27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að fara út í sögu fiskiskattsins. Það hefir hæstv. atvmrh. gert, og ég geri ráð fyrir, að hann svari þeim atriðum, sem að honum var beint í ræðu hv. þm. G.-K. En það eru þau orð, sem hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. G.-K. sögðu um fiskimálan. og þörfina fyrir að leggja hana niður, sem ég vildi svara. Það er nú svo, að ef maður tekur fiskimálan. annarsvegar og fisksölusamlagið hinsvegar, þá eru tveir menn, sem hægt er að bera saman; annar er Helgi Guðmundsson, en hinn er ég. Ég vil halda því fram, að þessir menn séu háðir jafnhæfir til þess, sem þeim er ætlað. Að vísu sagði hv. þm. G.-K., að það myndi sérstök áherzla lögð á það af hálfu útvegsmanna að mótmæla mér sem form. fiskimálan., af því að ég hefði ekki komið nærri sjávarútvegsmálum. Ég verð að segja, að af þeirri veru, sem ég hefi haft á þessum stöðum í stjórn sölusamlagins og fiskimálan., þá finnst mér, að sú þekking á sjávarútveginum, sem þessir menn þykjast hafa, hafi gert þeim erfiðara að tileinka sér nýja hluti, sem þarf að gera, til þess að geta unnið gagn í þessum málum. Ég álít, að meira sé undir því komið, að menn séu kunnugir atvinnuvegum þjóðarinnar og verzlun heldur en að kunna að verka fisk, sem ég er þó ekki viss um, að allir, sem eru í stjórn sölusambandsins, kunni. Hv. þm. G.-K. lét svo um mælt, að ég hefði ekki tileinkað mér þá þekkingu og þann hugsunarhátt, sem nauðsynlegt væri þeim mönnum, sem veita málum sjávarútvegsins forstöðu. Það getur náttúrlega vel verið. En þá þekkingu og þann hugsunarhátt sem ég geri ráð fyrir, að hv. þm. G.-K. vildi, að ég hefði, hefi ég ekki, því að sá hugsunarháttur er ekkert annað en sá gamli íhaldshugsunarháttur, sem hefir komið okkur í það neyðarástand, sem nú er. Fyrir utan þá tvo menn, sem ég hefi nú minnzt á, þá hefir Magnús Sigurðsson verið nokkurskonar fulltrúi í Sölusamb. Ísl. fiskframleiðenda f. h. Landsbankans. Sá banki hefir einnig rétt til að setja mann í fiskimálan., en það varð svo, að þeir treystu ekki bankastjórunum til þessa, en fengu til þess útgerðarmann, Júlíus Guðmundsson, og fæstir munu bregða honum um, að hann vaki ekki yfir málum útvegsmanna. Í stjórn Sölusambandsins er útnefndur maður af S. Í. S. og sömuleiðis í fiskimálan. Munurinn er aðeins sá, að þetta fyrirtæki hefir ekki álitið, að það gæti haft mann, sem gæti verið í báðum stöðunum í einu. — Þá vil ég minna á, að í stjórn fiskimálan. er fulltrúi frá Alþýðusambandinu, sem nú er Jón Axel Pétursson, og er hann að mínu áliti mjög kunnugur þessum málum, og sérstaklega því, sem lýtur að því að gæta hagsmuna sjómannastéttarinnar, og ég vil minna hv. þm. G.-K. á það, þegar hann á sínum tíma ætlaði að koma á fiskiráði, þá átti einmitt að vera í því fulltrúi frá Alþýðusambandinu. Aftur á móti átti ekki að vera nema einn útgerðarmaður í því. Þá eru eftir tveir menn, sem líka eru í fiskimálan., það er Guðmundur Ásbjörnsson, sem er útgerðarmaður og vel kunnugur þessum málum, og hinn er Kristján Bergsson, forstjóri Fiskifél. Íslands. Báðir þessir menn hafa í fiskimálan. sýnt mikinn vilja á því að vinna að þessum málum. Og á móti þessum mönnum og ætla að vera þeim snjallari koma menn eins og Sigurður Kristjánsson og Jóhann Jósefsson, sem að vísu sjaldan getur mætt, en í stað hans er Jón Kjartansson. Enginn af þessum mönnum hefir gert sér fiskverkun að atvinnu á annan hátt en þann, að þeir hafa borðað fisk sem blaðamenn, og mér finnst það óneitanlega illa hugsað, ef taka á meira tillit til þessara manna heldur en flokksmanns þeirra, sem hefir vit á þessum málum. Annars vil ég benda á það, að þessar ræður hv. þm. G.-K. og hv. 6. þm. Reykv. benda á, hvað þeir hafa ákaflega lítið fylgzt með störfum fiskimálan. og verkefnum hennar, þar sem þeir álíta, að það sé tvímælalaust hægt að setja þessi störf undir stjórn fisksölusambandsins. Má í því sambandi benda á, að vinnutími fiskimálan. hefir áreiðanlega verið þrefaldur á móts við stjórn fisksölusambandsins, og er varla hægt að gera ráð fyrir, að stjórn fisksölusambandsins bæti þessum vinnutíma á sig þegjandi. Ég er sannfærður um, að ef hún ætlaði að hafa með höndum þessi störf, þá eru ýmsir af þessum mönnum, sem ekki myndu vilja sjá af þeim tíma, er gengi til þessara hluta, jafnvel þó að þeim væri borgað fyrir það eitthvað hærra en nú er. En mér finnst ólíklegt, að sú greiðsla yrði hærri en 3600 kr., enda fyndist mér það vel borgað móts við þá vinnu, sem lögð hefir verið fram í sölusambandinu. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að í stað þess að hægt sé að minnka störf fiskimálan., má búast við mikilli aukningu á þeim, og ég skil ekki í því, að hægt sé að halda áfram lengur en til áramóta að hafa sama skrifstofustjóra í fiskimálan. og fisksölusamlaginu. Það er enginn vafi á því, að það þarf sérstakan mann til þess að standa fyrir skrifstofu fiskimálan. (ÓTh: Er nú einhver nýr maður, sem þarf að koma að?). Já, það má gera ráð fyrir því, annaðhvort í fiskimálan. eða fisksölusamlaginu. Hv. þm. G.-K. lýsti því hér með mörgum fögrum orðum, hvernig íslenzkir útgerðarmenn hefðu alltaf valið beztu markaðina, fundið hvar bezt var borgað fyrir fiskinn og farið þangað með allan sinn fisk. Ég skal náttúrlega játa, að ég er ekki vel kunnugur verði á hinum ýmsu fiskitegundum, en ég efast um, að þetta sé rétt, eða réttara sagt: ég er viss um, að þetta er rangt, sem sest á því, að harðfiskverðið hefir haldið sér á móts við hitt. Þegar harðfiskverkun var tekin upp hér á landi og af þeirri reynslu, sem fengin er af henni, bendir allt til, að verð á harðfiski verði betra en verð á saltfiski. En þessi reynsla er auðvitað takmörkuð, þar sem fiskimálan. gat ekki tekið til starfa strax í ársbyrjun. En það hefir sýnt sig við sölu, að verðið er mjög viðunandi, og ég efast ekki um, að útvegsmenn muni halda áfram á þessari braut. En það, sem gerir mesta erfiðleika á því að keppa við norska harðfiskinn, er að því er hv. þm. sagði, að ekki sé hægt að verka samskonar harðfisk hér á landi og í Noregi. en reynslan hefir sýnt að á ýmsum stöðum hér er a. m. k. eins gott, ef ekki betra, að verka harðfisk heldur en í Noregi, enda hefir fiskimálan. fregnað það frá ýmsum harðfiskkaupendum að þeir myndu kaupa íslenzkan harðfisk ekki síður en norskan, þegar hann kæmi á markaðinn.

