13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég kvaddi mér hljóðs í gær, því að ég vildi fá tækifæri til þess að segja nokkur orð við þessa umr. Fulltrúar sjávarútvegsins hafa látið töluvert til sín heyra undir þessum umr. og þykir mér því rétt, að einhver sveitamaður láti og eitthvað til sín heyra í þessu máli, því að það skiptir sveitamenn nokkru, enda þótt ég játi, að við séum smáir samanborið við sjávarútvegsmennina.

Hæstv. atvmrh. upplýsti í gær undir þessum umr., að sala á ull og gærum til Þýzkalands hefði orðið leyfð, aðeins lítilsháttar, ef síldveiðin hefði ekki brugðizt. M. ö. o., ef allt hefði verið með felldu, hefði sama sem ekkert fengizt flutt af landbúnaðarafurðum til Þýzkalands, þrátt fyrir það, þó að verð á ull og gærum hafi nú verið miklu hærra þar en undanfarið. Hæstv. atvmrh. sagði einnig, að því aðeins væri rétt að selja vörur til lands eins og Þýzkalands, ef ágóðinn af sölu varanna þangað, samanborið við að selja þar annað, næmi meiru en því, sem vörur þær, sem þaðan væru keyptar aftur, væru dýrari en annarstaðar. Þegar slíku sem þessu er haldið fram, þá verður manni á að spyrja, fyrir hvað framleiðandinn eigi að kaupa sínar nauðsynjar, þegar svo mjög er þrengt að honum fyrir neytandann, að hagsmunir hans eru alveg látnir víkja. Ég leyfi mér jafnframt að spyrja: Er ríkisstj. tilbúin til þess að taka á móti t. d. stórum hóp sveitamanna, sem óhjákvæmilega hlýtur að flosna upp frá búum sínum, ef haldið verður áfram á þessari braut ? Þegar svo við þetta bætist, að fá ekki að selja framleiðsluvörurnar þar, sem beztur er markaðurinn. Þar sem við verðum að horfast í augu við, að gjaldeyririnn er tekinn frá okkur, eins og öðrum framleiðendum, fyrir lægra verð en raunverulega er rétt, þá finnst mér fokið í flest skjól, og verður tæplega annað sat en að við séum látnir sæta afarkostum. Í fyrra var samþ. að veita úr ríkissjóði 150 þús. til verðuppbótar á útflutt kjöt, af því að nauðsynlegt þótti að réttu bændum hjálparhönd, en núna, nokkrum mánuðum síðar, skilst mér, að hin sama ríkisstj., sem var með þessu aukaframlagi til bændanna, sé nú reiðubúin til þess að gera samning, sem sviptir þá tvöfaldri þessari upphæð. Vægast sagt finnst mér þetta mjög vafasöm ráðstöfun.

Hvað síldarsöluna til Þýzkalands snertir, þá greip forsjónin þar í taumana. Síldin veiddist ekki, því miður, en afleiðingin varð aftur sú, að ull okkar og gærur hafa verið seldar til Þýzkalands, að mestu leyti að minnsta kosti, og það fyrir nokkru hærra verð en hægt var að fá fyrir þær vörur annarsstaðar.

Ég skal játa, að eins og nú standa sakir er ekki hægt að komast hjá því að hafa nokkra íhlutun um sölu afurðanna, en dæmi það, sem ég hefi rakið hér, sýnir ljóslega, hve hættulegt það getur verið, ef afskiptum hins opinbera af þessum málum er hagað þannig, að eingöngu sé litið á hag neytendanna, en ekkert á þarfir framleiðendanna.

En framleiðendur verða þá líka að hafa tryggingu fyrir því, að ekki sé gengið á hlut þeirra. Að n. sé þannig skipuð, að þeir megi treysta því, að þeirra hlutur sé ekki fyrir borð borinn. sé það ekki, vænti ég mér ills eins af þessari ráðstöfun f. h. okkar bændanna.