28.11.1935
Neðri deild: 85. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Héðinn Valdimarsson [óyfirl]:

Þeir flokksbræðurnir hv. þm. G.-K. og hv. 6. þm. Reykv. hafa nú veitzt að mér með nokkrum orðum út af þeirri stuttu ræðu, er ég flutti um þetta mál hér í gær. Það er þó ekki sérstaklega margt í ræðum þeirra, er ég þarf að svara. Svo virðist, sem þeir hafi ekki gert sér ljóst, a. m. k. ekki hv. 6. þm. Reykv., hvaða samanburð ég gerði á mannavali í nefndirnar. Það var ekki svo, að ég væri að bera mig saman vil hv. 6. þm. Reykv., það hefir mér aldrei komið til hugar að gera. Ég bar mig saman við sjálfan mig, þar sem ég á sæti í báðum n., og geri ráð fyrir, að ég sé sami maður, í hvorri n. sem ég starfa. Svo lagði ég að jöfnu þá fulltrúa, sem Samband ísl. samvinnufélaga og Landsbankinn réðu í nefndirnar. Ennfremur gerði ég ekki upp á milli fulltrúa Alþfl. í báðum n. Þeir hafa að vísu mjög ósvipaða reynslu í þessum málum. En hvor fyrir sig mjög ómissandi reynslu í sjálfu sér. Annar þeirra er sjósóknari, þaulkunnugur fiskimiðunum og hlutverki sjómannanna í þeim, hann hefir aftur á móti reynslu af stórútgerðinni. ég álít, að þekking þessara manna hvers um sig sé nauðsynleg, og geri því ekki upp á milli þeirra. Mannjöfnuðurinn, sem ég var að gera í gær, var á milli hinna tveggja fulltrúa Sjálfstfl. í hvorri n. fyrir sig, en það eru annarsvegar hv. (6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., sem oft er fjarverandi vegna atvinnu sinnar og heimilisfangs, en þá situr í hans stað Jón Kjartansson, og hinsvegar Jón Ásbjörnsson og Kristján Bergsson. ég ætla ekki í þessari ræðu að fara langt út í þennan samanburð, en ég hygg, að Sjálfstfl. muni treysta betur hinum síðartöldu heldur en þeim hv. 6. þm. Reykv. og Jóni Kjartanssyni, sem settir voru inn í n. eins og hver önnur bitlingadýr.

Það kann að vera, að þessum hv. þm. þyki kaup mitt í fiskimálanefnd nokkuð hátt, en þar til hefi ég því að svara, að svo vill til, að tveir þriðju af því renna í bæjarsjóð og ríkissjóð, en ekki nema þriðjungur þess í minn eig inn vasa. En þeir, sem þekkja til starfa fiskimálanefndar, vita það, að þau eru ekki einn til tveir fundir í viku, sem standa yfir tvo tíma í senn. eins og hjá stjórn S. Í. F., heldur miklu nærri. Og kaup fulltrúanna í fiskimálanefnd er ekki hátt, miðað við það, að þessir hv. þm. halda því fram, að fulltrúar í stjórn S. Í. F. eigi að hafa 3500 kr. hver fyrir sitt litla starf. Mér hefir aldrei dottið í hug, að þeir ættu að fá svo há laun fyrir starf, sem þeir ættu að geta unnið alveg ókeypis. (ÓTh: Það væri nær að fiskimálanefnd ynni ókeypis). Ég hygg, ef störfum fiskimálanefndar yrði bætt á stjórn S. Í. F., þá þættist hv. 6. þm. Reykv. hafa heldur minni tíma til ritstarfa en hann nú hefir.

