14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég frétti það, að hv. þm. N.-Ísf. hefði farið nokkrum orðum um blaðagreinar, sem ég hefi fyrir nokkru skrifað um fisksöluna í eitt dagblaðið. Þegar ég kom hér að, var ræða hans að fjara út. Mér skildist, að kjarninn í ræðu hans væri sá, að hann hefði sagt, að allir flokkar hefðu staðið að fiskakattinum, og í öðru lagi, að ég hefði sagt eitthvað í mínum blaðagreinum, sem ekki hefði mátt segja.

Ég vil fyrst vekja athygli hans á því, sem sagt er um stofnun skattsins í einu dagblaðinu í dag og byggt er á því, sem liggur fyrir staðfest í skýrslum fisksölusambandsins. Undir skýrsluna hafa ritað nöfn sín Richard Thors, Ólafur Proppé, Kristján Einarsson, Magnús Sigurðsson og Helgi Guðmundsson.

Í þessari skýrslu er vikið að stofnun þessa gjalds. Segir þar m. a.:

„Vegna viðskiptaráðstafana þeirra, sem nú höfðu verið gerðar á Spáni, varð auðvitað að grípa til samsvarandi ráðstafana hér heima fyrir, sem fram að þessu höfðu verið ónauðsynlegar. Þegar vitað var um innflutningsskerðinguna til Spánar. voru gefin út bráðabirgðalög þ. 26. maí um heimild fyrir ríkisstj. til íhlutunar um sölu og útflutning á saltfiski.

Samtímis ákvað ríkisstj., að fiskútflytjendur greiddu ákveðið gjald í sjóð, sem varið skal „eftir því sem með þarf, til þess að efla, tryggja og auka fiskmarkað, og til annara nauðsynja í þágu saltfiskverzlunar landsmanna á þann hitt, er ríkisstj. ákveður“.

Þá kemur frásögn um, hversu hátt gjaldið var ákveðið. Segir síðan:

„Þótt viðaukabráðabirgðalögin, sem snerta sjóð þennan (verðjöfnunarsjóðinn), væru ekki gefin út fyrr en 20. ágúst, þá var þegar frá upphafi, samkv. ákvörðunum ríkisstj. haldið eftir hinu tilskilda útflutningsgjaldi“.

Þá segir í skýrslunni, að meðal fiskeigenda hafi brátt risið óánægja út af þessu gjaldi. Í ágústmánuði hefði fisksölusamlaginu borizt allmörg bréf, og hefði stj. svarað þeim bréflega. Í bréfinu hefði stj. tekið fram m. a.:

„Eftir að lög þessi voru út gefin, lét ríkisstj. þegar í ljós við Sölusamlandið og vafalaust einnig aðra útflytjendur, að óhjákvæmilegt myndi, vegna aðstöðu vorrar í markaðslöndunum, að stofna verðjöfnunarsjóð af andvirði útfluttrar fiskframleiðslu yfirstandandi árs. Gerði stj. ráð fyrir að setja bráðabirgðalög um þetta efni hið fyrsta.

Eftir rækilegar yfirveganir þessa máls var hnigið að því ráði að skuldbinda Sölusambandið gagnvart ríkisstj. til þess að halda eftir hinu tilskilda gjaldi, var þá gert ráð fyrir, að bráðabirgðalögin um útflutningsgjaldið yrðu þegar sett, en þetta dróst, svo sem kunnugt er, þangað til 20. ágúst. Verður eigi hér um það rætt, hvað valdið hafi drætti þessum, en vafalaust lafa stjórnarskiptin átt þátt í þessu“.

Nú vil ég beina þeirri eðlilegu fyrirspurn til hv. þm. N.-Ísf., hvað það er um fisksölumálin, sem ég hefi skrifað og ekki mátti segja. Ég býst við, að hv. þm. sé það ekki ljóst, að það, sem ég undirstrika í greinum mínum, er hvernig skatturinn var lagður á. Þeir segja, að bráðab.lögin frá 26. maí hafi ekki verið eins og þau hefðu þurft að vera, og þeir lýsa óánægju sinni yfir því, hve langur tími leið frá 26. maí og þangað til brbl. um útflutningsgjaldið voru sett 211. ágúst. Á þessu sést, að um þetta er ekki of mikið sagt hjá mér.

Blað þessa hv. þm., Morgunblaðið, sem hann leggur mest upp úr, segir á þessa leið síðastl. laugardag:

„Eins og kunnugt er, bar núv. ríkisstj. fram frv. um að leggja 6% gjaldið á sjávarafurðir, og var frumvarpið samþ. á haustþinginu 1934.“

Veit hv. þm. ekki, að það, sem hans blað segir um þessa hluti, eru tilhæfulaus ósannindi? Það er búið að ráða þessu máli til lykta 26. maí 1934, og það er þá búið að gera þær ákvarðanir, sem leiddu af sér bráðabirgðalögin. Það er auðseð á þeim skrifum, sem ég nefndi, að í þeim er þeirri stj., sem Ásg. Ásgeirsson veitti forstöðu, ámæli fyrir að hafa ekki gefið út þessi l., því að það getur sannarlega ekki verið hinni ófæddu stj. að kenna, að þessi l. koma ekki fyrr, þar sem þeir, sem í henni áttu sæti, vissu ekkert um þetta, og sumir áttu ekki einusinni sæti á Alþ., þegar um þetta var að ræða. Þeir vissu ekkert um þessi mál fyrr en eftir að þeir voru komnir í stj. Það er ekki mér vitanlegt, að við framsóknarmenn, og ég held alþýðuflokksmenn, vissu nokkuð um þetta fyrr en eftir stjórnarskiptin. Það var allt undirbúið og átti að fara að leggja á skattinn. Hv. þm. veit, að margir af hans félögum voru sannarlega meira að hugsa um að neita að borga skattinn fram að 20. ágúst, eða þangað til getin voru út önnur bráðabirgðalög, sem gengju út á það að gera mögulegt fyrir ríkisstj. að selja innflutningsleyfi og láta andvirði þeirra renna í verðjöfnunarsjóð. Ennfremur vil ég benda hv. þm. á það, að þetta mál — fiskiskatturinn — er til orðið fyrir 26. maí, en fær ekki lögfestingu fyrr en 20. ágúst, eftir að aðrir menn eru komnir í stj., sem verða að standa við skuldbindingar fyrrv. stj. í þessu máli. Ef þetta hefði verið mikilsvert utanríkismál, eins og hv. þm., form. Sjálfstfl. og Morgunblaðið vill vera láta, hvaða vit var þá í því af þeim mönnum, sem stóðu að þessu — en það voru fyrst og fremst nánustu flokksmenn hv. þm. N.-Ísf., að leyna þessu máli fyrir utanríkismála.? Dettur hv. þm. í hug, að það sé utanríkismál, sem utanríkismálan. er ekki látin sjá? Ég sé ekki nokkra ástæðu til fyrir hv. þm. N.-Ísf. að vera með nokkra drýldni í þessu máli. Ég hefi svo sem ekki haft neina yfirdrifna hugmynd um gáfur þessa hv. þm., en ég hélt satt að segja, að hann myndi nú hafa vit á að þegja, því að hann má hvort eð er vita, að því meira sem hann og hans samherjar tala um þetta mál, því verr fara þeir út úr því, sem að því standa.