05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Eins og hv. dm. sjá, hefi ég ekki skrifað undir nál. Á hinn bóginn hefi ég ekki gefið út sérstakt nál., því það virðist dálítið erfitt að taka þetta mál eitt út af fyrir sig. Það er ekki hægt að neita því, að þetta mál er einn liður í stórri keðju, og því erfitt að einangra það. Það er alveg rétt, að vegna samninga okkar við aðrar þjóðir, eins og t. d. Þýzkaland, er erfitt að komast hjá því að gera ráðstafanir til þess að ríkisstj. geti fylgzt með, hvað flutt er út. Á hinn bóginn hefi ég ekki mælt með frv., af því, að þetta er miklu alvarlegra og víðtækara mál en gerð hefir verið grein fyrir, því það kemur inn á mörg hagsmunamál, eins og, t. d. þeirra, sem selja gjaldeyri eða kaupa hann. Við skulum taka eitt dæmi. Það getur verið góður markaður í einu landi fyrir útflutningsvörur okkar, þó að það bjóði ekki eins aðgengileg kjör á kaupum á móti. En þessi heimild gæti orðið til þess, að þarna væri hindruð mjög heppileg sala. Þetta getur snúizt þannig, að það verði útflutningi okkar til tjóns og að sá, sem vöruna kaupir, hagnist á kostnað þess, sem út flytur.

Það er alkunnugt, að útflytjendur hafa orðið fyrir þungum búsifjum af gjaldeyrisskömmtuninni, og enginn ber á móti því, að í raun og veru er íslenzka krónan ekki eins há eins og hún er skráð. En ef þeir fengju gjaldeyrinn lausan, þá gætu þeir selt vöruna hærra verði heldur en þegar gjaldeyririnn er skammtaður. Ef þessu er svo bætt ofan á, þá er þungri kvöð bætt ofan á þá kvöð, sem fyrir er. Ég vil ekki segja, að hægt sé að komast hjá þessu, en ef þetta er nauðsynlegt, þá þarf, er til framkvæmda kemur, að vera búið svo um þetta, að allir geti verið vissir um, að á engan sé hallað. Í frv. segir, að ríkisstj. sé heimilt að skipa svo fyrir, að leyfi atvmrh. þurfi til þess að mega selja eða flytja til útlanda hverskonar lýsi, síldarmjöl, fiskmjöl, beinamjöl, fiskbein, hrogn, gærur og skinn, ull og harðfisk. Og í 2. gr. frv. segir, að ríkisstj. geti falið ákveðnum embættismönnum, stofnunum eða nefndum úthlutun útflutningsleyfa og aðra framkvæmd laga þessara og sett um þetta nánari reglur, eftir því sem þurfa þykir.

Hér er ekkert búið um hagsmuni þeirra, sem vöruna selja, eða m. ö. o. útflytjendanna. Það er að vísu sagt, að hægt sé að fela einhverjum stofnunum umsjá útflutningsleyfa. En ég álít, að þetta sé óvenjulega laust orðað, og það ætti að útbúa þetta þannig, ef leggja þarf þessa kvöð á útflytjendur á annað borð, að skipuð væri sérstök nefnd í þessu skyni, þar sem í væru fulltrúar þeirra, sem hefðu mestra hagsmuna að gæta í þessum efnum.

Það getur vel verið, að það mætti segja sem svo, að ég ætti að bera fram ákveðna till. um þetta, en ég veit ekki hvort það er bein nauðsyn á löggjöf um þetta efni eins og hér um ræðir. En ég treysti mér ekki til þess að bera fram till. um svo yfirgripsmikið mál sem þetta er. En hinsvegar hefir stj. ýms tækifæri til þess að afla sér upplýsinga um það, sem hér er um að ræða. Ég hefi af þeim ástæðum, sem ég hefi nefnt, ekki treyst mér til þess að fylgja meiri hl. n. að málum.