Þá sagði hv. 6. þm. Reykv., að S. Í. F. hefði fleiri mönnum á að skipa en fiskimálanefnd. Það kemur líklega af því, að þeir, sem starfa hjá fiskimálanefnd, hafa sérþekkingu bæði um frystingu og herzlu fiskjar, en menn S. Í. F. hafa ekki sérþekkingu. Nú er það ákveðið af S. Í. F., að félagið skuli hafa þrjá framkvæmdastjóra, af því starfið sé svo mikið, en ef þessir menn hafa nægan tíma til þess að taka að sér starf fiskimálanefndar, sem er mjög mikið og fer áreiðanlega vaxandi, þá væri betra að leggja tvo þeirra niður, því þeir eru vissulega miklu dýrari en fiskimálanefnd.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. G.-K.sagði, að beztu markaðirnir, sem völ væri á að vinna fyrir útgerðina, væru í Suðurlöndum, skal ég taka fram, að ég álit, að hann geti ekki sannað þetta. Ég hygg, að ef saga sölu sjávarafurðanna væri brotin til mergjar og tekið tillit til allra þeirra stóru tapa, sem orðið hafa á fisksölu til Suðurlanda, og þeim jafnað upp á móti hagnaðinum til þess að fá til nauðsynlegar jafnaðartölur, þá geti farið svo, að þessi fullyrðing hv. þm. G.-K.verði nokkuð hæpin. Norðmenn hafa a. m. k. kappkostað að halda við sínum harðfiskmarkaði, og þeir, sem hér á landi hafa reynt að selja harðfisk til útlanda, hafa horfið frá því og stundað saltfiskverkun einungis af því þeim þótti það umfangsminna. Norðmenn, sem stunda bæði saltfisks- og harðfisksverkun, hafa verið mjög í verði um hvorntveggja markaðinn, og reynsla okkar á þessu ári sýnir það, að verð harðfisksins er hærra en verð saltfisksins. Það má geta þess, að fyrir togaraveiðina — nema ufsann — skiptir harðfiskmarkaðurinn ekki eins miklu og fyrir smáútgerðina.

Annars má segja það, að hversu miklum hæfileikum, sem fisksalar togaraútgerðarinnar eru gæddir. þá hafa þeir alls ekki reynt að afla markaða fyrir harðfisk, heldur aðeins fyrir saltfiskinn. Þeir hafa ekki heldur gert þá einföldu og sjálfsögðu tilraun, að fá kunnáttumenn frá Noregi til þess að leiðbeina um harðfiskverkun. Yfirleitt má segja það um þessa menn, að þó þeim hafi komið einhver ráð í hug til þess að bæta eða afla markaða, að þá hafa þeir ekki framkvæmt sínar hugmyndir eða þá hætt við sínar tilraunir á miðri leið. (JJós: Þeir hafa ekki haft takmarkalaust ríkisfé til umráða). Nei, en þeir hafa haft takmarkalaust milljónafé til þess að eyða í töp í markaðslöndunum.

Ég efast ekki um það, að Sigurður Kristjánsson, hv. 6. þm. Reykv., mundi geta safnað sér fleiri atkv. meðal sjálfstæðismanna en ég. Ég hefi aldrei hrósað hér af kosningafylgi innan Sjálfstfl. og mun ekki reyna að seilast eftir því, enda er mín staða í fiskimálanefnd ekki sú, að gæta hagsmuna stórútgerðarmanna, heldur hagsmuna ríkis og alþýðu, sem ég er kosinn af. Þá las hv. 6. þm. Reykv. og gerði að umtalsefni bréf frá fiskimálanefnd til S. Í. F. Ég gæti vel unað því, að tekin væri til umr. starfsemi S. Í. F. Þar er margar veilur að finna. Hv. þm. vísaði til till., sem kom fram frá stjórnarformanni S. Í. F., Magnúsi Sigurðssyni bankastjóra, 16. ágúst, um að senda mann í markaðsleit til Suður-Ameríku og Cuba, en hann gat ekki um það, að ég hafði áður flutt stjórn S. Í. F. orð frá fiskimálanefnd um, að hún vildi láta senda mann í markaðsleit til Cuba og Suður-Ameríku. Ég ítrekaði þetta á fleiri fundum, þó það væri ekki bókað, en ég veit, að fundarmenn bera mér vitni í þessu efni. Svo var þetta auðvitað samþ., þegar till. kom frá form., Magnúsi Sigurðssyni. Hinsvegar dróst það lengi, að nokkuð væri gert, en þegar búið var að samþ. að senda mann, en ekki búið að ákveða, hver fara skyldi, kom fram till. frá mér um að senda ódýran mann, sem gæti varið löngum tíma í ferðina og kynnt sér vel þá möguleika, er hann kynni að finna. Það liggur í augum uppi, að framkvæmdarstjóri fyrir allri saltfiskssölunni hefir minni tíma og ferðast öðruvísi og dýrar en óbreyttur maður, þó vel hæfur sé, sem getur í góðu næði kynnt sér markaðinn og síðan, ef svo ber undir, sezt að í þeim löndum sem umboðsmaður okkar. Þannig hafa Norðmenn það. Sá maður, sem við stungum upp á í fiskimálanefnd, var maður, sem enginn gat fundið að. Hann hafði nægilega málakunnáttu og hafði sem starfsmaður hjá S. Í. F. reynzt mjög vel. Því mótmælir ekki hv. 6. landsk. (SK: Ég er 6. þm. Reykv.). Hann verður það ekki næst, því þá fellur hann, aðeins von, að hann verði 6. uppbótarþm. Nei, hv. 6. þm. Reykv. kom því til leiðar, að sendur var framkvæmdarstjóri í þessa ferð, af því það væri svo nauðsynlegt, að einmitt slíkur maður væri við opnun markaðanna, væri fyrsti maður við samningana. Þessa ástæðu gátum við ekki fallizt á.

