15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. verður að virða til betri vegar, þótt ég svari ekki þeim ræðum, sem ég heyrði ekki og fluttar voru áður en ég kom. Ég kom inn í málið í þeim svifum, er hv. þm. N.-Ísf. beindi til mín nokkrum vingjarnlegum orðum, en þá var hv. 1. þm. Reykv. að mestu búinn að eyða sínum tíma.

Það er nú sjaldgæft um hv. 1. þm. Reykv., að það þurfi að búa til ræður handa honum. En undir þessum umr. hafa aðrir sífellt verið að spýta í hann, og því var ekki illa tilfundið að tala um tilbera eða snakk í því sambandi.

Ég skal geta þess út af því, sem hér hefir verið minnzt á veizluna á Staðastað, að kunnugur maður hefir sagt svo frá, að firmað Kveldúlfur hafi ekki verið svo mjög mótfallið því, að Helgi Guðmundsson færi til Spánar, en hv. þm. G.-K. hafi beitt sér gegn því af öllum kröftum. Hitt, að vera að reyna að lokka bankastjórann út í þessa ferð, er ekki óáþekkt því, er slóttugir náungar reyna að fá mann upp á víxil með því að gefa honum flösku. En Helgi Guðmundsson þekkti til á Spáni og vissi, að hann þekkti til þar, og vildi fara, enda var ýtt á eftir honum af þeim, sem vissu að hemil þurfti að hafa á sumum þeirra, sem fyrir voru. (MJ: Var það Helgi Briem?). Hann var valdalaus skrifari og í banni hjá íhaldinu, enda þótt vel kæmi sér fyrir Richard Thors, að hafa hann fyrir túlk. Það var einkennilegt, að hv. 1. þm. Reykv. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að greinar mínar myndu vera vel virtar í kjördæmi hv. þm. G.-K. Ég sagði aðeins, að greinar mínar myndu bera ávöxt síðar meir. Hann var eitthvað að tala um, að ég myndi ekki vera rétt góður í dönsku. Það erum við hvorugur, en getum þó gert okkur skiljanlega, svo að gott mætti heita, ef forstjórar samlagsins kynnu eins vel spönsku og ítölsku.

Þá sagði hv. þm., að Richard Thors hefði engu fengið að ráða í Gismondimálinu. Mér finnst það, satt að segja, dæmalaus fórnfýsi af Richard Thors að berjast á móti því, að Hálfdan Bjarnason fengi allan fiskinn í umboðssölu. En hvernig stendur á því dæmalausa atferli hinna forstjóranna, að þeir þrýsta öllum fiskinum inn á Kveldúlf, sem ekkert vildi hafa með hann að gera? Hv. þm. segir, að það hafi verið hreinasta vitleysa að vera að borga Gismondi, þessum banditt og kvikindi. En ég vil nú spyrja hv. þm., þótt hann sé dauður, hversvegna ekki megi ræða það furðulega fyrirbrigði, að Ólafur Proppé og Kristján Einarsson skuli bera Richard Thors svo ráðum, að Hálfdán Bjarnason fær öll umboðslaunin og Gismondi 330 þúsund? Þó þessi hv. þm. sé guðfræðikennari og of lágt launaður, þá er hann samt ekki nákvæmari í sannleikanum en það, að hann segir, að ég hafi árum saman alið á tortryggni gegn Gismondi. Nú vita allir, að það er ekki nema rúm vika síðan ég fyrst minntist á þennan mann, hvorki á mannfundum eða í blaðagreinum, en þessi vika verður hjá hv. þm. mörg ár. Ef sannleiksást hans er ekki meiri en þetta eða nákvæmari í meðferð ártala. þegar hann er að útskýra guðspjöllin fyrir sínum nemendum, þá er hætt við, að eitthvað geti ruglazt fræðslan.

Þá spurði hv. þm., hverjir hefðu verið andstæðingar stj. vorið 1934. Það var fyrst og fremst Alþfl. Svo hafði allur Framsfl. gert tilraun til að fá íhaldsmanninn út úr stj., þennan mæta mann, sem svo mikla áherzlu lagði á að fá Helga Guðmundsson til að fara suður á Spán. Það var þessi þm., hv. 1. þm. Skagf., sem Framsfl. var í fullri andstöðu við, og ennfremur hv. 10. landsk., sem óhlýðnaðist sínum flokki og gerði honum allt til bölvunar, sem hugsazt gat. Og ennfremur Ásgeir Ásgeirsson, hv. þm. V.-Ísf., sem um þessar mundir lét það fréttast vestur í sitt kjördæmi, að hann hlýddi ekki lögum flokksins. Enda hafði það þá beinlínis verið tekið fram af Framsfl., að stj. væri honum greinílega óviðkomandi.

