05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Með bráðabirgðal. 8. maí síðastl. voru l. þau gefin út, sem prentuð eru sem fskj. með þessu frv., og eru þau nú lögð fyrir Alþ. skv. fyrirmælum stjskr. Þessi l. voru sett vegna ýmsra viðskiptaörðugleika á erlendum markaði, eins og segir í grg. l., og til þess að ríkisstj. gæti séð um, að vörum væri deilt niður á löndin sem réttlátast, og svo sem þægilegast væri fyrir íslenzk vörukaup. Annars hefði getað farið svo, ef þessi l. hefðu ekki verið til, að til sumra landa, eins og t. d. Þýzkalands, hefðu hrúgazt vörur og við orðið að kaupa þar meira en hagkvæmt var fyrir landið. Og í þeim takmörkunum, sem gilda hjá flestum þjóðum, verður þetta að skoðast sem óhjákvæmileg heimild handa ríkisstj. Mér er ekki alveg kunnugt um, hvernig þetta hefir verið notað í framkvæmd, en það hefir a. m. k. orðið til þess, að ríkisstj. hefir getað fylgzt með því, hvert vörurnar fara. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja meira um þetta frv., en ég álít, að það sé óhjákvæmilegt að hafa þessa heimild handa ríkisstjórninni vegna viðskiptaörðugleika á erlendum markaði.