28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Ólafur Thors [frh.]:

Ég var í miðri ræðu, þegar hæstv. forseti frestaði umr., og átti eftir að gera nokkrar aths. út af ræðu, sem hv. 2. þm. Reykv., form. fiskimálan., flutti um starfsemi þeirrar n. Hv. þm. taldi það skyldu sína að bera hönd fyrir höfuð n. og vildi sýna fram á ágæti hennar, fyrst og fremst með því að gera samanburð á starfhæfni þeirra manna annarsvegar, sem eru í stj. sölusambands ísl. fiskframleiðenda, og hinsvegar þeirra, sem eru í stj. fiskimálan. Hann gat þess réttilega, að sjálfur ætti hann sæti í báðum n. og virtist mér það eiga að benda til þess, að þyngdarpunkturinn væri nú fundinn í báðum n., þar sem hann sjálfur væri. Auk þess gat hann þess, að Helgi Guðmundsson bankastjóri rétti líka sæti í báðum n., og fannst mér það líka eiga að benda til þess, að talsvert mikið af þeim hæfileikum, sem fiskimálan. hefir yfir að ráða, væri einnig komið í hendur sölusambandsins. Að öðru leyti gerði hann þann samanburð, að f. h. Landsbankans væri Magnús Sigurðsson í fisksölusambandinu, en Júlíus Guðmundsson hefði verið valinn af Landsbankanum í fiskimálan., af því að bankinn hefði ekki treyst Magnúsi Sigurðssyni til þess. Hv. þm. hefir kannske átt við, að bankinn hafi ekki talið rétt að bæta meiri störfum á Magnús Sigurðsson, en hv. þm. sagði nú samt hitt. Ennfremur gat hv. form. fiskimálan. þess, að í fisksölusamlaginu væri Jón Árnason framkvæmdarstjóri, en Pálmi Loftsson í fiskimálan., og taldi hann þar mikinn mannamun. Ég fyrir mitt leyti álit Jón Árnason meira en mann á móti Pálma Loftssyni.

Ég skal ekki gera langan samanburð á starfshæfni Ólafs Einarssonar útgerðarmanns og Jóns Axels Péturssonar. Sá fyrrnefndi er í fisksölusamlaginu, en hinn er í fiskimálan. En Ólafur Einarsson í Hafnarfirði, sem frá blautu barnsbeini hefir fengizt við útgerðarmál, er alveg vafalaust miklu færari starfsmaður á þessu sviði heldur en hafnarlóðsinn hér í Reykjavík, sem auk þess að stunda það starf virðist vera foringi baráttuliðs sósíalista. Loks átti það að sanna, að fiskimálan. væri miklu starfhæfari og réði yfir víðtækari þekkingu heldur en fisksölusambandið, að geta þess, að Guðmundur Ásbjörnsson og Kristján Bergsson væru í fiskimálan., en Sigurður Kristjánsson og Jóhann Jósefsson í sölusambandinu. Nefndi hann þá báða bitlingamenn og ómaga á fiskimálunum, menn, sem ekki hefðu annað til síns ágætis heldur en að hafa gert sér fiskimálin að atvinnu. því beindi hann þó, eftir því sem mér skildist, sérstaklega til Sigurðar Kristjánssonar og varamanns Jóhanns Jósefssonar, Jóns Kjartanssonar ritstjóra, og skildist mér það undanhald hv. þm. byggjast á þeirri skoðun hans, að maður eins og Jóhann Jósefsson alþm., sem kunnur er að því að hafa fengizt við útgerðarmál svo áratugum skiptir, vari ekki árennilegur og ekki gott að slá því föstu, að hann væri þekkingarlaus í þessum efnum. Hinsvegar valdi hann þessa tvo menn, Jón Kjartansson og Sigurð Kristjánsson, til þess að ráðast á þá fyrir þekkingarleysi, af því að þeir hefðu ekki stundað útgerð, en gert útgerðarmálin sér einungis að féþúfu. Það er kunnugt, að Jón Kjartansson hefir setið í stjórn útgerðarfélags hér í mörg ár. Hitt er þjóðkunnugt, að hv. 6. þm. Reykv. hefir víðtækari þekkingu á þessum efnum en flestir eða allir samstarfsmenn hans, og margfalda þekkingu á við hv. 2. þm. Reykv. Skýrsla hans um hag útgerðarinnar hefir verið lögð til grundvallar við allar umr. um þau mál, jafnt af andstæðingum sem öðrum. Ennfremur hefir hv. 6. þm. Reykv. lengi átt sæti í stjórn útgerðarfélaga, eins og J. K. Mér þykir því skorin færast upp í bekkinn, þegar 3w. 2. þm. Reykv., sem hefir 9—10 þús. kr. fyrir að vera í tveim nefndum, án snefils af sérfræðiþekkingu á þeim málum, sem þær eiga að fjalla um, fer að tala um bitbein í þessu sambandi. Slíkt er aðeins hastarleg árás á hann sjálfan.

Öll „rök“ hv. 2. þm. Reykv. hafa sannað það, að stjórn S. Í. F. ræður yfir ósambærilega meiri þekkingu en fiskmálan. Auk þess ræður hún yfir starfskröftum þriggja forstjóra, sem gert hafa fisksölumálin að æfistarfi sínu. Mismunurinn á starfshæfileikum og þekkingu þessara tveggja aðilja er svo augljós, að um hann þarf ekki frekar að ræða, enda veit ég, að hv. 2. þm. Reykv. talar á móti betri vitund í þessu máli sem oftar.