Sú röksemd hv. þm., að það hafi verið skylda Héðins Valdimarssonar og Jóns Árnasonar að vera vel fyrir í spönsku, er fullmikil teyging á mínum orðum. Hann getur ekki neitað því, að sú stofnun, sem Jón Árnason er framkvæmdastjóri við, Samb. ísl. samvinnufélaga, hefir menn í skrifstofum sínum í Danmörku og Þýzkalandi, sem eru fullkomlega málfærir í þeim löndum. Jóni Árnasyni hefir ekki dottið annað í hug en að hafa þar færa menn, og vitanlegt er, að sjálfur er hann einnig sterkur á því sviði í þeim löndum, sem hann hefir viðskipti við. Í þeim efnum fullnægir hann hinum ströngustu skilyrðum, þar sem aftur á móti vinir hv. þm. eru vanmáttugir á sínu starfssviði.

Hv. þm. játaði á sig rógbréfin um mig út af Spánarför minni. Það var rétt af honum, en hann vildi ekki sanna það, sem í þeim stóð. Hann sagði, að ég hefði ekki sannað sakleysi mitt á Spáni. Hann sagði, að ég hefði ekki sannað sakleysi mitt gegn áburði bréfanna. Herra guð, eins og það sé mín skylda að afsanna það, sem hann skrökvar í vélrituðum bréfum, sem hann dreifir út um land meðan ég er fjarverandi. Hann þagði þegar ég kom heim, hann gat ekkert sannað. Hitt er annað mál, um dylgjur hans og íhaldsins gegn Helga Briem; ég hefi flett ofan af þeim, ég hefi sýnt fram á það, að honum var bannað af íhaldinu að fara til Ítalíu, og hann fór þangað ekki fyrr en í vetur, eftir að núv. stj. tók við völdum. Hann mátti ekki fara þangað fyrir Kveldúlfi, vegna þess, að því meira, sem hann upplýsti um markaðinn í Suðurlöndum, því meiri andstöðu mætti hann hjá íhaldinu, og þegar Helgi Briem fór til Madrid til þess að reyna að verða vísari um það, hvað væri á seiði hjá yfirvöldunum gagnvart okkar fiskmarkaði á Spáni, þá mætti hann hinni megnustu andstöðu frá íhaldinu. Þá risu upp þær kenningar hér á landi, að við ættum ekki að vera að hnýsast um slíkt. Íhaldið vildi, að farið væri að dæmi strútsins, sem stingur höfðinu í sandinn, þegar hann sér hættuna. Það vildi láta skeika að sköpuðu. En Helgi Briem gerði sína skyldu, og þegar hann skrifaði þeim skýrslu um málið, þá lét Ásgeir Ásgeirsson bóka það í utanríkismálanefnd, að ekkert væri athugavert við framkomu Helga Briems. Til hvers er hv. þm. að halda enn uppi dylgjum í þessu máli, eftir að búið er að kveða hann svo greinilega í kútinn í þessari rógsherferð hans á hendur Helga Briem? Mér hefði fundizt honum ætti að nægja það, að vita, að ráðh. er búinn að lýsa því yfir, að álygarnar á Helga Briem voru ástæðulausar og ekkert út á starfsemi hans að setja. Ég býst við, ef hv. þm. heldur áfram með þessar dylgjur, þá verði ég að óska eftir því, að sannanirnar verði birtar. (Forseti: Þetta átti að vera aths.). Já. ég er að verða búinn. Hv. þm. hefir eftir allt saman haldið það, sem Jón Þorláksson kallaði slepjuræður, um þetta mál, og hann hefir orðið að játa með þögninni, að ég hafði rétt fyrir mér. Það ætti honum að vera nóg. Hann veit, að ég hefi ekki sagt frá því, sem kannske mundi breyta skoðunum manna um ýmsar háar persónur í landinu, og hv. þm. getur verið mér þakklátur fyrir það, að ég hefi enn sem komið er látið náðina ganga fyrir réttlætinu, en hv. þm. á að geta skilið það, að ef hann heldur mjög langt út á þá hálu braut, sem hann nú er á, þá geti kannske orðið meiri ábyrgðarhluti fyrir mig að þegja en tala.

Hv. þm. hefir orðið að játa, að hann og hans flokkur gerðu það, sem þeir gátu, til þess að spilla fyrir ríkisláninu 1930. Hann hefir játað, að Jakob Möller gat ekki fengið lán handa Reykjavíkurbæ nema með ábyrgð ríkisins, af því Reykjavík var ekki trúað. Hv. þm. veit kannske ekki, að Gautaborg gat á þeim tíma fengið erlent lán, þó Reykjavík fengi það ekki, af því að henni var svo illa stjórnað. Í blöðum Framsfl. hefir aldrei verið gerð tilraun til þess að veikja traust landsins út á við meðan íhaldið var við stjórn. Það reynir íhaldið og Morgunblaðið eins og það hefir vit á, þegar það er í stjórnarandstöðu. Við höfum aftur á móti vítt mök íhaldsins við Kúlu-Andersen, og ég geymi enn umsögn enskra blaða um það, þegar íhaldsstjórnin gerði hann að umboðsmanni landsins við lántökuna frægu 1921. (MJ: Ég hefi séð það). Það er kannske rétt, að ég láti samt prenta það upp úr lánsskjölunum frá 1921, svo hv. þm. haldi áfram að liggja flatur í sínum ófarnaði í þessu máli eins og öðrum.