14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það eru nú orðnir fáir í d., en ég ætla samt að segja nokkur orð. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri hörmulegt, að sjálfstæðismenn hefðu slitið samvinnu við stjórnarflokkana í utanríkismálan. Það er satt, ég tek undir það, að það er illt, að slíkt skyldi þurfa að koma fyrir. Okkur var það ekki ljúft; og það má sjá af því að eins og flokkadrátturinn hefir verið harður hér á landi upp á síðkastið, þá hefir samt samstarf þeirra í utanríkismálan. verið þannig, að ég hygg, að það hafi naumast nokkurntíma verið hægt að sjá mismun á flokkunum í því starfi. Ég hygg, að sjálfstæðismenn hafi aldrei notað sér þá stóru höggstaði, sem æfinlega hljóta að vera á hverri stj. í sambandi við ráðstafanir í utanríkisálum. Það er óhugsandi, að nokkur stj. fari svo vel með utanríkismálin, að ekki sé hægt að ná höggstöðum, sem eru meira eða minna hættulegir í málum, sem ekki er heppilegt, að skýra opinberlega. En samvinnan byggist á því, að stjórnarandstæðingar noti sér ekki þessi tækifæri. En mér þykir dálítið einkennilegt, að hæstv. ráðh. var ekkert að láta í ljós, að það væri neitt hörmulegt, sem hefði orsakað þessi samvinnuslit. Mér finnst, að það hefði legið miklu nær, að ráðh. hefði sagt, að það væri hörmulegt, að einn af fremstu stuðningsmönnum stj. og formaður stærra flokksins, sem stendur að stj., skyldi verða þess valdandi með því að skrifa svo ódrengilega, að einmitt andstaðingarnir skyldu neyðast til þess, þrátt fyrir skoðanir sínar á þessum málum, að slíta þessari samvinnu. Mér virðist það hefði legið nær, að hæstv. ráðh. hefði sett ofan í við þennan hv. þm., og það hefði haft meiri áhrif. Það er vitað, að ríkisstj. sendi menn af landi burt, og það eru þessir menn, sem hv. þm. er alltaf að reka hornin í með þeim einkennilega hætti, sem allir þekkja hjá þessum hv. þm. Það hefir verið rætt um þessi mál í sambandi við fiskveiðar og fisksölu, en það er vitað, að nauðsynlegt er, að um þessi mál ríki friður og að einn flokkur reyni ekki að nýta sér þau til framdráttar. En þessu hefir nú ekki verið þannig varið að undanförnu, því að þessi hv. þm. hefir með öllu upphugsanlegu móti reynt að sýna fram á, að það séu bara andstæðingar núv. stj., sem hafi átt sök á þeim óvinsældum, sem hafa átt sér stað í sambandi við þetta mál. Ég þarf ekki að lýsa þessu neitt, því að þessi hv., þm. var svo velviljugur að standa upp og halda, ekki langa ræðu, en sem þó hlaut að gefa skýringu á því, hvað það var, sem neyddi sjálfstæðismenn til að hætta samstarfinu. Hv. þm. beindi því til annars þm. hér, að hann skyldi bara þegja, því að því meir sem hann talaði um þetta mál, því verri útreið skyldi hann fá í því. Þetta er einhver sú andstyggilegasta aðferð, sem ég get hugsað mér, að vera að tolsi í menn, sem koma nálægt manni og ekki er hægt að sanna, að hafi gert eitthvað eða ætlað sér að gera eitthvað, og vera að dylgja um það viku eftir viku, að þeir ætli auðvitað að nota sína aðstöðu til einhvers ódæðis. Ég harma mjög, að hv. þm. skuli ekki hafa getað orðið við kröfu okkar um að gera algerlega hreint fyrir sínum dyrum, eða a. m. k. að lofa að gera það, sem hann getur, og beita sínum áhrifum til þess, að annað eins og þetta skuli ekki endurtaka sig. Annars er ómögulegt að svara hv. þm. S.-Þ. Það er hvergi hægt að festa hendur á neinn í ræðu hans. Hann virðist móðgaður af því að þeir, sem voru sendir út af utanríkismálan., skyldu ekki alltaf vera að síma til n. um hvert smáatriði. En sannleikurinn í þessu máli er sá, að það er ekki heppilegt fyrir sendimenn úti um lönd að senda of mikið af bréfum og skeytum frá sér, því að það er ekki örgrannt um, að komið hafi fyrir, að skeyti hafi ekki komið fram, og það er víst, að megnið af þeim er lesið og athugað. Og ef það eru mál, sem ríkisstj. ætla að hafa sín á milli, þá er eins gott að geyma að minnast á það þangað til þeir geta talað sjálfir um það við stj. sína. Ég hygg, að utanríkismálan. hafi ekki verið leynd neinu í máli því, sem hér um ræðir. Ég veit ekki, hvað þeir, sem utan við standa, mega halda; þó að hér sé um utanríkismál að ræða, sem talið er heppilegt, að ekki komi opinberlega fram. Hv. þm. segir, að það hafi verið búið að gera samningana áður en nokkur vissi af, og að allir í n. hafi verið bundnir við það, sem sendimennirnir höfðu aðhafzt í þessu máli áður en þeir vissu nokkuð. hvernig í málinu lægi. En nú vil ég spyrja þennan hv. þm. að einu. Af hverju endurnýjaði núv. ríkisstj. þessa samninga eftir að hægt var að segja þeim upp?

