12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundason) [óyfirl.]:

Mér skildist á hv. þm. Vestm., að hann hefði tekið að sér það hlutverk að veita mér ákúrur fyrir aðgerðir mínar í sambandi við innflutningsleyfin frá Þýzkalandi. Ég neita því alveg að verðskulda slíkar ákúrur frá honum. Það er ekki til neins að stinga höfðinu ofan í vatn og neita því, sem hver maður veit, að það hefir verið sótt meira eftir sölu til Þýzkalands heldur en hægt hefir verið að veita leyfi fyrir. Það, sem gert hefir verið í þessu efni, er það, að hverju skipi hefir verið úthlutað leyfi til að selja fyrir vissa upphæð. Ég hefi engan heyrt hafa á móti þessu eða að nokkur ágreiningur hafi verið um þetta. — Það, sem ég hefi á móti Þýzkalandsmarkaðinum, er ekkert annað en það, sem hver maður veit, að markið er svo hátt. Þetta er ekki annað en það, sem ýms önnur lönd, sem eru í sömu kringumstæðum og við, verða að sætta sig við. — Ég get látið þetta nægja hér, en það er vitað, að blöðin gera þetta mál daglega að umræðuefni, og þess vegna hlýtur öllum, sem þau lesa, að vera kunnugt um „kvótann“ til Þýzkalands. — Hv. þm. Vestm. vildi telja, að meðferð bankanna á ríkismörkum hefði verið mjög slæm. (JJós: Ég átti við Landsbankann). Ég veit ekki, hvaða ástæða er til að draga það inn í þessar umr., en hitt veit ég, að bankarnir afreikna mörkin um leið og þau eru noteruð í Þýzkalandi. Mér er ekki vel ljóst, hverjar ráðstafanir bankarnir út af fyrir sig rétt gert til þess að flýta fyrir greiðslu á þessum vörum, annað en það, að þeir keyptu mörkin um leið og þau koma í konto í Þýzkalandi. Mér skilst, að hv. þm. telji, að það hafi ekki verið sýnd nægilega mikil umhyggja fyrir því að beina vörukaupunum til Þýzkalands. Hv. þm. veit, að gjaldeyrisnefndin hefir fyrirmæli um þetta frá ríkisstj. og gerir allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að beina viðskiptunum þangað, jafnvel þó að talsverður munur sé á verði þar og annarstaðar; þannig hafa verið veitt leyfi fyrir vörum frá Þýzkalandi, sem ekki hefir fengizt leyfi til að flytja inn frá öðrum löndum. Ég hefi gaman af að vita, hvort hv. þm. veit um nokkurt tilfelli, þar sem þetta hefir ekki verið svona. En ástæðan til þess, að gengið hefir verið afreiknað fljótar í haust en í fyrra, ætla ég, að hv. þm. Vestm. ætti að vera kunnug. Það er engin launung, að Landsbankinn fær um þann tíma, sem „dauður“ er, að safna skuldum, sem svo eru greiddar, þegar afurðir okkar fara að seljast í Þýzkalandi. Þetta ætti hv. þm. Vestm. að vera sérstaklega vel kunnugt um, því að hann hefir töluvert kynnzt þessum málum, bæði af viðræðum við menn í Þýzkalandi og svo hér heima. En þetta breytir ekki því, sem er höfuðatriði þessa máls, sem sé því, að ef áætlunin hefði staðizt, þá var fyllsta ástæða til að óttast, að fyrir safnaðist meiri gjaldeyrir í Þýzkalandi heldur en skynsamlegt væri að gera ráð fyrir, að hægt eigum kost á. Ég vil benda á það, að það er ástæða til að ætla, að ef síldveiðin hefði reynzt sæmileg í ár, þá hefðum við þurft að selja að mjög miklu leyti til Þýzkalands 12—14 þús. tonn af síldarmjöli auk fiskjarins fyrir um 200 kr. tonnið. Hefði það út af fyrir sig numið meiru en tveim millj. króna. En það, sem mestu munaði um útflutninginn til Þýzkalands, var það, að síldarmjölsframleiðslan var miklu minni, og þannig var það tryggt, að hægt var að selja matjessíld fyrir töluvert hátt verð. Ég skildi ekki almennilega niðurlagsorð hv. þm. Hann leiddi, svo sem við mátti búast, hjá sér að minnast á þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af ríkisstj. til þess að reyna að selja ísfisk til Þýzkalands. Ég tók svo eftir, að hv. þm. segði, að ýmsir menn, sem hefðu viljað kaupa vörur frá Þýzkalandi. hafi fengið synjun um leyfi. Ég hygg, að þetta geti ekki verið rétt, nema í þeim tilfellum, að ekki hafi þótt yfirleitt fært að leyfa innflutning á þessum vörutegundum. Ég hefi aldrei fengið neina staðfestingu á því, að mönnum hafi verið neitað, ef á annað borð hefir þótt fært að leyfa innflutning á vörunni, og ef maðurinn hefir ekki verið búinn að nota sinn innflutningskvóta.