12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Mér skildist á hv. þm. G.-K., að hann sé mér sammála um það, að ómögulegt sé að láta það með öllu afskiptalaust, hvert útflutningurinn beinist. Hinsvegar fannst mér hann halda því fram, að þær ráðstafanir, sem gerðar væru til þess að beina útflutningnum að vissum löndum, mætti ekki eingöngu miða við það, hvar hægt væri að fá ódýrastar vörur fyrir gjaldeyrinn. Ég er honum að nokkru leyti sammála um þetta, enda hefir verið við úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa tekið fyllsta tillit til hvorratveggja, framleiðenda og neytenda, í þessu efni. En það er annað, sem þarf að athuga, og það er það, hvaða vörur eiga að ganga fyrir sölu í hverju landi. Þeirri reglu hefir verið fylgt óskorað að láta þær vörur, sem hafa þröngan markað, sitja fyrir öðrum vörum í þeim löndum, þar sem þær eru seljanlegar. T. d. hefir sá ísfiskur, sem ekki hefir selzt í Englandi, verið seldur til Þýzkalands, því til annara landa er ekki hægt að selja hann. Það, sem selt er til Þýzkalands af ísfiski, má því kalla fundið fé. Þess vegna er sjálfsagt að nota söluheimild hingað fyrir ísfisk svo sem hægt er.

Þar næst er athugað um þær vörur, sem selja má til fleiri landa, hvar hægt er að fá hæst verð fyrir þær. Söluheimild í Þýzkalandi er fyrst og fremst notuð fyrir ísfisk. Ennfremur hefir verið gert ráð fyrir að selja þar mikinn hluta af síldar- og fiskimjöli, af því markaður fyrir þær vörur er þar beztur. Á síðasta ári hefir og verið selt nokkuð mikið af ull og gærum þangað. Hefir sú aðferð verið notuð við úthlutun vöruleyfa þangað, að leyfa sölu á svo miklu af ísfiski sem hægt var, þar næst svo miklu af mjöli, sem fært þótti, og síðan ull og gærum eftir því sem ástæður leyfa. Við höfðum ótta af því, ef mikil síldveiði yrði í sumar, þá yrði ekki hægt að veita söluleyfi fyrir landbúnaðarafurðir, en með síldveiðina fór eins og menn vita, að hún varð litil, svo að sala á gærum og ull gat orðið mikill á þessu ári. (JS: En bændum hefir átt að blæða). Það gat farið svo, að einhverjum yrði að blæða, og þá var sjálfsagt að láta það ráða, hvaða vörutegundir voru þar í hlutfallslega hæstu verði, miðað við verðlag annarsstaðar. Þá skal ég taka það fram viðvíkjandi kaupum á rörum frá Þýzkalandi, að það hefir verið beint þangað viðskiptum á vörutegundum, sem hafa verið þar miklu dýrari en annarsstaðar, ef sá verðmunur hefir ekki verið meiri en það, sem íslenzkar vörur seldust var hærra. Þetta hefir verið talið sjálfsagt, og þýðir ekki að reyna að draga fjöður yfir það, að útflytjendur hafa þannig notið nokkurra fríðinda á kostnað þeirra, er nota innfluttu vörurnar.

Mér skildist það á hv. þm. G.-K., að hann teldi heppilegt, að í n. þeirri, er ræður yfir útflutningnum, væri fulltrúi frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, en ekki frá fiskimálanefnd; en ég vil benda honum á, að það hafa flokksbræður hans í hv. Ed. ekki viljað samþ., heldur að fulltrúi fiskimálanefndar skyldi sitja áfram í þessari n. Ástæðan til þessa er sú, að S. Í. F. hefir ekki með að gera sölu á öðru en saltfiski, og af saltfiski fer því nær ekkert til Þýzkalands. Hinsvegar fer mikið af ísfiski þangað, og ennfremur er nokkur von til þess, að nýbreytni sú, er hafin var á þessu ári um verkun og sölu á sjávarafurðum, beinist kannske allverulega til Þýzkalands. Ég álít því í alla staði eðlilegt, að fulltrúi sjávarútvegsins sé einmitt frá fiskimálanefnd, eins og líka hv. Ed. hefir álitið vera réttast.