Það hefir verið þyrlað upp miklu af rógburði um þetta mál, en ég er viss um, að hver einasti heilbrigt hugsandi maður lætur það engin áhrif hafa á sig, — svo veikur er málstaðurinn.

Ég vildi taka undir orð hæstv. atvmrh., þar sem hann sagði, að það væri illt, að við sjálfstæðismenn hefðum slitið samvinnunni um utanríkismálin. En hann hefði heldur átt að segja, að sér þætti illt að við skyldum neyðast til að slíta þessari samvinnu, og ég vil beina þeirri ósk til hæstv. atvmrh., að hann taki þetta mál allt upp að nýju og verði við óskum og kröfum okkar sjálfstæðismanna og geri á þann hátt hreint fyrir sínum dyrum, og er það þó ekki vegna þess, að ég óski persónulega eftir því að taka upp starf með hv. þm. S.-Þ.

Hæstv. atvmrh. fór að tala um það fé, sem tekið hefði verið frá sjávarútveginum og lagt í búið á Korpúlfsstöðum, eins og öll útgerð á Íslandi væri mergsogin vegna þess, að einn maður, sem hefir áhuga fyrir landbúnaði, selur hlut sinn í útgerðarfélagi og setur upp myndarlegt bú. Auðvitað er þetta ekki til að auka starfsfé útgerðarinnar, en ætli fé hafi ekki nokkuð oft færzt á milli atvinnufyrirtækja og fé frá ýmsum fyrirtækjum farið til útgerðar, t. d. að menn, sem hafa verið búnir að græða á landbúnaði, hafi lagt fé sitt í útgerð? Hvor atvinnuvegurinn hefir grætt á þessu, skal ég ekki dæma um. Fé færist á milli á þennan hátt, hvort sem það þykir æskilegt eða ekki. Við slíkt er ekki hægt að ráða. En að þetta hafi haft afgerandi áhrif á útgerðina, er fjarri öllum sanni; og sennilega er það vegna fátæktar á dæmum, að alltaf er klifað á þessu eina dæmi.

