12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Atvmrh. Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af ummælum hv. þm. G.-K.

Það eðlilega og sjálfsagða er, að útflytjendur fái að selja þar, sem verð er hæst. Nú má oft deila um það, hvaða verð sé hæst eða hvar. Segjum, að um sé að ræða ákveðið verð í clearingvalútu og að tilsvarandi verð í sterlingspundum sé lægra, þá er það viðurkenning á því, að clearingvalutan er ekki eins mikils virði og pundin, svo að verðið verður hærra, miðað við hana. Það segir sig sjálft, að enginn fer að borga hærra verð fyrir voru, keypta á ákveðnum markaði, en hann þarf að borga annarsstaðar. Ef hann greiðir hærra verð á einum stað en hann myndi þurfa að greiða á öðrum, þá er það sönnun þess, að á síðari staðnum er annaðhvort gjaldeyririnn hærri eða viðskiptin örðugri á einhvern hátt. Það gerir enginn að gamni sínu að kaupa vörur utanlands hærra verði en á heimamarkaðinum.

Ef ekki er trygging fyrir því, að menn fái andvirði seldrar voru með skilum innan sæmilegs tíma, þá er lítið gagn að viðskiptunum. Þessar hömlur eru settar til að tryggja það, að gjaldeyririnn komi á tiltölulega skömmum tíma, því að það er mönnum lítil bót að fá hann ekki fyrr en hver veit hvenær, að þurfa ef til vill að bíða upp undir ár.

Þar sem um er að ræða sölu á voru, sem ekki er hægt að koma út nema í einu ákveðnu landi, er sjálfsagt að reyna að greiða fyrir innflutningi frá því landi og reyna að hafa hann ekki miklu minni en útflutningurinn þangað. Þetta hefir verið sú meginlína sem lagt hefir verið fyrir gjaldeyrisn. að starfa eftir. Mér skildist á hv. þm. G.-K., að hann áliti, að við fengjum ekki eins mikið fyrir okkar gjaldeyri og hann er verður, og mér skildist á honum, að hann teldi viðskipti okkar við Þýzkaland mundu verða auðveldari, ef krónan yrði felld. Ég skil ekkert í, að hv. þm. skuli álíta þetta. Lækkun krónunnar myndi ekki hafa minnstu áhrif í sambandi við þetta frv.

Þá sagði hv. þm., að kröfur útgerðarmanna um allt land færu í þá átt, að fiskimálan. yrði lögð niður og verkefni hennar fengin sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, og því væri það skylda, samkv. öllum lýðræðisreglum, að leggja niður fiskimálan. Ég veit nú ekki, hvernig honum getur verið kunnugt um hug allra útvegsmanna á landinu. Ég veit a. m. k. um marga, sem eru allt annarar skoðunar.

Í stj. sölusambandsins eru 2 menn skipaðir af ríkisstj., en í fiskimálan. er þó ekki nema einn skipaður af þessari illu ríkisstj. Hinir eru skipaðir af félagi togaraeigenda o. fl. Ég skýt þessu aðeins að hv. þm. til hugleiðingar.

Viðvíkjandi dæminu, sem hv. þm. Vestm. drap á, er ég ekki undir það búinn að leggja fram gögn í málinu. Þó þykir mér ósennilegt, að í staðinn fyrir 2000 tonn af haframjöli hafi ekki fengizt innflutningsleyfi fyrir meira en 20. Að því er snertir þakjárn, liggja fyrir skilríki um það, að einn innflytjandi, sem vildi kaupa stórt „partí“, fékk ekki leyfi fyrir nema nokkrum tonnum, af því að hann var búinn að nota sinn kvóta.

Örðugleikar þessara viðskipta liggja í því, að þótt menn vilji beina viðskiptum til ákveðins lands, þá er ekki hægt að gera það örar en beiðnir manna um innflutningsleyfi koma fram, því að ekki er hægt að láta einn eða fáa fá allan innflutninginn á kostnað annara.

Hinsvegar get ég bent á, að til er líka önnur leið, sú, að láta ríkisstj. vera heimilt að gera þessi innkaup, þegar ástæður eru svo, að þau væru heppileg fyrir þjóðarheildina. Það segir sig sjálft, að því myndi engin áhætta fylgja, þó að ríkisstj. hefði keypt 2000 tonn af haframjöli á heppilegum tímum. En hitt er ekki gert á hálfum mánuði eða þrem vikum, að taka saman öll þessi leyfisbréf, þar sem ekki er fyrirfram vitað, hvernig greiðslumöguleikum umsækjenda er háttað, þó að þeir vilji kaupa.

Hv. þm. let svo um mælt, að innflutnings- og gjaldeyrisn. mætti ekki setja það fyrir sig, þó að einn fengi að flytja inn öðrum meira; hún yrði að líta stórt á hlutina. Ég vildi óska, að þetta væri hægt, en svo er því miður ekki. Það er gallinn á þeim verzlunarháttum, sem við búum nú við.