Eftir að það var ákveðið í S. Í. F. að senda framkvæmdarstjóra í þessa ferð, fór S. Í. F. fram á það, að fiskimálanefnd tæki þátt í sendikostnaðinum að einhverju leyti. við því gaf fiskimálanefnd það svar, sem hv. þm. las, og ég er þess fullviss, að almenningur er samþykkur því svari. Þar buðum við að vissu leyti meira en beðið var um. Við buðum að greiða ekki einasta hálfan ferðakostnað, heldur líka hálft kaup sendimanns, þ. e. a. s. ef gengið væri að þeim skilyrðum, sem nefnd eru í bréfinu, að við samþykktum manninn, að hann hefði hóflegt kaup og ferðakostnað, og svo það, að hann dveldi í löndunum 6 til 12 mánuði. Ef menn eru sannfærðir um, að rétt sé að kynna sér markaði í svo stórum löndum, er nauðsynlegt, að maðurinn komist vel inn í hlutina. Það er lítið gagn að því, að hann stanzi 1—2 daga í hverri borg, tali við einhvern einn fisksala og semji við hann um að gerast umboðssali. Nánari kynni af allri aðstöðu er nauðsynleg. Það er auðseð, að á 2—3 mánuðum er ekki hægt að vinna þetta verk, ef það á að koma að gagni fyrir útgerðina í heild. Aftur á móti skýrði fiskimálanefnd frá því, að hún mundi ekki taka á sig kostnað við venjulega markaðsleit fyrir saltfisk, venjulegan rekstrarkostnað S. Í. F. En ef um bókstaflega kynningu markaðanna væri að ræða, þá var fiskimálanefnd reiðubúin til þess, enda vari þessu þá hagað skynsamlega, bæði með kaupgjald og annað.

Ég ætla ekki að fara út í það, hvernig störfin hafa gengið hjá Sölusambandinu, en ég vil þó algerlega mótmæla því, sem hv. 6. þm. Reykv. var að tala um, svigurmæli mín um Magnús Sigurðsson bankastjóra og formennsku hans í stjórninni. Ég hefi ekki minnzt einu orði á þetta. Aftur á móti get ég staðið við það, að samkomulag innan þessarar stjórnar meðal forstjóranna er mjög fjarri því, sem það ætti að vera, og það er verra samstarf milli manna þar heldur en í fiskimálanefnd, og eru þó á báðum stöðum menn af mismunandi pólitískum flokkum. Ég hefi ekki kennt formanni stjórnarinnar þetta. Þar liggja ýmsar aðrar ástæður til, sem of langt mál yrði að rekja, svo lengi sem ekki er farið út í eldhúsumr. um S. Í. F. En ég hygg, að meðan ekki er meiri eining í starfsemi Sölusambandsins heldur en nú, sé ekki á það bætandi verkum frá því, sem nú er.