Ég veit ekki, hvort ég á að verja fáeinum orðum til að tala um endurreisn fisksölusambandsins. Hæstv. atvmrh. beið nú ósigur í því máli, en hann tekur því með karlmennsku og ber sig vel, eins og rétt er. En að segja, að það, sem gert hafi verið með bráðabirgðal., sé ekki annað en áframhald af því, sem ríkisstj. hafi ætlað sér að gera á síðasta Alþ., er meira en maður með greind hæstv. atvmrh. á að láta sér um munn fara. Það er athugandi, að eftir þeirri stefnu, sem þá var tekin, átti að löggilda svo eða svo marga menn til þess að flytja út fisk, allt átti að fara í svokallað grúppusystem. Það er að segja, útflytjendur áttu að vera margir, en ef þetta gengi í ólagi, þá átti fisksölunefnd að taka allt í sínar hendur. Þetta var stefna stj., en svo lenti í því, að stj. sá rætast þá spádóma, sem búið var að bera fram, en hún hafði ekki viljað trúa, og hæstv. atvmrh. var þá sá drengur, þegar hann sá, að voðinn var yfirvofandi, ef fisksölusambandið yrði drepið, að hann gaf þá út bráðabirgðalög til þess að það héldi áfram störfum sínum. Auðvitað ekki alveg í gamla forminu. Það er alltaf svo, að einhverju þarf að breyta, svo að það geti litið aðeins öðruvísi út, og það getur verið, að þetta sé eitthvað frábreytt um atkvæðisrétt og einhver smáatriði, en grundvallarhugsunin er sú sama og var hjá okkur Sjálfstæðismönnum á þinginu í fyrra, en þá náðist ekki samkomulag um.

Þá vék hæstv. ráðh. að 6% gjaldinu, sem nú á að fella niður, og sagði það ódrengilegt eða miður vel sæmandi að bera fram frv. í Nd. um að breyta þessu gjaldi eða fella það niður. Hann sagði, að það hefði verið samkomulag allra flokka um aðalatriði þess máls. Það er satt, það hafði verið samvinna um þessi mál og það hafði komið til tals að breyta þessu. Það var talað um, að ekki væri eðlilegt að láta sjávarútveginn einan standa undir öllu þjóðarbúinu; líka hafði það komið til tals, hvort þetta gjald væri ekki óþarflega hátt. En þetta átti að gilda til bráðabirgða. En allt þetta skraf gat ekki haft þau áhrif, að ef einhver maður sæi aðrar leiðir, þá mætti hann ekki af þessum sökum koma fram með það. Ég hygg ekki heldur, að þetta frv. hafi verið borið fram með neinu bráðlæti. Það var bæði borið undir stjórn Sambands íslenzkra fiskframleiðenda og sjútvn., og mig minnir, að komin væri yfirlýsing um það frá hæstv. atvmrh., úr ráðherrastóli, áður en þetta frv. kom til meðferðar í d., að hann og hans flokkur ætluðu að fella gjald þetta niður, og það er þá fyrst eftir að hæstv. ráðh. sjálfur hefir rofið samkomulagið, með því að segja, að hann og stjórnarflokkarnir ætli að afnema þetta gjald, og er síðan búinn að láta útvarpið birta þessi ummæli sín, það er fyrst eftir allt þetta, að hann og flokksmenn hans koma hér eins og heilagir englar, hrópa hátt og segja, að það hafi ekki mátt hrófla við þessu gjaldi nema með samvinnu allra flokka.

Ég hygg, að hv. flm. frv. hafi þótzt vera búinn að reyna til þrautar, hvort hinir flokkarnir vildu vera með í flutningi frv., og því ekki um annað verið að gera fyrir hann en bera það fram sjálfur á þann hátt, sem hann gerði. Hæstv. atvmrh. hefir höggið nærri sér með umtali sinn um flutning þessa frv., eftir þá yfirlýsingu, sem hann gaf úr ráðherrastóli og síðar í gegnum útvarpið, að bann hefði ásamt stjórnarflokkunum ákveðið að fella þetta umrædda gjald niður.

Um lántökuheimildina er það að segja, að stj. hefir heimild fyrir millj. kr. lántöku og nýja heimild fyrir annari millj., og et þetta á ekki svo að vera, þá verður að breyta því.