Það er líka annað atriði sem ég tel mikils virði; því fleiri verkunaraðferðir, sem notaðar eru, því meiri eru markaðsmöguleikarnir, og því minni er áhættan af fiskútflutningnum, því að þótt markaður bili á einum stað, getur hann verið öruggur á öðrum. Með því að nota fleiri en eina verkunaraðferð er ekki allt lagt undir eitt spil, eins og hjá fjárhættuspilurum.

Tilraunir hafa verið gerðar með hraðfrystan fisk, og verður nú að taka þá aðferð upp í stórum stíl. Hafa sýnishorn af þessari vöru verið send til 5 landa. verður framtíðin að skera úr um það, hvaða árangur þessar tilraunir bera. Hér þarf mikla nákvæmni við, og býst ég ekki við, að hægt verði að spara þann mann á næstunni, sem kom fram með þessa aðferð. Þá þykir mér ekki líklegt, að hægt sé að spara þann mann, sem kom á harðfiskverkun hér á landi, en það er einn þeirra manna, sem hv. þm. G.-K. telur, að spara beri fyrir útveginn. Það þarf að lögskipa mat á harðfiskinum, svo að hann skemmist ekki í salthúsunum.

Þá ætti að halda áfram tilraunum um með ferð ísfiskjar, sem reglugerð er nú komin um. Sama er að segja um niðursuðu o. fl.

Þá eru tilraunirnar til markaðsleitar. Fiskimálan. á þakkir skildar fyrir tilraunirnar að því er snertir Suður-Ameríku. Fiskimálan. sendi sölusambandinu fyrirspurn um, hvort það myndi senda mann í markaðsleit, og lét nefndin svo um mælt, að hún myndi annars senda manninn. Sölusambandið sendi síðan mann til Ameríku, og verður að þakka það fiskimálan., að hún rak þarna á eftir. (ÓTh: Slúður). Þetta munu fleiri geta borið um.

Annars held ég, að hyggilegast sé að hafa þarna verkaskiptingu, þannig að sölusambandið sjái um saltfiskinn, að vinna honum sem beztan markað, en fiskimálan. sjái um annað. Að öðru leyti ætti að vera sem mest samstarf milli sölusambandsins og fiskimálan.