15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég sá í gær fyrstu merki þess, sem ég þó vissi áður, að hv. þm. N.-Ísf. muni vera eitthvað skyldur hæstv. forseta Sþ. Ég sá þá þau greindarmerki, sem ég tæplega hafði búizt við, en sem þó mátti gera ráð fyrir, að lægju leynd í einhverjum afkima vegna þessa merkilega ætternis. Enda fór svo, að hann lét þessa betri parta sína ráða og gafst upp og þagði eftir að hafa hafið árás á mig, vitandi það, að hyggilegast var að fara að mínum ráðum.

Það er ekki hægt að segja, að sömu hyggindamerkin hafi komið fram hjá hv. 1. þm. Reykv. Hann hefir haldið nokkrar ræður, þar sem hann hefir farið ýmsum orðum um þann fróðleik, sem ég hefi gefið almenningi um fisksöluna. Ég verð að segja það, sem kannske hryggir hv. 1. þm. Reykv., að það hefir verið með þessar greinar mínar eins og Guðmundur Friðjónsson sagði um Svanhvít, að það ætti enginn Svanhvít, því að henni væri alstaðar stolið. Eins er með þessar greinar mínar, að þær hafa beinlínis verið gleyptar, og ekki sízt í kjördæmi form. Sjálfstfl. Ég býst við, að óhætt sé að segja, að ekkert lesmál hafi komið í Gullbringusýslu í mörg ár, að frádregnu því, sem lesið er af stólnum, sem fólk hefir haft meiri áhuga fyrir en einmitt þessar greinar mínar. Ég er að hugsa um það, þegar ég lýt yfir þetta, hvað það er, sem hefir getað sett hv. þm. þess kjördæmis í svona vont skap. Hvað er það, sem getur glatt kjósendur þm. að vita um, en hryggt þm. sjálfan? Ég ætla að ganga í gegnum nokkra af þessum liðum til þess að vita, hvort hv. 1. þm. Reykv. getur gefið nokkra skýringu á þessu.

Ég ætla þá fyrst að taka fisksöluna til Þýzkalands. Union hefir undir forustu Richards Thors borgað Gismondi 330 þús. kr. til þess að kaupa ekki fisk frá Íslandi. Nú er hann farinn að verzla eingöngu við aðra og kenna þeim að framleiða fisk, sem hæfir Ítalíumarkaðinum. Ég vil spyrja hv. þm. að því, hvað geti eiginlega verið því til fyrirstöðu, að þetta mál sé athugað. Hvað getur hindrað Richard Thors frá því leggja plöggin hreinskilnislega á borðið og segja: Þessi rök lágu til þess, að ég borgaði Gismondi 330 þús. kr. Þessi rök liggja til þess, að hann fékk engan fisk árið eftir, og svo ætti hann að færa einhverjar líkur fyrir því, hvers vegna Gismondi er orðinn svarinn fjandmaður Íslands, í staðinn fyrir að vera áður fiskkaupmaður. Hv. 1. þm. Reykv. hlýtur að skilja, að ef formaður getur ekki gefið neina skiljanlega ástæðu fyrir þessu, þá er það ekki sök þeirra, sem áfellast þetta, heldur er það hans sök að hafa gert stórkostlegar ráðstafanir á fé, sem hann átti ekki. Ég get vel skilið, og vil segja hv. 1. þm. Reykv. það, að þögn Ólafs Thors og Richards Thors sé skynsamleg, enda er engar varnir hagt að færa fram fyrir þessu hneyksli, sem þeir skammast sín fyrir að hafa gert, og svo látast þeir vera „fornermaðir“ og halda að með því geti þeim haldizt uppi að þegja um sín axarsköft. Þetta er fyrsti liðurinn í mínu máli.

Ég skal svo taka annan lið með hv. þm., sem hann nánar getur athugað. Þeir segja, að ég hafi talað um utanríkismál, sem ekki mátti tala um, en það er sannleikurinn, að vegna samninganna við Spán þurfti að leggja verðjöfnunargjaldið á, og það stendur undirskrifað af Richards Thors 26. maí, að Ásgeir Ásgeirsson hafi þurft að leggja á þetta gjald vegna Spánarsamninganna. Hv. 1. þm. Reykv. hlýtur að vita, að hver einasti maður vissi um þennan skatt, og þar af leiðandi var það ekkert leyndarmál. En svo kom sterk óánægja yfir því, að Ásgeir Ásgeirsson eða hv. 1. þm. Skagf. hafi ekki gefið út bráðabirgðalögin fyrr. Þeir segja, að það sé stjórnarskiptunum að kenna. En það sjá allir, að ekki getur það verið nýju stj. að kenna, sem ekki tók við fyrr en í júlí. Nú hefir hv. 1. þm. Reykv. sjálfsagt veitt því eftirtekt, að Morgunblaðið er að dylgja með, að núv. stjórnarfl. hafi sett þennan skatt á, en ég vil benda á, að þennan skatt var búið að leggja á löngu fyrir kosningar og honum var leynt fyrir öllum stjórnarandstæðingum.

