn í meginmál laga um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl., og gefa út sem ný lög. Ég held, að það verði enginn ágreiningur um það á milli þeirra, sem ekki vilja fella niður starf fiskimálanefndar, að færa þessar breyt. inn í þau lög, sem fjalla um nefndina og starfssvið hennar. En við hinu má búast, að þeir, sem vilja fella niður fiskimálanefnd og kunna að telja þetta frv. óþarft, sjái ekki ástæðu til að færa þessar breyt. inn í eldri lögin. En þar greinir okkur, sem að frv. stöndum, svo mikið á við þá, að ekki er hægt að búast við neinu samkomulagi.

Hitt getur aftur á móti hugsazt, að ef ágreiningur verður um, hversu hátt gjald skuli greitt af sjávarafurðum í fiskimálasjóð, þá séu möguleikar fyrir einhverju samkomulagi um það, og gæti vel komið til tals að færa eitthvað saman mismunandi skoðanir um upphæð gjaldsins. Þar er ekki um stefnumun að ræða. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að yrða um þessar brtt. í byrjun umr. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. skýri nánar frá efni þeirra, þegar ég hefi lokið mínu máli, enda var samkomulag um það okkar á milli, að ég færi ekki ýtarlega út í fjáröflunartill. frv., hann er kunnugri þeirri hlið málsins og getur skýrt þar betur. Enda álít ég, að rétt sé að gera það í byrjun þessarar umr., því það er ekki örgrannt um, að heyrzt hafi raddir í þá átt, að með þeim brtt. væri ekkert meint annað en að varpa fram gyllingum og loforðum, sem aldrei yrðu efnd. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. geti fært fullar líkur og jafnvel sannanir fyrir því, að með þessum fjáröflunarleiðum, sem nefndar eru í frv., megi á næsta ári tryggja fiskimálasjóði allmikið fé til markaðsleitar og til annarar starfsemi fyrir sjávarútveginn.

Ég læt við þetta sitja að svo stöddu og vænti, að hæstv. atvmrh. skýri nánar frá þeim atriðum, sem ég þegar hefi nefnt.