14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Jón Auðunn Jónsson [óyfir.]:

Ég ætla ekki að svara hv. þm. S.-Þ. öðru en því, að við sjálfstæðismenn metum meira það þagnarheit, sem við höfum gefið um að segja ekki frá því, sem gerzt hefir í utanríkismálan., heldur en að reka ofan í hann það, sem hann segir ósatt, þegar hann er að steyta túlann hér í þessari hv. d. væri ekki svo, þá mundi hann fara heldur flatt í þessum ljóta leik sínum.

Hv. 4. þm. Reykv. vildi ég svara nokkrum orðum. Hann talaði mikið um kaupgjald hjá útgerðinni. Ég kom ekki inn á það, hvort það væri of hátt. En ég sagði, að blekkingarskrif jafnaðarmanna, og ekki sízt hans sjálfs, hefðu orðið til þess að afvegaleiða menn, að margir hefðu vegna þeirra skrifa haldið hag útgerðarinnar betri en hann var í raun og veru. Þau skrif voru byggð á alröngum forsendum, bæði um útgerðarkostnað og annað.

Þá sagði þessi hv. þm., að það væri vaninn, þegar tap hefði orðið á útgerðinni, þá hefðu útgerðarmenn komizt heilskinnaðir frá því, en bankarnir og þjóðin hefði tapað fénu. Mér þykir leiðinlegt, afi hv. þm. skuli endurtaka hér þessi rangmæli, sem hans flokkur hefir á undanförnum árum í blöðum sínum haldið að þjóðinni, þegar vist er, að hundruð manna hafa lagt fé sitt í útgerð og tapað því. En samtímis því hafa samherjar þessa hv. þm. dregið það fé, sem þeir höfðu lagt í útgerð, frá útgerðinni í sviksamlegum tilgangi og þar með reynt að fella sína eigin útgerð. Ég skal færa hv. 4. þm. Reykv. sannanir fyrir þessu, hvenær sem hann vill.

Það er hart fyrir menn eins og mig, sem lagt hafa tugi og jafnvel hundruð þús. króna í útgerð og tapað því, að vera bornir brigzlyrðum um það, að bankarnir hafi tapað vegna þeirrar útgerðar, vitandi., að við næsta borð sitja þeir menn, sem dregið hafa fé sitt úr útgerðinni. jafnaðarmenn. Þeim hefði vitanlega verið nær, hefðu þeir borið hag útgerðarinnar fyrir brjósti, að leggja henni fram fjárhagslegan stuðning frá sér, til þess að halda henni uppi, því að margir þeirra eru hátt launaðir menn.