Þá vil ég benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að eftir öllum rökum hefði hv. 1. þm. Skagf. átt að gefa út þessi bráðabirgðal., en ekki Ásgeir Ásgeirsson. (MG: Hvaða bráðabirgðalög?). Um fiskskattinn. Þegar nýja stj. er búin að taka við, kemur í ljós, að þetta er hreint atvinnumál, og atvmrh. á að undirskrifa bráðabirgðalögin, en ekki fjmrh. Ég gæti bezt trúað, af því að málið er þannig rekið, að hv. 1. þm. Skagf. hafi alls ekki vitað um hið sanna eðli þess 26. maí, þegar hin lögin eru gefin út. Þess vegna er ekki hægt að áfellast hann, ef honum hefir verið haldið utan við þetta mál eins og okkur andstæðingum þáv. stj.

En hv. 1. þm. Reykv. láðist að geta þess, hvers vegna málinu var haldið leyndu fyrir öllum stjórnarandstæðingum þangað til eftir stjórnarmyndun. Þeir ætla að nota sér það, að núv. stj. varð að halda samninga, sem fyrri stj. var búin að gera. Þá fara menn að skilja, að það er ekki tómur drengskapur, sem ræður afstöðu þessara hv. þm.

Ég get ekki skilið, hvernig menn vilja fara að halda því fram, að bráðabirgðal. Ásgeirs Ásgeirssonar frá 28. maí hafi verið launungarmál. Skatturinn var lagður á í beinu framhaldi af samningum þeim, sem forstjórarnir höfðu gert.

Þá er spurningin, hvort það hafi verið brot framsóknarmanna, að þeir vissu ekki af þessum samningum fyrr en eftir að stjórnartíð þeirra var byrjuð. Er ekki brotið einmitt hjá þeim, sem leyndu framsóknarmenn þessu og fóru að öllu með mesta pukri? Ég vissi t. d. ekki um þessa ráðstöfun fyrr en 14 dögum eftir stjórnarskiptin, þegar þeir, sem þessa ráðstöfun höfðu gert, útskýrðu sínar gerðir. (PM: Hvernig var um Sjálfstfl.?). Ég er ekki á fundum þeirra og fylgist ekki með í þeirra leyndarmálum, en ég veit þó, að Richard Thors var potturinn og pannan í þessu öllu saman.

Þá vil ég spyrja hv. 1. þm. Reykv., hvort það sé leyndarmál, sem allur bærinn vissi raunar, að þegar átti að senda mann til Spánar, þá barðist Kveldúlfur gegn því með öllum ráðum, að Helgi Guðmundsson færi. Morgunblaðið hefir t. d. neitað að taka leiðréttingu frá Helga Guðmundssyni þess efnis, að þegar hann kom til Spánar, löngu eftir að Richard Thors var þangað kominn. Þá var búið að gera þar ráðstafanir, sem hann vissi ekki um. Hví fær hann ekki rúm fyrir þessa leiðréttingu í Morgunblaðinu?

Ég spyr hv. þm. ennfremur, hvort það sé ekki rétt, sem úr verulegt atriði í mínum greinum, að þessir herrar, sem að málunum stóðu, sköpuðu sér 24 þús. kr. laun. Mér skilst, að í því embætti, sem hv. þm. gegnir, séu launin ekki nema 1/4 eða 1/5 af þessu. ég skil því ekki í því lítillæti hv. þm., að það skuli særa hans metnaðartilfinningu, þótt bent sé á, að þessi laun séu óþarflega há.

Þá er atriði, sem ég hefi bent á í greinum mínum, sem sé það, hvers vegna þessir háu herrar, sem hafa fimmfalt hærri laun en guðfræðiprófessorarnir, reyna ekki að læra eitthvert af þeim tungumálum, sem þeir þurfa á að halda. Ég vil í þessu sambandi skjóta því til hv. 2. þm. Rang., að S. Í. S. hefði aldrei dottið í hug að sýna þá eymd að láta ekki þá menn, sem það hefði sem fulltrúa sína í Englandi eða Þýzkalandi, læra mál þessara þjóða. Verður að leita til fisksölunnar til að finna dæmi um hliðstæðan ræfilshátt, þar sem menn, er hafa það að lífsatvinnu að selja fisk á Spáni, verða að tala þar ensku. Þjóðverjar, sem sendir eru til Finnlands í svipuðum erindagerðum, verða að eyða 2 árum í að læra finnsku, sem er líklega tíu sinnum erfiðara mál en spánska. En í þessum fisksölumönnnm okkar virðist hafa sameinast frekjan og ræfilsskapurinn. Gorgeirinn heima fyrir, en lítilmennskan út á við. Þetta eru menn, sem álitu sig vera hafna yfir alla „krítik“ og hafa haft fólk í sínum flokki, sem fengizt hefir til að líta upp til þeirra, en það er leitt að þurfa að segja það, að Íslendingar geta ekki lengur verið þekktir fyrir, að því sé leynt, að menn, sem tekið hafa sér slík völd í hendur, skuli ekki standa betur undir þeim en raun ber vitni um.

