12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. ráðh. var eitthvað að tala um ákúrur frá mér. Mér finnst það óþarfi að taka það sem ákúrur, þó að þm. láti uppi álit sitt á máli, sem fyrir liggur. Ég kannast ekki við að hafa gert það. Hitt veit ég að hér er verið að draga viðskiptasamninga milli landa inn í umr. Hæstv. ráðh. tók það svo greinilega fram í sinni fyrstu ræðu, að ekki var hægt að sjá annað en að honum hafi legið það mjög þungt á hjarta, að það yrði ekki allt of mikið umr.-efni, að þessu frv. er mest stefnt gegn einu landi. Ég hefði ekki haft tilhneigingu til að taka til máls um þetta, et hæstv. ráðh. hefði ekki sérstaklega undirstrikað þetta í sinni seinni ræðu. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði ekki undan neinu að kvarta, en mér skildist sem prívatmaður. Ég er ekkert að tala um mig persónulega í því sambandi. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefir meint það, en ég hefi ekki talað um þetta öðruvísi en almennt. — Þá vil ég benda á það, að ísl. ríkisstj. lagði mikla áherzlu á það í vor, að ekki yrði takmarkaður útflutningur af haframjöli frá Þýzkalandi til Íslands fyrr en í apríl. En eins og kunnugt er, hafa Íslendingar að undanförnu keypt mikið af haframjöli í Þýzkalandi. Þegar um það fréttist, að bannaður væri útflutningur af haframjöli frá Þýzkalandi, bað ísl. ríkisstj. mig að reyna að kippa þessu í lag, og það var að nokkru leyti fyrir mína milligöngu, að þetta fékkst lagað. Þýzka ríkisstj. gerði sérstaka ráðstöfun til þess, að þykir haframjölsframleiðendur gætu flutt út til Íslands, þó að þeir gætu ekki flutt til annara landa. Auðvitað var þeim ekki bannað það, heldur hafði ríkisstj. kippt að sér hendinni með það að styðja útflytjendur með tollaeftirgjöfum. En fyrir tilmæli ísl. ríkisstj. voru gerðar sérstakar ráðstafanir til að greiða fyrir útflutningi á tilteknu magni. Ég varð þess var eftir að ég kom hér heim, að stórir haframjölsnotendur höfðu ekki haft tækifæri til þess að birgja sig, en ég benti þá einmitt á, að við þyrftum að birgja okkur upp í tíma, því að viðbúið væri, að það kæmi „dauður“ tími hjá mjölsútflytjendum fram yfir uppskerutíma. Ég fékk þau svör frá haframjölsinnflytjendum, að þeir hefðu fengið innflutningsleyfi fyrir 10 tonnum. Svona var þetta nú þá, en verið getur, að innflutningsn. hafi tekið sig á og lagfært þetta, e. t. v. þegar það var orðið of seint.

Annað dæmi skal ég nefna í þessu sambandi. Það voru nokkrir kaupsýslumenn hér í Reykjavík, sem lögðu sig eftir því að fá upplýsingar um kaup á þakjárni í Þýskalandi. Þetta komst svo langt, að stórt firma hér átti kost á að fá góð kjör, ef það tæki nógu mikið. Það var vitaskuld eðlilegt, að þegar framleiða á nýja vörutegund, þá sé ekki hægt að gera það með góðum kjörum nema því aðeins, að það sé gert í nokkuð stórum stíl. Var því gert að skilyrði, að tekin voru nokkur hundruð tonn af járni, en íslenzku kaupsýslumennirnir sögðust ekki geta fengið leyfi nema fyrir nokkrum tugum tonna. Það kann að hafa verið um þetta eins og hitt, en mér er ekki kunnugt um það. Það má í þessu sambandi benda á, að ef það er stefna ríkisstj. að bæta markaðsmöguleika okkar í einhverju landi með því að kaupa af því landi vörur, sem við höfum áður keypt annarsstaðar, þá er ráð ekki leiðin til þess að umleggja viðskiptin að hamla þeim mönnum að kaupa verulegt magn af vörum, sem hafa mesta kaupmannsþekkingu og hafa lagt vinnu í að fá hin beztu sambönd og eiga kost á að fá vörur fyrir sæmilegt verð. Frá mínu sjónarmiði er það eðlilegast, að innflutningsn. skipti jafnt og í réttu hlutfalli innflutningsleyfunum milli manna.

Ég vona, að hæstv. ráðh. skilji, hvað ég á við í þessu efni. Ég hafði ekki ætlað mér að gera þessi viðskipti að almennu umtalsefni, og hefði ekki gert það, ef ekki hefði verið getið tilefni til þess.