Það lætur óneitanlega hálfilla í eyrum, að heyra mann eins og hv. 2. þm. Reykv., sem aldrei hefir nálægt útgerð komið, en hirðir þó 5400 kr. fyrir að mæta á fundum stutta stund nokkrum sinnum í mánuði, bregða sér margfalt hæfari mönnum um bitlingasníkjur.

Þegar litið er á starf fiskimálanefndar, verður ekki annað sagt en að það er harla lítið. Nefndin hefir að vísu reynt að framkvæma tvennt úr frv. Okkar, herðingu á fiski og hraðfrystingu, sem þó hefir tekizt heldur illa til með að þessu sinni. Hv. 2. þm. Reykv. er vafalaust duglegur við það, sem hann kann og hefir fengizt við, svo sem olíuverzlun, en hann verður að sætta sig við það, þótt efazt sé um hæfileika hans á því sviði, sem hann hefir hvorki bóklega né hagnýta þekkingu. Ég býst nú við, að hann viðurkenni það, að hver sá, sem lengi hefir fengizt við verzlun með sérstaka vörutegund, muni hafa talsverða þekkingu fram yfir þá, sem aldrei hafa nálægt slíku komið. Hv. þm. vantar því allt í þessum efnum á móts við þá, sem gert hafa fisksölumálin að æfistarfi. Auk þess er ljóst, að hann getur ekki haft neinn tíma til að setja sig inn í þessi mál, þótt hann vildi. Hann rekur stóra verzlun, er form. stærsta verkalýðsfélagsins á landinu, varaform. flokks síns og þm. hans. Auk þess mun hann hafa starfað í skipulagsnefnd fram eftir árinu. Þetta veit ég, að hv. þm. hlýtur að játa með sjálfum sér.

Störf S. Í. F. hafa heldur minnkað frá því, sem þau voru, og þó eru stjórnarmennirnir nú orðnir í 10 í stað 5 áður. Því ætti að vera hægðarleikur að bæta störfum fiskimálan. við S. Í. F., og þótt meira væri. Útgerðarmenn eiga kröfur á því, að þeim óþarfa kostnaði, sem leiðir af fiskimálan., sé létt af þeim, og munu fylgja þeirri kröfu fram.

Ég tel þýðingarlaust að fara að elta ólar við ýmsar missagnir í ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ég vil þó benda á eina missögnina, vegna þess, hve átakanlega hún leiddi í ljós þekkingarleysi hans á þessum málum. Hann hélt því fram, að harðfiskur væri yfirleitt jafnhár eða hærri í verði en saltfiskur. Hann ætti að kynna sér hagskýrslur Norðmanna til að sjá, hvað hæft er í þessari staðhæfingu. Þar sest, að það er föst regla, að ávallt þegar veiðibrestur er, dregur úr verkun harðfisksins, þótt ekki dragi úr saltfiskframleiðslunni. Af hverju? Af því að ekki er jafnarðvænlegt að verka harðfisk og saltfisk. Þegar lítið veiðist, er harðfiskurinn látinn mæta afgangi. Og það sýnir bezt, hve hv. þm. er gerókunnugur þessum málum, jafnvel fram yfir það, sem vanta má, að hann skuli taka árið í ár sem sönnun fyrir þessari staðhæfingu sinni. Því þótt harðfiskurinn hafi að þessu sinni skilað jafnvel skárra verði heldur en saltfiskurinn. Þá er það af því einu, að Norðmenn verkuðu í fyrra helmingi minna af harðfiski en áður, sökum stórfellds veiðibrests. Því kann að vera, að það lítilræði, sem hér var verkað af harðfiski, seljist sæmilegu verði.

Þetta dæmi ber vott um það, í hve lítt nánu sambandi þessi hv. þm. stendur við atvinnumálin. Og þó leyfir hann sér að vera með glósur í garð þeirra manna, sem hér hafa verkað saltfisk undanfarið og rutt honum braut á erlendum markaði, þar sem hann var beztur. Hann segist ekki vera neinn fjárhættuspilari, sem vilji setja allt á eitt á Suðurlandsmarkaðinum. En einmitt sá markaður var beztur og tryggastur á meðan einkaframtakið réð fiskgötunni, og okkar fátæka land hafði ekki ráð á að hafna þeim markaði vegna „varfærni“ hv. 2. þm. Reykv. árið 1935. Alveg eins og saltfiskmarkaðurinn hefir þrengzt og brostið vegna verzlunarhaftanna, svo gat einnig harðfiskmarkaðurinn gert það, og hefir að nokkru leyti gert, t. d. markaður Norðmanna í Ítalíu. Og jafnvel þótt menn hefðu vitað fyrirfram, hve fara myndi, hefðu Íslendingar ekki haft efni á því á þeim tíma, að banda frá sér bezta markaðinum.

Ég hefi nú sýnt fram á, hve nauðalitla þekkingu hv. 2. þm. Reykv. hefir á þessum málum. Í öðru lagi eru engar líkur fyrir því, að fiskimálanefnd leysi eins vel, hvað þá betur úr þeim vanda, sem að fisksölumálunum steðja, en þeir 10 menn, sem eru í stjórn fisksölusamlagsins. Ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. er þetta ljóst, eða að honum verður það a. m. k. ljóst áður en lýkur, að útgerðarmenn, sem eiga að borga brúsann, telja 10 manna stjórn fiskimálanna nógu fjölmenna og enga þörf á 17 manna stjórn.