Þá kem ég að þeim orðum hv. þm., að ég hafi ausið auri menn í hans flokki. En hann getur þess ekki, að hann hefir skrifað grein, sem er efni í ca. 40 meiðyrðamál, ef ég virti hana þess að höfða þau. Í minni grein eru engin stóryrði, það er ekki verið að tala um níðingsskap eða slíkt, en þar er hinsvegar mörg þung rök, sem hitt hafa þessa háu herra. Ég vil spyrja hv. þm., hvernig standa muni á því, að mín grein er full af hógværð og rökum, en greinar andstæðinga minna hafa ekki annað að geyma en fúkyrði. Ber það vitni um góðan málstað hjá mér, en illan málstað þeirra, eða hvað?

Ég vil ennfremur spyrja hv. 1. þm. Reykv., hvort hann treysti sér til að bera saman minn drengskap og sinn. Hans drengskapur kom t. d. fram í því, að hann skrifaði undir rógbréf, meðan ég var erlendis, sem dreift var út um allt land. Þar var sagt, að ég væri suður á Spáni í landshættulegum tilgangi, ég væri þar að fremja föðurlandssvik. Reyndu þeir síðan að standa við þetta rógbréf? Nei! Þeir læddu því inn á meðan ég var fjarstaddur, en hættu svo þessum skrifum áður en ég var kominn heim aftur. Má ekki segja, að þetta sé andstyggilegt, eins og hann sagði sjálfur í sambandi, þar sem það átti ekki við? Ég hefi fyrirlitið þennan rógburð og látið hann að mestu afskiptalausan. Þeir, sem hafa sterkan málstað, þurfa ekki að stökkva upp á nef sér af hverju einu, eins og þeir, sem illan málstað hafa.

Þá vil ég enn spyrja hv. þm.: Man hann, hvernig hans blöð létu þegar við Magnús Sigurðsson unnum að því að taka lán í London árið 1930? Þá rigndi niður ásökunum frá þeim um það, að landinu væri þannig stjórnað, að ekki væri hægt að lána því. En lánið fékkst nú samt. Möller varð að snúa við „með uforrettet Sag“ frá Svíþjóð. (MJ: Sá kann nú tungumálin). Betur en sá, sem fram í greip. Þessi stolti bær, Reykjavík, þar sem hans flokksmenn stjórna, mannsins, sem sagði, að ríkinu væri svo illa stjórnað, að það fengi ekki lán — þessi bær varð að bíða í mörg ár eftir láni, árangurslaust, þangað til ríkið gekk í ábyrgð og bjargaði.

En þetta eru föðurlandssvik, sem ekki hafa hent nokkurn flokk andstæðinga Sjálfstfl., að spilla fyrir landinu með því að úthrópa það, að ríkið sé svo illa statt, að ekki sé þorandi að lána því. En hitt er annað mál, að þessi rógburður hefir engin áhrif haft, fremur en rógurinn um mig.

Eins og mörgum mun kunnugt, kom í sumar grein í Tidens Tegn. Þar sem vitnað var í orð Ólafs Thors á þá leið, að landið væri að fara á hausinn. það er auðvitað ekki amalegt fyrir Tidens Tegn að fá svona ummæli til að vitna í. ég get trúað, að keppinautar okkar, fiskútflytjendur í Noregi, hafi ekki orðið óglaðir af slíkum fréttum. Þessi grein var skrifuð af Íslendingi og send héðan að heiman. Þeir, sem þekkja undanfarin skrif Morgunblaðsins, geta hæglega ímyndað sér, hvert líklegast er að rekja uppruna slíkra greina.

Ef hv. þm. vill rannsaka, hvað er rógburður, þá skal hann bera saman sín ræfilslega lævíslega upplognu bréf og mín skrif. Fólkið óskar ekki annars meira en að fá meira frá mér, en sjálfstæðismennirnir þegja og flýja af hólmi, enda þótt þeim sé frjálst að svara mér og hrekja staðhæfingar mínar, ef þeir geta.