Þá minntist hæstv. atvmrh. á fisksölusambandið og fiskimálanefndina og á það, hvort mögulegt myndi vera að fela fisksölusambandinu störf fiskimálanefndar. Hann sagði, að það væri satt, að laun þeirra væru gróflega há, þeir hefðu allir í til samans eins mikið og einn framkvæmdarstjóri, og ef borin eru saman þau laun, sem form. fiskimálanefndar hefir fyrir þetta aukastarf sitt, og laun annara opinberra starfsmanna, þá sýnir það sig, að launin fyrir þessi aukastörf eru langt fyrir ofan meðallaun embættismanna. ég held, að prófessorar við háskólann fari ekki upp fyrir hann í launum fyrr en eftir síðustu launahækkun.

Þetta er óskaplegt, að þegar búið er að bæta 7 mönnum í yfirstjórn fisksölunnar, þá skuli þessari dýru nefnd vera bætt þar ofan á. Það getur vel verið, ef nógir peningar væru fyrir hendi, að þá væri ekkert á móti því að gera þetta. Það gæti a. m. k. komið sér vel fyrir þá, sem starfið fá. En þegar við erum í fjárþröng og þegar fjvn. situr vikum og mánuðum saman yfir því að klípa og skafa 1 —2 hundruð krónur af tekjum þeirra manna, sem hafa sultarlaun, þá eru það merkileg flottheit að skjóta inn slíkum eyðsluliðum.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri engin trygging til fyrir því, að sölusambandið héldi áfram störfum, og spurði, hvar við værum þá staddir, ef svo færi, að það hætti og fiskimálan. hefði verið lögð niður. Þetta er vitanlega hugsanlegt, en þá má líka skipa nefnd, ef svo skyldi fara. En ég tel nú mjög ólíklegt, að fisksölusambandið verði bráðkvatt. Það hefir sýnt sig, að það lifði af þau lög, sem sett voru því til höfuðs á síðasta Alþ., og það eru engin dauðamerki á því ennþá, svo það eru mjög góðar vonir um, að það muni lifa, en ef útlit er á, að það leggist niður, þá er innan handar að skipa nefnd.

Þá minntist hæstv. atvmrh. á önnur störf fiskimálanefndar og ætlaði að ekki væri hægt að koma þeim að í fisksölusambandinu og nefndi í því sambandi t. d. harðfisk. En það er nú ekki allt líf liðið, og ég ætla, að ekki sé vitað fyrirfram, að hverju harðfiskverzlunin verður. Ég hefi hér með höndum nál., sem er undirritað af hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv., og ég sé ekki betur en hér sé mikill fróðleikur um þessi mál. Þetta eru tveir af þeim mönnum, sem talið er, að ekki geti haft með málið að gera, og sennilega myndi Héðinn Valdimarsson ekki heldur missa alla þá þekkingu, sem hann hefir á þessum málum, þótt hann hætti að vera formaður fiskimálanefndar.

Ég held það hafi svo ekki verið fleira í ræðu hæstv. atvmrh., sem ég hefi ástæðu til að svara, og í ræðum annara hv. þdm. kom ekki neitt það fram, sem ég hefi ástæðu til að víkja að, nema það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um að eðlilegt væri að offra fé til þess að ná í nýja markaði. Í frv. sjálfstæðismanna er séð um það, að stj. bresti ekki fé til þess. Þar er ætlazt til, að tekjurnar séu kallaðar inn af almannafé. Á markaðsmöguleikunum veltur afkoma allra landsins barna, og er því sjálfsagt, að þetta fé sé tekið af almenningsfé. Það er full þörf til þess að tryggja sölu á framleiðsluvörum vorum, og þegar 6% gjaldið er fellt niður, verður ríkisstj. að hafa aðgang að ákveðnum tekjum í þess stað, og er eðlilegt, að þær tekjur séu ekki skornar við nögl. En hæstv. ríkisstj. þykist ekki þurfa á þessu að halda. Þó sjálfstæðismenn geri till. um að fella niður 6% gjaldið, er það ekki af því, að þeir hafi ekki auga fyrir því, að það þurfi að offra fé, ef það er ekki gert á þann hátt, að líklegt sé, að hvorki verði úr því fugl né fiskur og að það verði aðeins til að auka gjöld á fiskframleiðendum, heldur þannig, að það verði gagnlegt þeim tilgangi, sem það er helgað.