Þá get ég minnzt á það, að ef til vill er hugsanleg ein ástæða, sem komið gat formanni Sjálfstfl. til að fara úr utanríkismálan. Hans menn eru sem sé riðnir við ýms mál, sem ég get hugsað, að hann kæri sig ekki um að bera ábyrgð á. — Það getur komið fyrir, að borgarar landsins geri slíka hluti erlendis, að ekki sé föðurlandsást að þegja yfir þeim. Því hefir verið haldið fram, að ég hefði framið föðurlandssvik í Spáni. Hefði það verið satt og hefðu þeir vitað það, myndu þeir þá ekki hafa haldið áfram sem menn og reynt að koma fram ábyrgð á hendur mér? Eða væri rétt að þegja um slíka hluti? Ég álít vafasamt, að föðurlandinu sé meiri hagur að því, að þagað væri um slíka hluti, en hinu.

Að síðustu vil ég benda hv. þm. á atriði, sem var veikt í afstöðu hans í gær. Það er búið að sanna með rökum. að fyrrv. stj. hafði gert bindandi samninga, eins og ég hefi þegar getið um. Um þessa samninga vissu ekki aðrir en hún og trúnaðarmenn hennar, ekki heldur sósíalistar. Þegar svo núv. stj. tók við, varð hún að gefa út bráðabirgðal. til að standa við þessa samninga.

En svo gerist það hérna um daginn, að hv. 6. þm. Reykv. kemur fram með frv., sem hann er áður búinn að leggja fyrir sjútvn., og hv. þm. Vestm. lýsir sig þessu frv. samþ. Hv. 6. þm. Reykv. kveðst áður hafa borið málið undir stj. sambands íslenzkra fiskframleiðenda. Efni frv. er nú það, að fella á niður skatt í markaðs- og verðjöfnunarsjóð, sem áður er búið að koma á, en stofna í þess stað svokallaðan markaðssjóð saltfisks, og á að neyða ríkissjóð til að leggja í þennan sjóð allt að 1 millj. kr. á ári. — (ÓTh hvíslar að MJ). Það verður skemmtilegt tilberasmjör, sem úr strokknum kemur, eftir að búið er að spýta í snakkinn, — ég hlakka til að sjá það. — Það, sem gerist í sjútvn., er þetta, að hv. 6. þm. Reykv. rýfur þessi einu grið, sem þó hefði mátt búast við, að hann myndi halda, samningana um verðjöfnunargjaldið. Ég býst við, að hv. 1. þm. Reykv. og hans góðu vinir geti séð í fundabókum sjútvn., hvenær þetta mál var lagt þar fram. Tilgangur þeirra var þessi: Þeir ætluðu að bera fram frv. um, að verðjöfnunargjaldið yrði afnumið, og bjuggust við, að stuðningsmenn stj. myndu fella þetta. Hugsuðu þeir sér þannig að koma ábyrgðinni af því að halda uppi þessu óvinsæla gjaldi, sem þeir höfðu sjálfir lagt á, yfir á herðar ríkisstj. Úr því að svona var nú komið, að þessir herrar voru búnir að ákveða að reyna að komi þessari ábyrgð yfir á stj., þá sagði ég það, sem allir vissu. Í greinum mínum er samt margt, sem „interesserar“ fólk, ef það er tekið saman á einn stað.

Fyrst hv. þm. var að hæla Kveldúlfi fyrir sölutilraunir hans á Spáni, en jafnframt að sletta úr klaufunum á S. Í. S., þá verð ég að hryggja hann með því að skýra frá hinu sanna í því máli, og þess verða þeir að standa reikningsskap frammi fyrir kjósendum. Þessar virðulegu tilraunir Kveldúlfs voru í því fólgnar, að hann lætur frysta fiskinn hér heima og senda hann síðan til Spánar. En þegar svo fiskurinn er fluttur úr skipinu í íshúsin, og sérstaklega þó til smásalanna, skemmist hann, af því að þeir hafa ekki vit á að fara rétt með þessa voru. Ekki getur þetta stafað af því, að þá langi til að tapa á fiskinum. Hér er einungis um vanþekkingu að ræða, sem hrópar um hæfileikaleysi þessara manna. Þess vegna gaf ég hv. þm. N.-Ísf. það vingjarnlegra ráð, sem hann hefir hlýtt. Því lengur sem þeir ræða málið, því lakari verður sem sé afstaða þeirra — ekki af því, að þeir geti ekki haldið ræður. Hv. 1. þm. Reykv. getur t. d. vel haldið 12 tíma ræðu og er vel mælskur, enda þótt Jón heitinn Þorláksson kallaði það slepju, sem út úr honum kom.